Kjarnaofnar og hjólaskýli

Eftir Arnar Þór Jónsson:

Arnar Þór Jónsson

Í ágætri Morgunblaðsgrein 23. febrúar sl. velti Hjörleifur Guttormsson fram mikilvægri spurningu: „Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum?“ Eina athugasemd mín við grein Hjörleifs er sú að ég tel að tilvísun hans í grein mína „Kreppa lýðræðisins?“ hefði mátt vera nákvæmari. Ég tel ekki að þjóðin hafi með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum, heldur að meirihluti Alþingis hafi við innleiðingu þriðja orkupakka ESB sleppt höndunum af umræddum stjórntækjum með því að misvirða í framkvæmd þá fyrirvara sem settir voru í EES-samninginn af hálfu þjóðarinnar – og voru raunar forsenda þess að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samstarfinu. Hjörleifur á þakkir skildar fyrir grein sína að öðru leyti og þá ekki síst fyrir að draga athygli að því hvernig staðið var að innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi, en mál um það efni bíður nú úrlausnar í Hæstarétti Noregs. Ástæða er einnig til að þakka ritstjóra Morgunblaðsins fyrir þétt aðhald gagnvart Alþingi í þessu tilliti, sbr. nú síðast leiðara Morgunblaðsins 17. febrúar sl. þar sem varað var við því að „glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á mikilvægasta þráðinn“, þ.e. hinn lýðræðislega þráð sem tengir borgarana við valdið og á að tryggja að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart borgurunum.

Lýðræðið verður ekki til af sjálfu sér og lýðræðið viðheldur sér ekki sjálft”

Hjörleifur Guttormsson og Davíð Oddsson eru vissulega greindir og reynslumiklir menn, sem hafa mikla yfirsýn yfir hið pólitíska landslag. En hvað veldur þögn annarra, þar á meðal fjölmiðla, um þetta alvarlega mál? Er umræða um veika stöðu íslensks lýðræðis of flókin fyrir þjóð sem vill þó kenna sig við lýðræðislegt stjórnarfar? Getur verið að í landi þar sem enginn skortur er á fólki „með sterka réttlætiskennd“, sem er ófeimið við að tjá skoðanir sínar á öllu milli himins og jarðar, sé lýðræðið sjálft í einhverjum skilningi of flókið viðfangsefni til að það veki áhuga? Breski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn C. Northcote Parkinson hélt því fram, í gríni og alvöru, að sá tími sem varið er í umfjöllun um mál á stjórnarfundum sé í öfugu hlutfalli við vandann sem við er að fást. Sem dæmi nefndi hann að ákvörðun um hvort byggja ætti kjarnaofn gæti tekið nokkrar mínútur, en sömu menn gætu svo rætt í hálftíma um hönnun reiðhjólaskýlis og kostnað slíkrar byggingar. Munurinn er sá að menn vita hvað reiðhjólaskýli er.

Vörn gegn ofríki

Lýðræðið verður ekki til af sjálfu sér og lýðræðið viðheldur sér ekki sjálft. Lýðræðið þrífst ekki án virkrar starfsemi frjálsra félagasamtaka. Þess vegna er eitt af því fyrsta sem alræðisstjórnir gera að banna hvers kyns félagsstarfsemi sem stjórnvöld hafa ekki fullt forræði á. Þetta birtist skýrlega þegar kommúnistar náðu völdum í Austur-Evrópu. Sem innanríkisráðherra í kommúnistastjórn Rákosi í Ungverjalandi (1947-1956) stöðvaði János Kádár árið 1948 starfsemi 5.000 slíkra félaga á innan við 12 mánuðum. Engin félagsstarfsemi var óhult: Kórar, lúðrasveitir, skátastarf, leshópar, einkaskólar, leikfélög, gönguhópar, kirkjufélög, hjálparsamtök, bókasöfn, vínsmökkunarhátíðir, málfundafélög, veiðifélög o.fl.

Eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu voru fræðimenn og stjórnmálamenn sammála um það að besta vörnin gegn alræði væri borgaralegt samfélag, þar sem félagsstarfsemi, kirkjur, tónlistarklúbbar o.fl. gætu starfað óáreitt og blómstrað með virkri þátttöku almennings. Á sama tíma stóðu Vestur-Evrópuríkin frammi fyrir því að slíkt starf dróst saman, samhliða stöðugt dvínandi samfélagslegu trausti og óskýrri sýn á það sem kenna mætti við þjóðfélagslegan tilgang.

Á tímum kórónuveirunnar hefur tvennt gerst samhliða: Félagsstarfsemi hefur verið lömuð á sama tíma og stjórnvöld á Vesturlöndum hafa gripið til harðra aðgerða sem vísbendingar eru um að hafi verið úr hófi miðað við hættuna sem veiran skapaði. Fyrirmynd þessara aðgerða var sótt til alræðisríkisins Kína og hafa má raunverulegar áhyggjur af því fordæmi sem hér hefur skapast og hvort með þessu sé í reynd búið að plægja akur harðstjórnar til framtíðar litið. Í lýðfrjálsum ríkjum hlýtur það að vera meginmarkmið stjórnvalda að verja frelsi borgaranna til að haga daglegu lífi án ónauðsynlegra afskipta yfirvalda. Við kjósum ekki stjórnmálamenn í þeim tilgangi að þeir fari að leika hlutverk foreldra sem koma fram við okkur eins og börn, eða hvað? Íslendingar hafa heldur aldrei formlega kosið að lúta sérfræðingastjórn í reynd. Í því ljósi má velta því fyrir sér hvers vegna haldið er áfram að fyrirskipa fólki að ganga með grímur, jafnvel þótt engin kórónuveirusmit greinist í landinu. Hvað varð um það meginviðmið laganna að menn taki ábyrgð á eigin orðum og gerðum – og njóti frelsis í samræmi við þá ábyrgð? Ef viðmið reglusetningar er orðið að forða fólki frá þessari ábyrgð er eins gott að menn séu meðvitaðir um það frelsisframsal sem óhjákvæmilega fylgir með í slíkum kaupum.

Lokaorð

Lýðræðið tryggir ekki velsæld og velgengni. Það forðar okkur ekki frá mistökum eða frá veikleikum okkar sjálfra. En það er aðeins með því að taka ábyrgð sem menn geta gert tilkall til frelsis. Aðeins með því að stjórna sjálfri sér lærir manneskjan slíka stjórnun. Og það er aðeins með því að fá að taka ábyrgð sem maðurinn lærir hvers ábyrgðin krefst. Hið sama hlýtur að gilda um þjóðir. Að stjórna með lýðræði er eins og að sigla skipi á opnu hafi. Stefnuna þarf sífellt að vera að leiðrétta til að viðhalda réttri átt. Vindar, öldur og straumar bera skipið af leið, en áhöfnin þarf að halda vöku sinni. Þessi myndlíking ætti að vekja okkur til auðmýktar og hógværðar gagnvart verkefninu.

Lýðræðið þjónar engri þjóð sem ekki er tilbúin að þjóna því. Lýðræðið kemur ekki utan frá eða ofan frá eins og fyrir galdra. Þjóð sem vill búa við lýðræðislegt stjórnarfar verður sjálf að halda fundi, nýta tjáningarfelsið, félagafrelsið o.fl. Það birtist ekki sjálfkrafa hjá neinni þjóð sem ekki hefur undirbúið jarðveginn sjálf og sem ekki er tilbúin að axla ábyrgð á framkvæmd þess.

Höfundur er héraðsdómari.