Skjalafals í boði stjórnvalda og Evrópusambandsins – Upprunaábyrgðir

Hvernig tengjast upprunaábyrgðir skjalafalsi?

Kári skrifar:

Í síðustu grein, um tjáningarfrelsið, var vikið að sannleikshugtakinu og samsvörunarkenningunni um sannleikann. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með síðari breytingum eru m.a. ákvæði um skjalafals. Undir XVII. kafla laganna, 1. mgr. 155. gr., segir svo: „Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.“ Í 2. mgr. 155. gr. segir: „Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“[i]

Ef gefin er út ábyrgð fyrir einhverju er almennt gengið út frá því að ábyrgðin svari til einhvers sem hægt er að sannreyna, að ábyrgðin passi við andlagið. Þannig er t.d. hægt að sannreyna framleiðsluár bifreiðar eftir verksmiðjunúmeri hennar. Ef hugmyndin um upprunaábyrgðirnar ætti að gilda um uppruna bifreiða gæti eigandi fimm ára gamallar bifreiðar einfaldlega keypt sér „upprunaábyrgð“ og „yngt“ bifreiðina um t.a.m. fjögur ár. Eigandi nýrrar bifreiðar gæti á sama hátt selt þann „unga aldur“ á markaði til hinna sem kysu að „yngja upp“ gamla bíla [á pappírunum].

Í báðum tilvikum er ljóst að ekkert hefur breyst í raunveruleikanum. Gamlir bílar verða áfram gamlir og nýjir bílar (á sama tímapunkti) enn nýir. En við lifum á tímum sýndarveruleika og sýndarstjórnmála – ekkert er eins og það sýnist. Með óheftu hugmyndaflugi má útfæra þetta nánar. T.d. má vel hugsa sér að unglingar, ungmenni, geti í náinni framtíð selt ungan aldur sinn til hinna sem eldri eru.

Sjötugur maður gæti þannig keypt sér „upprunaábyrgð“ á frjálsum markaði og fengið aldri sínum breytt í þjóðskrá [fellur mjög vel að hugmyndinni um „aldurstengt sjálfræði“]. Eftir endurskráningu væri hann ekki lengur sjötugur heldur tvítugur. Báðir græða, ungmennið fær helling af peningum og eldri borgarinn „endurheimtir“ æsku sína. Markaðurinn ræður og sá sem vill greiða fyrir „yngingu“ á að hafa rétt til þess. Fyrirkomulagið hvetur til „yngingar“ og „eilífrar æsku“.

Hvað eru upprunaábyrgðir?

Upprunaábyrgðir eru verslunarhæf orkuskírteini, skilgreindar í tilskipunum Evrópusambandsins, 2009/28/EB og 2018/2001/ESB.[ii] Í stuttu máli má segja að upprunaábyrgðir (evrópska fyrirkomulagið) séu hugsaðar sem söluvara með vísan til umhverfisávinnings sem tengist endurnýjanlegri orkuframleiðslu. Verslað er rafrænt með ábyrgðirnar á frjálsum markaði, fyrir endurnýjanleg orkuskírteini sem ekki tengjast afhendingu raforkunnar sem slíkrar.

Upprunaábyrgð gefur til kynna framleiðslu á einni megavattstund (MWst) af raforku frá viðurkenndum endurnýjanlegum orkugjafa. Hver upprunaábyrgð svarar til undirliggjandi tegundar orkugjafa, staðsetningar framleiðslunnar og ártals. Evrópski markaðurinn inniheldur nú upprunaábyrgðir vegna vindorku, vatnsorku, sólarorku, jarðvarma og lífmassa.[iii]

Hver upprunaábyrgð er auðkennd og fær ákveðið númer. Þegar upprunaábyrgð „skiptir um hendur“ frá útgefanda til miðlara/veitu og að lokum til „neytanda“ er allt ferlið rakið. Þannig er reynt að fyrirbyggja tvítalningu í raforkuupplýsingum og áreiðanleika „grænna raforkusamninga“. Dæmi um útgáfustofnanir eru: Svenska kraftnet í Svíþjóð, CertiQ í Hollandi, Fingrid í Finnlandi, Statnett í Noregi og UBA í Þýskalandi.[iv]

Kerfi upprunaábyrgða

Sérhver upprunaábyrgð innan evrópska ábyrgðakerfisins (EECS) gildir í 12 mánuði. Það þýðir að frá því augnabliki sem MWst af endurnýjanlegri orku er framleidd, og samsvarandi upprunaábyrgð er gefin út, er aðeins hægt að millifæra og niðurfella ábyrgðina innan 12 mánaða. Að þeim tíma loknum gengur ábyrgðin úr gildi.[v]

Áframhald af greininni

Varasöm þróun ESB

Forsætisráðherra aðildarríkis ESB rekur vandann réttilega

Úr Staksteinum Mbl. 23. ágúst 2022:

Greinin í Mbl

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands fjallaði um málefni Evrópu og Evrópusambandsins í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í gær. Útgangspunkturinn er Úkraína og margvíslegur lærdómur sem Morawiecki telur að draga megi af innrás Rússa. Hann telur stríðið hafa „afhjúpað sannleikann um Rússland“ Pútíns og heimsvaldastefnu þess. Rússland hafi treyst stöðu sína á síðustu tveimur áratugum en Vesturlönd hafi sýnt sofandahátt. Þá segir Morawiecki að ríki Evrópu hafi ekki hlustað á varnaðarorð Póllands, sem hafi bent á fyrir mörgum árum að Rússar myndu ekki láta staðar numið í Georgíu með innrásinni þangað.

