Samkeppnismálin eru líka fullveldismál

Löggjöfin evrópska er miðuð við stóra, virka markaði. Þessum lögum er beitt hugsunarlaust á okkar örsmáu, ófullkomnu markaði.

Ragnar Önundarson skrifar í Mbl:

Ragnar Önundarson

Það er hringavitleysa að lífeyrissparnaður þjóðarinnar skuli ávaxtaður í fákeppnisfélögum, sem taka sér þá álagningu sem þeim sýnist af neytendum, sem líka eru nefndir sjóðfélagar. Við inngönguna í EES fengu útflutningsfyrirtækin betri kjör á mörkuðum, sem nýtast eigendum þeirra vel. Stærstu útgerðarfélögin kaupa upp fyrirtæki í öðrum greinum, fákeppnisfélög auðvitað og „safna auð með augun rauð“. Stóru vonbrigðin með EES fá litla athygli, en allir lepja upp, hver eftir öðrum, að „þjóðin hafi hagnast mikið“ á inngöngunni fyrir 30 árum. Það er rétt, þjóðarbúið hefur hagnast, en ávinningnum er misskipt.

Hugmyndafræði og skynsemi

Fákeppni innflutningsfyrirtækjanna er vandamálið. Við setjum allt traust okkar á markaðsbúskap. Allir flokkar viðurkenna nú að áætlunarbúskapur er ekki leiðin. Kosningar fara í hönd og frambjóðendur flagga sinni hugmyndafræði. Að loknum kosningum neyðast þeir sem ná kjöri til að leggja þessi prinsipp til hliðar, gera málamiðlanir, mynda samsteypustjórn og gera það sem er skynsamlegt. Hvernig væri nú að beina umræðunni að því sem miður fer í EES og hvernig gera megi almenningi gagn hvað framfærslukostnað varðar, en hann er tvöfaldur m.v. mörg önnur Evrópulönd? Nennir enginn frambjóðandi að hugsa sjálfstætt? Nýleg skýrsla lögfræðinganefndar um þetta viðskiptafræðilega vandamál reyndist vitaskuld gagnslaus.

Milliliðir

Þótt allir vilji markaðsbúskap og samkeppni vill gleymast að huga að forsendunni, sem er að alvöru, virkir markaðir séu til staðar. Þetta hef ég margoft rætt. Lykilatriðið sem huga þarf að er, að á markaði skipta milliliðirnir milli framleiðenda og neytenda öllu máli. Þeir eru þarna til að hagnast, eins og aðrir, og því er mikilvægt að stuðla að hagkvæmni í þeirra rekstri. Það sem fólk veit almennt ekki er það, að allur hagnaður er tekinn vegna ófullkomleika markaða, sem oft er nefndur „skekkjur“.

Hugmyndin um „hinn fullkomna markað“, sem er ekki til, felur það í sér að hagnaður í skilningi hagfræðinnar hverfur, en til að gæta nákvæmni mundu fjárfestar þó ná markaðsávöxtun á eigið fé. Það hvernig milliliðirnir þróast er mikilvægt, vegna þess að til að hagnast umfram venjulega markaðsávöxtun, sem menn ná fyrirhafnarlaust á verðbréfamarkaði, verða milliliðirnir meðvitað að viðhalda skekkjum markaðarins. Forstjóri fákeppnisfélags sem asnast út í verðsamkeppni eykur ekki hag hluthafa félagsins, af því að hin fyrirtækin tvö til þrjú svara í sömu mynt. Afkoma greinarinnar versnar bara. Forstjórinn missir vinnuna. Að raska þessu „samsæri“ um sjálftöku er viðfangsefni sem hið opinbera gæti stuðlað að. Ekki er að sjá að Samkeppniseftirlitið glími við það, þvert á móti samþykkir það nær allar óskir um samruna og yfirtökur, sem eykur fákeppnina.

Nýjar leiðir

Að greiða fyrir netverslun með markvissum hætti væri nútímalegt. Hækkun þeirra marka sem ferðamenn mega koma með skattfrjálst yrði „eitur í beinum“ þeirra sem eru að basla við að reka dýra milliliði, en mundi ekki nýtast þeim sem minnst hafa milli handanna. Þróun milliliða á markaði má líka stýra og hvetja. Ríkið gæti t.d. látið vinna sérfræðilega skýrslu um það hvernig tengja mætti milliliði hérlendis við erlenda birgja með nýtingu á nýjustu tækni. Strikamerki nýtast í innkaupum og birgðahaldi hér og geta líka gert það yfir hafið. Costco, Ikea og Bauhaus eru ábyggilega búin að leysa það. Samið yrði í framhaldinu við öflugt fyrirtæki á dagvörumarkaði í nálægu landi (t.d. Sainsbury’s eða Tesco) um opnun útibúa hér á landi. Gámar kæmu skv. „just-in-time“-aðferðinni með vörunum sem eru að seljast o.s.frv. Ríkið mætti ekki styrkja þetta vegna EESreglna, en til greina kæmi, til að draga úr áhættu tilraunarinnar, að almannasjóðir s.s. lífeyrissjóðir kæmu að þessu með því t.d. að fjármagna húsnæði og tækjabúnað gegn umsaminni ávöxtun. Þeir hafa lengi hugsunarlaust fjárfest í hringavitleysunni og væru ekkert of góðir til að gera sjóðfélögum sínum gagn í staðinn. Þetta er auðvitað „hugarflug“ en orð eru til alls fyrst, eftir 30 ára þögn.

Fullveldi

Bretar gengu úr ESB vegna þess að fullveldi landsins var skert. Þeir höfnuðu EES-leiðinni af því að hún færði þeim ekki fullveldið. Samkeppnismálin eru fullveldismál. Löggjöfin evrópska um þau er miðuð við stóra, virka markaði. Þessum lögum er beitt hugsunarlaust á okkar örsmáu, ófullkomnu markaði. Fólk gerir sér ekki grein fyrir mikilvægi fullveldisins. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Höfundur er sjóðfélagi, lífeyrisþegi og neytandi.