Orkupakkar og orkustefna

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) skrifar pistil á Mbl.is:

Vatnsaflstöð við Búrfell

Um alla vestur Evrópu kvíðir fólk vetrinum í kjölfar hitasumars. Við blasir að orkukostnaður hefur farið upp úr öllu valdi síðan stríðið í Úkraínu hófst og Vestur-Evrópa var gripin í bólinu með orkustefnu sína. Allt á þetta samhljóm í umræðunni um þriðja orkupakkann sem varð fyrirferðamikil hér á tímabili. Samhæfðir markaðir með orku hefðu átt að henta Vestur-Evrópu en gera það ekki í þessu ástandi, orkuverð fer upp úr öllu valdi, almenningur þjáist og Íslendingar geta þakkað fyrir að vera ekki hluti af þessum markaði. En er rekinn áróður í nafni EES samningsins um að gera Íslendinga hluta af þessu fyrirkomulagi með lagningu sæstrengs. Eitt af helstu markmiðum orkustefnu ESB er að koma á tengingum á milli orkusvæða (landa).

Í Evrópu eru nú sagðar hryllingssögur af orkuverðshækkunum og í Bretlandi eru komnir af stað undirskriftalistar þar sem fólk hótar að hætta að greiða orkureikninga og krefja stjórnvöld um aðgerðir. Íslendingar með tengsl út í Evrópu segja af þessu sögur í spjalli sín í milli. „Ég heyri frá vinafólki sonar míns að hitakostnaður fyrir frekar litla íbúð í London hafi meir en fjórfaldast á góðu ári (úr 60 pundum í 260 á mánuði),“ sagði einn netverjinn í vikunni. Sighvatur Bjarnason, sem rekur fyrirtæki í Lettlandi, sagði að rafmagnskostnaður í hans fyrirtæki þar í landi hefði í heild verið 252,6% hærri en á síðasta ári. „Í dag þurfum við að hættra framleiðslu kl 17:00 vegna þess að frá kl 18 til 19 fer kostnaðurinn í 4 EUR á KW.“ Hann lýkur orðum sínum með eftirfarandi ályktun: „Það er skynsamlegra fyrir Ísland að ganga úr EES en að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum. Þetta er það sem koma skal og mun eingöngu versna.“

Orkuverið í Svartsengi

Orkufrek starfsemi í samdrætti

Víða í Evrópu er verið að draga saman raforkufreka framleiðslu og í sumum tilvikum hefur iðnaðarframleiðsla stöðvast eða reynt að bregðast við á annan hátt. Orkufrek framleiðsla er keyrð á næturnar þegar orka er að jafnaði ódýrari en það hefur mikil óþægindi í för með sér fyrir starfsfólk og launakostnaður eykst á móti. Engin vill þurfa að búa við það til framtíðar og augljóslega hefur ástandið áhrif á landsframleiðslu viðkomandi landa.

Stjórnvöld hafa víða þurft að bregðast harkalega við og norska Stórþingið var kallað inn úr sumarleyfi vegna hins skelfilega ástands í raforkumálunum sem þar hefur ríkt. Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (Agency for the Cooperation of Energy Regulators, skammstafað ACER) hefur núna yfirstjórn yfir allri raforkunni þar í kjölfar þess að Norðmenn hafa tengt sig innri markaði, meðal annars í gegnum sæstrengi, og það er lítið sem norsk stjórnvöld hafa að segja um það fyrirkomulag. Uppistöðulónin eru við það að tæmast og vegna hins himinháa verðlags á raforkunni þarf að niðurgreiða hana hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjunum. Um leið eru Svíar eru að kikna undir háu raforkuverði í Suður-Svíþjóð sem er tengt raforkukerfi ESB.

Kaldur vetur eða breytt stefna

Já, það er eðlilegt að það sé þungt yfir mönnum í þessu ástandi. Við Íslendingar eru orkuframleiðendur og fáum nú hærra orkuverð út úr samningum sem tengdir eru heimsmarkaðsverði á meðan almennir neytendur verða ekki varir við miklar breytingar.

