Varasöm þróun ESB

Forsætisráðherra aðildarríkis ESB rekur vandann réttilega

Úr Staksteinum Mbl. 23. ágúst 2022:

Greinin í Mbl

Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands fjallaði um málefni Evrópu og Evrópusambandsins í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í gær. Útgangspunkturinn er Úkraína og margvíslegur lærdómur sem Morawiecki telur að draga megi af innrás Rússa. Hann telur stríðið hafa „afhjúpað sannleikann um Rússland“ Pútíns og heimsvaldastefnu þess. Rússland hafi treyst stöðu sína á síðustu tveimur áratugum en Vesturlönd hafi sýnt sofandahátt. Þá segir Morawiecki að ríki Evrópu hafi ekki hlustað á varnaðarorð Póllands, sem hafi bent á fyrir mörgum árum að Rússar myndu ekki láta staðar numið í Georgíu með innrásinni þangað.

Umhugsunarvert er að forsætisráðherra Póllands telur þetta „einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis en stjórnmálavenja sýnir fram á að rödd Þýskalands og Frakklands hefur mest áhrif.“ Þetta ástand sem Morawiecki lýsti er hluti af þeim vanda sem kalla má lýðræðishalla Evrópusambandsins og felst meðal annars í því að stóru ríkin, einkum Þýskaland en einnig Frakkland, hafa langmest um ákvarðanir sambandsins að segja. Minni ríkin hafa lítið sem ekkert vægi, þau bíða ákvarðana stóru ríkjanna tveggja sem teknar eru í tveggja manna tali og hittast svo á stærri fundum og stimpla ákvarðanirnar.

Í þessu ljósi er sú umræða sem stundum hefur átt sér stað hér á landi um mikil áhrif smáríkja í besta falli grátbrosleg. Jafnvel ríki á stærð við Pólland hafa sáralítið vægi innan sambandsins, eins og forsætisráðherrann bendir á. Þetta ástand batnar ekki við það að sífellt lengra hefur verið gengið innan Evrópusambandsins í átt að aukinni miðstýringu, það er að segja að valdið er flutt í æ ríkari mæli frá aðildarríkjunum og til Brussel, sem felur einnig í sér aukin völd stóru ríkjanna.

Eitt af því sem forsætisráðherra Póllands hefur áhyggjur af er að nú heyrist „æ oftar að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.“ Og forsætisráðherrann bendir einnig á að það, „að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni sem sést til að mynda í umframútflutningi sumra ríkja. Það kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm.“ Þá segir Morawiecki að skipan Evrópusambandsins verji „okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari.“

Forsætisráðherra Póllands er ekki andstæðingur Evrópusambandsins en hann hefur áhyggjur af því hvernig það er að þróast og bendir á ýmis dæmi um hvernig það hafi brugðist og hversu varasamt það sé að eitt ríki sé um of ráðandi um framvinduna. Hann leggur til að í stað þess að halda áfram á braut æ meiri samruna þá verði stigið skref til baka og horfið aftur til grundvallarins í stað þess „að halda áfram að styrkja yfirbyggingu stofnana“. Vaxandi regluverk sem teygir anga sína til æ fleiri þátta þjóðlífsins, aukin stofnanaumgjörð og yfirþjóðlegt vald samhliða þeim miklu áhrifum sem stóru ríkin hafa innan Evrópusambandsins eru orðin akkilesarhæll þess svo ekki þarf að koma á óvart að forsætisráðherra aðildarríkis stígi fram með svo afgerandi gagnrýni á þróunina.

Nei við ESB!

Íslendingar eru svo lánsamir að ekki hefur tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ekki allar heiðarlegar, að koma landinu alla leið inn í Evrópusambandið. Þess í stað býr Ísland við EES-samninginn sem hefur tryggt viðskiptahagsmuni landsins gagnvart ríkjum ESB. Í gegnum hann hafa Íslendingar þó kynnst nokkru af þeim vanda sem Morawiecki lýsir, því að aukin ásælni þeirra sem mestu ráða í Evrópusambandinu hefur einnig komið fram í því regluverki sem reynt er að þröngva upp á aðildarríki EESsamningsins sem þó eru ekki í ESB. Gegn þessari þróun þarf að standa og þeir sem gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu og samningnum við það mega ekki gleyma þeirri þróun sem á sér stað innan sambandsins og meðal annars er lýst í grein Mateusz Morawieckis forsætisráðherra. Og þeir mega vitaskuld alls ekki gleyma því hverra hagsmuna þeim ber að gæta.

Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is

Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.

