Uppruninn og sjálfstæðisstefnan

Hornsteinn íslensks samfélags er lýðveldið okkar sem við endurreistum á þessum allra helgasta degi Íslendinga þann 17. júní 1944.

Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl

Viðar Guðjohnsen

Þegar Íslands fyrsti faðir nam hér land var eyjan okkar mannlaus og af engum að taka nema hinni miklu móður. Ekkert stjórnvald og engin landslög. Landnámsmennirnir þurftu því engum að svara. Einungis hyggjuvitinu og fornum venjum. Í heimahögum hafði orðið stjórnarbylting undir forystu Haraldar hárfagra. Hollustan við sjálfstæðið og sjálfsvirðinguna fleytti hinum útsjónarsömu forfeðrum okkar yfir hafið kalda með hjálp Njarðar. Sannir sjálfstæðismenn voru þeir allir. Um hálfri öld síðar, þegar Alþingi var stofnað, varð Ísland formlega að ríki. Þá hafði heil kynslóð, hin fyrsta íslenska kynslóð, vaxið úr grasi. Á kjördag árið 1953 gerði Sjálfstæðisflokkurinn þessum mikilvæga uppruna okkar skil í fallegum hvatningarorðum. Segir í þeim meðal annars: „Sem faðir þjóðarinnar reisti hann hér bú í óbyggðu landi, er hann hafði flúið ættland sitt undan ofríki, kúgun og gaf þjóð sinni í vöggugjöf trú á mátt og helgi frelsisins. Frelsisþrá sína, framtak og djörfung tók þjóðin hans að erfðum.“ Á þessum grunni var Ísland okkar reist og það er hægt að færa gild rök fyrir því að stjórnarform þjóðveldisins, hins fyrsta íslenska lýðveldis, hafi vegna þessa verið mótað á lítt ræddum en þó mikilvægum grunni lýðræðis og laga.

Úlfljótur hét maður Þann 17. júní árið 1929 flutti Guðmundur Björnsson, þáverandi landlæknir, áhugaverða ræðu í tilefni þúsund ára afmælis íslenska ríkisins. Ræðan var birt í 38. tölublaði Ísafoldar hið sama ár. Í ræðunni segir Guðmundur meðal annars: „Ingólfur var faðir íslensku þjóðarinnar. Um hann vitum við margt. Úlfljótur var faðir íslenska ríkisins. Um hann vitum við fátt. […] Úlfljótslög voru aldrei skráð. Og þó vitum við enn með fullri vissu allra merkilegasta atriðið í þessum fyrstu stjórnskipunarlögum landsins. En það var þetta: Með Úlfljótslögum var stofnað sjálfstætt og fullvalda þjóðríki á Íslandi. Og þetta ríki var ekki konungsríki, heldur lýðveldi. […] Það er sá mikli viðburður sem hér gerðist fyrir 1000 árum, að þegar konungsvaldið er að magnast alstaðar annars staðar, þá fæðist hér ný þjóð í áður ónumdu landi. Og þessi unga þjóð vill ekki hafa konung yfir sér.“ Guðmundur snertir hér á mikilvægum þræði og það er hugmyndin um sjálft lýðveldið og hvaðan umboð til stjórnvalds kemur. Hugmyndina um frjálsa þjóð í frjálsu landi sem hafa verið vígorð okkar sjálfstæðismanna frá upphafi. Valdið kemur frá þjóðinni Hornsteinn íslensks samfélags er lýðveldið okkar sem við endurreistum á þessum allra helgasta degi landsmanna þann 17. júní 1944. Í því felst að allsherjarvald lýtur lýðræðislegum yfirráðum okkar Íslendinga og engra annarra. Þetta er okkar dýrmætasta auðlind. Það að fá að stjórna okkur sjálf. Við kjósum okkur æðstu fulltrúa löggjafarvaldsins sem sitja á þessu elsta og merkilegasta þingi veraldar. Við kjósum okkur forseta lýðveldisins í beinum kosningum án afskipta stjórnmálamanna. Það er merkileg og oft á tíðum vanmetin staðreynd. Með lýðræðislegum leikreglum sækja æðstu fulltrúar framkvæmdar- og dómsvalds umboð sitt til Alþingis og forseta og þar af leiðandi óbeint til þjóðarinnar. Þetta er það stjórnskipulega frelsi sem við þurfum að halda vörð um og verja með öllum tiltækum ráðum. Þetta er sú stjórnskipan sem tók öll þessi ár að endurheimta og þessi stjórnskipan er sérsniðin fyrir okkur Íslendinga. Þetta er hugmyndafræðilega ástæðan fyrir því að við sjálfstæðismenn erum bundnir tryggðaböndum í viðleitni okkar til sjálfstæðisins og erum sammála um að utan Evrópusambandsins skulum við Íslendingar standa; enda myndi innganga í sambandið rjúfa tengsl þjóðarinnar við handhafa allsherjarvalds um ókomna tíð. Á sama tíma gjöldum við auknum varhuga við þróun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið enda er hann hægt og rólega að rjúfa þessi allra mikilvægustu tengsl. Til umhugsunar Þjóðin glataði frelsinu árið 1262 við samþykkt Gamla sáttmála. Á þessum myrkasta tímapunkti í sögu þjóðarinnar hófst innleiðing nýs stjórnskipulags sem byggðist á formlegri undirgefni við erlenda valdhafa. Bölið sem fylgdi sjálfstæðismissinum mikla varði í mörg hundruð ár. Á því tímabili voru ákvarðanir teknar hinum megin við hafið við hverja við Íslendingar máttum versla, hvernig við skyldum haga okkar löggjöf og hvernig nýtingu auðlinda okkar skyldi háttað. Það er margt sem bendir til þess að ráðamenn okkar hafi blindast af eigin dýrðarljóma og tapað áttum í málum er varða fullveldið. Skeytingarlausir gagnvart upprunanum og afleiðingum gjörða sinna sigla þeir áfram á sjálfstýringu alþjóðavæðingarinnar og feta sig áfram í fótsporum Gissurar Þorvaldssonar. Týndir í bergmálshelli alþjóðlegra möppudýra.

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.