“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl
Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.
Vægi ríkja einkum eftir íbúafjölda
Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess. Langflestar ákvarðanir í ráðherraráðinu eru þannig til dæmis háðar því að 55% ríkjanna (einu ríki fleiri en einfaldur meirihluti) standi að baki þeim með 65% íbúa sambandsins. Í öðrum tilfellum þarf annars vegar einfaldan meirihluta ríkjanna og hins vegar 72% þeirra og 65% íbúanna. Þar hafa fjölmennustu ríkin eðli málsins samkvæmt langmest vægi en þau fámennustu að sama skapi afar lítið. Þannig býr Þýzkaland að um 18,5% íbúafjölda Evrópusambandsins og Frakkland um 15%. Saman eru ríkin tvö með um helming þess íbúafjölda sem allajafna þarf til þess að taka ákvarðanir í ráðherraráðinu. Ef við bætum Ítalíu og Spáni við hafa ríkin fjögur um 58% íbúa sambandsins. Þá vantar aðeins ellefu ríki af þeim 23 sem eftir eru og er þá nánast aukaatriði hver þau eru með tilliti til íbúafjölda vegna fjölmennis stærstu ríkjanna. Þótt öll hin ríkin 23 tækju sig saman þyrftu þau engu að síður tvö af stærstu ríkjunum fjórum í lið með sér til þess að taka ákvarðanir. Til samanburðar væri Ísland fámennasta ríkið innan Evrópusambandsins með 0,08% íbúafjöldans. Hins vegar skiptir ekki síður máli að einungis þarf fjögur ríki til þess að hindra ákvarðanatöku í ráðherraráðinu svo framarlega að þau hafi yfir 35% íbúafjöldans innan Evrópusambandsins á bak við sig. Með öðrum orðum geta ríkin fjögur saman stöðvað hvaða mál sem er í ráðinu fyrir utan í þeim til þess að gera fáu tilfellum þar sem enn þarf einróma samþykki og þar sem einungis þarf einfaldan meirihluta. Raunar nægir Þýzkalandi og Frakklandi liggur við hvaða tvö ríki sem eru enda vantar þau einungis um 1,6% til þess að ná yfir 35% íbúafjöldans.
Ríki ESB sitja ekki við sama borð
Viðmiðið er að sama skapi fyrst og fremst íbúafjöldi ríkjanna í tilfelli þings Evrópusambandsins. Þannig hefur Þýzkaland 96 þingmenn af um 700 en til samanburðar hefði Ísland sex þingmenn innan þess. Þar er ekkert einróma samþykki heldur gildir einfaldlega meirihlutinn. Hvað framkvæmdastjórn sambandsins varðar er fullyrt í greininni að öll ríki þess eigi sinn fulltrúa í henni. Hið rétta er að þó ríkin tilnefna einn fulltrúa hvert og er tekið skýrt fram í Lissabon-sáttmálanum að þeir eigi ekki að fylgja fyrirmælum frá ríkisstjórnum ríkjanna. Með öðrum orðum er ljóst að stærstu ríki Evrópusambandsins eru bæði í lykil- og yfirburðastöðu þegar kemur að ákvarðanatöku á vettvangi sambandsins. Bæði þegar kemur að því að samþykkja mál og að hindra samþykkt þeirra. Við það bætist að fulltrúar stærstu ríkjanna funda gjarnan og samræma áherzlur sínar áður en mál eru tekin formlega fyrir innan Evrópusambandsins. Eins er ljóst að innan sambandsins gæti Ísland ekki stöðvað nein mál að undanskildum þeim fáu og fækkandi tilfellum þar sem einróma samþykki er enn áskilið. Deginum ljósara er þannig að fullyrðingar greinarhöfundar, um að lítil ríki innan Evrópusambandsins geti „stoppað framgang hvaða máls sem er“, samrýmast á engan hátt raunveruleikanum. Þvert á móti hefur enginn skortur verið á tilfellum þar sem margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafa orðið undir í ráðherraráðinu og þar með talið í tilfellum þar sem um stór hagsmunamál hefur verið að ræða fyrir þau. Þar á meðal í sjávarútvegsmálum. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er setið við sama borð
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði).
hjortur@fullveldi.is
http://www.fullveldi.is