Að kosningum loknum


Undirstöður lýðveldisins verða að vera traustar til að stöðugleiki haldist.

Arnar Þór Jónsson

Niðurstaða kosninganna er að þjóðin vill stöðugleika.

Prófkjör sjálfstæðismanna í Kraganum sl. vor fól einnig í sér skilaboð um stöðugleika, þar sem fjórir sitjandi þingmenn voru valdir til áframhaldandi setu í þeim sætum, en ég kjörinn í 5. sætið. Mikill stuðningur við minn málflutning dugði ekki til að fleyta mér inn á Alþingi. Persóna mín skiptir þó engu máli hér. Í stóra samhenginu skiptir öllu að þingmenn ræði af heilindum um áhrifaleysi Íslands innan EES, um skæðadrífu erlendra lagareglna sem Alþingi hvorki breytir né afnemur að eigin frumkvæði, um skort á lýðræðislegu aðhaldi o.fl. Til eru þeir, jafnvel í hópi lögfræðinga, sem ekki vilja að athygli sé beint að þeirri staðreynd að lög Íslendinga eru nú að stórum hluta samin af fulltrúum annarra þjóða og gefin út í nafni yfirþjóðlegra stofnana. Framangreint réttarástand er ósjálfbært, ótryggt, ögrun við lýðræðið og opnar möguleika á misbeitingu valds.

Um þetta er skylt að ræða.

Skilyrðislaust bann verður ekki lagt við því að embættismenn taki þátt í slíkri umræðu, enda hljóta þeir að mega vera trúir samvisku sinni og sannfæringu. Hér sem annars staðar ber að árétta að ásýndin má ekki bera inntakið ofurliði og að kerfið er ekki mikilvægara en fólkið sem það á að þjóna.

Ég bauð fram krafta mína til að leiða upplýsta umræðu um þessi mál á Alþingi og til að vara við því að við framseljum valdið úr landi, enda sýnir sagan að slíkt getur haft neikvæð áhrif á hagsæld Íslands til lengri tíma. Vonandi taka nýkjörnir þingmenn þetta hlutverk að sér. Þar má einna helst binda vonir við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, enda var sá flokkur stofnaður m.a. í þeim tilgangi að stuðla að sjálfstæði þjóðarinnar. Brýnt er þó að aðrir víkist ekki undan ábyrgð í þessum efnum. Að því sögðu óska ég öllum þingmönnum góðs gengis, landi og þjóð til heilla.

Höfundur er lýðræðis- og lýðveldissinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *