Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum?

Hjörleifur Guttormsson skrifar m.a. í Mbl:

Veik staða lýðræðis

Hjörleifur Guttormsson

Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn undir fyrirsögninni Kreppa lýðsræðisins? vekur hann athygli á að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum. Arnar Þór spyr m.a.: „Getum við gengið að því vísu að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslensks löggjafarvalds og ráðherra sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð? Getur örríki eins og Ísland ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu?“ – Nú er viðurkennt að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg sem leiddi til hrunsins 2008. Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram að Ísland gæti hafnað reglum sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum. Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir sem hann byggist á. Norsku samtökin Nei til EU töldu eins og fleiri að þurft hefði þrjá/fjórðu þingheims til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar. Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi. Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar.

Hérlendis stefna bæði Viðreisn og Samfylking að inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Slík umsókn upptók þing og þjóð með ærnum kostnaði og sundrungu í samfélaginu á árunum 2009-2013. Brigður VG þá á eigin stefnu og fyrirheitum við stjórnarmyndun með Samfylkingunni vorið 2009 varð flokknum dýrkeypt og verður væntanlega ekki endurtekið. Píratar virðast enga stefnu hafa sem flokkur, en vísa á þjóðaratkvæði.

Afstaða stjórnmálaflokka og frambjóðenda til tengsla við Evrópusambandið sem og til annarra stórmála þarf að vera lýðum ljós nú í aðdraganda alþingiskosninga sem nálgast óðum.

Höfundur er náttúrufræðingur.