Allt þetta kallar á viðbrögð þó ólíklegt sé að unnt verði að bjarga vetrinum. Þjóðverjar viðurkenna núna að hafa gert afdrifarík mistök í stefnumótun sinni í orkumálum undir stjórn Angelu Merkel eins og kemur fram í Morgunblaðinu í vikunni. Evrópusambandið hefur breytt skilgreiningum á kjarnorku og jarðgasi, með þegjandi samþykki umhverfisverndarsinna, til að auðvelda notkun þessara orkugjafa eins og bent hefur verið á hér. Þjóðverjar reyna að finna leiðir til að halda kjarnorkuverum sínum opnum eða opna þau á ný. Það er tímafrekt að snúa við stefnunni.

Finnar hafa ákveðið að reisa nýtt 1600 MW kjarnorkuver, Olkiluoto 3. Finnskir fjölmiðlar segja að líkindi til þess að fjárfestingin verði öll endurgreidd á innan við áratug, miðað við orkuverð núna, það sýnir arðsemi fjárfestingarinnar. Það þarf ekki að taka fram að þetta er mjög jákvætt fyrir koltvísýringsbúskap Finna.

Arðsömustu fjárfestingar Íslendinga

Rætt er um að kjarnorkuver eins og Olkiluoto 3 geti framleitt rafmagn í 60 ár. Afskriftartími vatnsorkuvera eins og við eigum er í raun endalaus, mest af mannvirkjum, svo sem stöðvarhús, skurðir og stíflur geta enst marga mannsaldra og haldið áfram að skila hreinni og ódýrri orku. Þetta er staðreynd sem Landvernd er eð reyna að snúa út úr. Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að styrkja orkubúskap okkar og reka hann svo að hann styðji við atvinnulíf, íþyngi ekki heimilum landsins og færi ríkissjóði mikilvægar tekjur. Það er öfundsverð staða.

https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/2281705/

ESB – áróður á RÚV

Einu sinni enn

Staksteinar MBL 0104022
(ekki aprílgabb!)

Útvarp allra landsmanna?

Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í
Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.

Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“

Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.

Fréttablaðið er úti á gangi

Loftur skrifar

Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?

Raforkuverð í Evrópu

Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.

Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB

Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.

Áhrif sæstrengs

Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.


ref.
Sérfræðiskýrsla samtakanna Orkunnar okkar um orkupakka ESB

Ísland á nú í stríði við Rússland

Loftur skrifar:

ESB herinn að störfum

Ísland á nú í stríði við Rússland. Ekki sem frjálst og fullvalda lýðræðisríki, heldur sem taglhnýtingur Evrópusambandsins (ESB). Ísland er ekki aðili að ESB og þá vaknar sú spurning hvernig gat þetta gerst?

ESB er viðskiptabandalag nokkurra Evrópuríkja.
ESB er ekki hernaðarbandalag, og ekki heldur varnarbandalag. Samt sem áður á ESB nú í stríði við Rússland. ESB er óvinur Rússlands og Ísland er nú orðinn óvinur Rússlands vegna ESB.    

Ísland er hluti af NATO, sem er varnarbandalag vestrænna ríkja og sem ekki á í stríði við Rússland. Hvers vegna á þá Ísland í stríði við Rússland þegar engin ógn steðjar að Íslandi?

Hvað ef Rússland vinnur stríðið?

Er ekki eitthvað bogið við þessa utanríkisstefnu Íslands?

Mogginn kýlir formann xD kaldan í Orkupakkamálinu

Forysta xD nýkjörin

Úr leiðara MBL 20. febrúar 2022:

Orkukreppa Evrópu – Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós

“Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið.
Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið.
Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði.”

Ekki er úr vegi að rifja upp ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 en landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af um tólfhundruð fulltrúum.

Í ályktun Atvinnuveganefndar segir orðrétt: “

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild

Áhrif 3. orkupakka ESB á fullveldi Íslands í raforkumálum

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar á blog.is:
(tilvitnun úr Staksteinum Mbl 5. nóvember 2021)

Orkuskortur teygir sig til Noregs

Bjarni Jónsson

„Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.

Lesa meira