Málefni útlendinga sett í biðflokk

Jón Gunnarsson Dómsmálaráðherra

Ákveðið hefur verið að fresta frek­ari umræðu um útlend­inga­mála­frum­varp Jóns Gunn­ars­sonar dóms­mála­ráð­herra til haust­þings, en dóms­mála­ráð­herr­ann hefur sagt að hann hafi ákveðið að fresta frum­varp­inu til þess að liðka fyrir samn­ingum um þing­lok.  Þrír stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ar, Sam­fylk­ing­in, Við­reisn og Flokkur fólks­ins, fram ítar­legar breyt­ing­ar­til­lögur við frum­varp ráð­herra eftir að ráð­herra óskaði eftir því að fá efn­is­legar athuga­semdir sem liðkað gætu fyrir samn­ingum um frum­varp­ið, en sam­kvæmt frétt RÚV kom ráð­herr­ann með til­lögur á móti sem þing­flokk­arnir þrír sættu sig ekki við.

Þetta frumvarp snýr meðal annars að flutningi þjónustu milli ráðuneyta. Breytingarnar munu greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis og færa reglur nær þeim sem í gildi eru á Norðurlöndunum. Samstaða hefur verið um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og var vonast til að það yrði að lögum nú í vor. En reyndin var önnur.

Málið snýst nú um ólöglega hælisleitendur sem höfðu áður fengið hæli í öðrum Evrópulöndum en neituðu að framfylgja sóttvarnarlögum á Íslandi, svo ekki möguleiki á að flytja þá úr landi á þeim tíma. Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns.. 

Nýlega kom fram, að hælisleitendur sem Íslendingar hafa veitt hæli eru nú um 25 á hverja 10.000 íbúa landsins. Næsta þjóð er Svíþjóð með 7,6 á hverja 10.000 íbúa og síðan Danmörk og Noregur með í kringum 3 á hverja 10.000 íbúa. Finnland var ekki talið með enda er sennilega stuðulinn hjá þeim í kringum 0.

Það er að öllum líkindum orðið útbreidd vitneskja í Afríku og Mið-Austurlöndum að það skuli vera til þjóð norður í dumbshafi sem tekur á móti öllu fólki og ber það á höndum sér. Fólk fái húsnæði, laun og það besta væri að það þyrfti aldrei að vinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru um 400 milljónir manna sem eru lagðir af stað eða íhuga að gerast hælisleitendur. Hvert geta Íslendingar farið þegar búið er að fylla landið af hælisleitendum og ríkissjóður komin á svipaðan stað og sá í Venezúela? Það eru nægar flugsamgöngur til að moka 20.000 flóttamönnum á dag til landsins. Eftir 100 daga væru komnar 2 milljónir sem allir fengu fæði og húsnæði á kostnað ríkisins. Og ef það er ekki nóg eru 200 milljónir í viðbót þarna úti sem gjarnan mundu vilja fá það líka. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt mikla vinnu í þetta frumvarp um útlendingamál með það fyrir augum að flýta fyrir afgreiðslu umsókna, gera umsóknarferilinn skilvirkari og réttlátari. Hingað til hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt frumvarpinu stuðning og gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu frumvarpsins og greiða fyrir þinglokum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa þétt að baki dómsmálaráðherra í þessu mikilvæga máli og löngu tímabæru breytingum til hins betra.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna

Sjálfstæð fullvalda þjóð

Jón Magnússon skrifar í tilefni Fullveldisdagsins 1. desember 2021

Sjálfstæði og fullveldi Íslands og íslensku þjóðarinnar er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið og hefur aldrei verið það. Okkur sem erum fædd eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 17.júní 1944 hættir til að telja að stjórnskipuleg réttindi, fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar séu sjálfsagður hlutur. Því miður er ekki svo farið og smáþjóð verður stöðugt að vera á varðbergi til að verja réttindi sín menningu og eiginleika.

Jón Magnússon

Ísland naut skammvinns sjálfstæðis frá því að land byggðist þangað til höfðingjar landsins vegna eigin sundrungar og skammsýni neyddust til að játa Hákoni gamla Hákonarsyni Noregskonungi hollustu sína og ganga honum á hönd með samþykki hins svokallaða „Gamla sáttmála“ árið 1262.

Frá þeim tíma til 1.desember 1918 lutum við erlendu valdi. Fyrst valdi Noregskonunga og síðar Danakonunga eftir að Noregur tapaði sjálfstæði sínu og Danir tóku þar völdin. 

En sjálfstæðisviljinn var alltaf til staða með íslensku þjóðinni. Íslendingar litu jafnan á sig sem sérstaka þjóð með sína sérstöku menningu og tungumál. Áshildarmýrarsamþykktin 1496 er dæmi um það að bændur á Suðurlandi töldu að þeir ættu ákveðin réttindi, sem þeir gætu krafist af konungi að fá að njóta, sem sjálfstæðir menn. Sömu viðhorf var ekki að finna í Evrópu á þeim tíma og er Áshildarmýrarsamþykktin einstök og mjög merkileg í sögu og viðleitni þjóðarinnar til að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar birtist með ýmsum hætti í áranna rás. Íslendingar vildu ekki játast undir einveldi Danakonungs árið 1662 en gerðu það nauðugir.

Lesa meira

Á bak við grímu gervifrjálslyndis býr grimmdarstjórn

Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.

Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt

Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.

Lesa meira

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild