Eftir Mateusz Morawiecki
Mbl 22. ágúst 2022
Rússland vill breyta Evrópu í þá mynd sem það hefur þekkt vel undanfarnar aldir, þ.e.a.s. í samstillt stórveldi með sameiginlega skilgreint áhrifasvið.
Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir sem neituðu að taka eftir því að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimír Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli. Endurkoma hinnar rússnesku alræðishyggju ætti ekki að koma okkur á óvart. Rússland hefur jafnt og þétt verið að endurbyggja stöðu sína undanfarin tuttugu ár. Á því tímabili kusu Vesturlönd að taka sér landstjórnmálalegan lúr í stað þess að vera árvökul og skynsöm. Þau kusu að líta framhjá sívaxandi vandamáli í stað þess að standa gegn því fyrr. Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess að hún var ekki nægilega samþætt heldur vegna þess að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár.
Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann. Sú staðreynd að rödd Póllands hafi verið hunsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls sem ESB stendur frammi fyrir í dag.