Umhugsunarvert er að forsætisráðherra Póllands telur þetta „einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis en stjórnmálavenja sýnir fram á að rödd Þýskalands og Frakklands hefur mest áhrif.“ Þetta ástand sem Morawiecki lýsti er hluti af þeim vanda sem kalla má lýðræðishalla Evrópusambandsins og felst meðal annars í því að stóru ríkin, einkum Þýskaland en einnig Frakkland, hafa langmest um ákvarðanir sambandsins að segja. Minni ríkin hafa lítið sem ekkert vægi, þau bíða ákvarðana stóru ríkjanna tveggja sem teknar eru í tveggja manna tali og hittast svo á stærri fundum og stimpla ákvarðanirnar.

Í þessu ljósi er sú umræða sem stundum hefur átt sér stað hér á landi um mikil áhrif smáríkja í besta falli grátbrosleg. Jafnvel ríki á stærð við Pólland hafa sáralítið vægi innan sambandsins, eins og forsætisráðherrann bendir á. Þetta ástand batnar ekki við það að sífellt lengra hefur verið gengið innan Evrópusambandsins í átt að aukinni miðstýringu, það er að segja að valdið er flutt í æ ríkari mæli frá aðildarríkjunum og til Brussel, sem felur einnig í sér aukin völd stóru ríkjanna.

Eitt af því sem forsætisráðherra Póllands hefur áhyggjur af er að nú heyrist „æ oftar að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.“ Og forsætisráðherrann bendir einnig á að það, „að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni sem sést til að mynda í umframútflutningi sumra ríkja. Það kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm.“ Þá segir Morawiecki að skipan Evrópusambandsins verji „okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari.“

Forsætisráðherra Póllands er ekki andstæðingur Evrópusambandsins en hann hefur áhyggjur af því hvernig það er að þróast og bendir á ýmis dæmi um hvernig það hafi brugðist og hversu varasamt það sé að eitt ríki sé um of ráðandi um framvinduna. Hann leggur til að í stað þess að halda áfram á braut æ meiri samruna þá verði stigið skref til baka og horfið aftur til grundvallarins í stað þess „að halda áfram að styrkja yfirbyggingu stofnana“. Vaxandi regluverk sem teygir anga sína til æ fleiri þátta þjóðlífsins, aukin stofnanaumgjörð og yfirþjóðlegt vald samhliða þeim miklu áhrifum sem stóru ríkin hafa innan Evrópusambandsins eru orðin akkilesarhæll þess svo ekki þarf að koma á óvart að forsætisráðherra aðildarríkis stígi fram með svo afgerandi gagnrýni á þróunina.

Nei við ESB!

Íslendingar eru svo lánsamir að ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ekki allar heiðarlegar, að koma landinu alla leið inn í Evrópusambandið. Þess í stað býr Ísland við EES-samninginn sem hefur tryggt viðskiptahagsmuni landsins gagnvart ríkjum ESB. Í gegnum hann hafa Íslendingar þó kynnst nokkru af þeim vanda sem Morawiecki lýsir, því að aukin ásælni þeirra sem mestu ráða í Evrópusambandinu hefur einnig komið fram í því regluverki sem reynt er að þröngva upp á aðildarríki EESsamningsins sem þó eru ekki í ESB. Gegn þessari þróun þarf að standa og þeir sem gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu og samningnum við það mega ekki gleyma þeirri þróun sem á sér stað innan sambandsins og meðal annars er lýst í grein Mateusz Morawieckis forsætisráðherra. Og þeir mega vitaskuld alls ekki gleyma því hverra hagsmuna þeim ber að gæta.

Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

“Mjög langur vegur er frá því að allar ákvarðanir um mikilvæg mál innan ESB kalli á einróma samþykki. Það á til að mynda ekki við um sjávarútvegsmál.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Telja má nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem enn er krafizt einróma samþykkis ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku í ráðherraráði þess. Með hverjum nýjum sáttmála sambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabonsáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þannig heyrir krafan um einróma samþykki innan sambandsins í raun til undantekninga í dag. Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu 24. september þar sem ég benti einnig á þá staðreynd að íbúafjöldi ríkja Evrópusambandsins réði mestu um möguleika þeirra til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir væru teknar í ráðherraráðinu og þá einkum þeirra fámennustu. Stærstu ríkin væru hins vegar í algerri lykil- og yfirburðastöðu í þeim efnum vegna fjölmennis. Ég fór enn fremur ítarlega yfir fyrirkomulag Evrópusambandsins í þessum efnum en upplýsingar um það eru til dæmis ágætlega aðgengilegar á vefsíðum sambandsins. Hvet ég lesendur, sem það hafa ekki þegar gert og áhuga hafa, til þess að kynna sér þá samantekt mína.

Fyrri fullyrðing ekki endurtekin

Mér barst nokkru síðar svargrein sem raunar gerði lítið annað en að undirstrika það sem ég hafði bent á í grein minni. Þá einkum og sér í lagi þá staðreynd að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins í ráðherraráði þess eigi aðeins við um fáeina málaflokka. Þannig voru til að mynda einungis tekin dæmi um einróma samþykki tengd þeim fáu málaflokkum þar sem slíks er enn krafizt í ráðinu og síðan fullyrt á þeim grunni, líkt og í fyrri grein höfundar, að engin ákvörðun um mikilvæg mál væri tekin án samþykkis allra ríkja sambandsins.

Continue reading “Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?”

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira