Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl:
Síðastliðin ár benda til þess að tilfinningahernaði sé beitt af miklum þunga í fjölmiðlum til þess að knýja fram lögfestingu á hinuog þessu umróti.
Það er stundum sagt að ekki sé gott að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Með því er átt við að óbeislaðar tilfinningar kunni að byrgja mönnum sýn og leiða þá í villu. Við sáum tilfinningarnar óbeislaðar í upphafi kórónuveirufaraldursins þegar fólk flykktist í kjörbúðir til þess að kaupa sér salernisrúllur í miklu óhófi. Það var þó tiltölulega saklaust dæmi. Verri eru þau þegar múgæðið ógnar friðnum eða frelsinu. Þá er vegið að sjálfu réttarríkinu.
Það er erfitt að átta sig á hvað þrýstir samfélögum í átt siðferðishnignunar en það er almennt vitað að um háttsemi þegnanna ríkja djúp tengsl mismunandi þátta, s.s. umhverfis og uppeldis en einnig uppruna, þjóðmenningar, trúarvenja og í síðari tíð laga; þótt lögin og jafnvel stjórnarskrárvarin réttindi hafi litla merkingu ef ekki ríkir um þau almenn sátt og hollusta. Í grunninn er þetta ástæðan fyrir því að við sjálfstæðismenn viljum varðveita þjóðararfinn og finnum þar hið sameiginlega markmið frelsis og íhalds. Við vitum að það þarf að varðveita það sem hvetur til dyggðar til þess að hollusta fyrir lögum og rétti fái að njóta sín. Þetta er jafnframt ástæðan fyrir því að stjórnlyndum umrótsmönnum er svo umhugað um að afnema venjur og skrumskæla söguna. Það hentar þeirra markmiði.
Tjáningarfrelsið er sem dæmi komið í ankannalega stöðu um þessar mundir og virðist ganga út á mjög skrítnar leikreglur um hvað má segja og hvað má ekki segja. Einhvers lags hentugleikamannréttindi og einkarétt umrótsins á tjáningarfrelsinu en afnám þess hjá íhaldinu. Rökræður eða deilur um trúna, sálina, lífið og dauðann hafa fylgt manninum lengi. Eitthvað um fimm hundruð árum fyrir Krist færði Sókrates rök fyrir tilvist sálarinnar í samræðum við vini sína stuttu fyrir aftökuna. Friedrich Nietzsche sagði hina frægu setningu að Guð væri dáinn. Guð lifir þó enn en Nietzsche ekki! Benjamin Disraeli, samtímamaður hans hinum megin við Ermarsundið og forsætisráðherra Breta, á eitt sinn að hafa sagt í því samhengi að menn væru almennt að deila um hvort mennirnir væru apar eða englar og að hann fyrir sitt leyti teldi sig í liði englanna. Líklega munu deilur um lífið og dauðann halda áfram enda hefur enn enginn lifað til að segja frá því hvað gerist þegar yfir móðuna miklu er komið. Það er þó nokkuð óumdeilanlegt að trúarbrögðin hafa mótað háttsemi okkar frá upphafi. Í það minnsta frá því samfélag hófst hjá mönnum.
Fyrir kristnitöku ríkti hinn heiðni siður sem enn þann dag í dag á sinn hlut í háttsemi og hegðun okkar Íslendinga. Að trúa á mátt sinn og megin hlotnaðist ásunum. Frelsið, lögin og sjálfstæðið námu eyjuna okkar fögru. Upp frá kristnitöku fjaraði örlagahyggjan út og upp spratt vald einstaklingsins til að móta sín eigin örlög. Á móti hvíldi sú skylda á herðum manna að valdinu yrði beitt í samræmi við boðskapinn. Eiginlegt framkvæmdarvald var líklega óhjákvæmileg afleiðing þess að menn voru formlega gerðir ábyrgir fyrir gjörðum sínum. Hægt og rólega mótaðist svo það samfélag sem við nú þekkjum. Við siðbótina hefur gagnrýnið hugarfar innreið sína sem svo nær hámarki í upplýsingunni þegar krafa um uppskiptingu allsherjarvalds teygir anga sína um þau lönd sem síðar skipa hinn frjálsa heim. Á þessum forsendum er hægt að færa gild hugmyndafræðileg rök fyrir mikilvægi þjóðkirkjunnar enda hefur sagan sýnt að mannskepnan er skepna inn við beinið þegar tilfinningarnar eru óbeislaðar. Svo mikilvæg er þjóðkirkjan að hún nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá. Saga hennar er samofin þjóðinni og flestum þykir okkur vænt um hana; jafnvel þótt fulltrúar hennar, eins og margir, kunni að hafa villst af sinni vegferð í veröld sem gerir út á hégómagirni. Tilgangur þjóðkirkjunnar er margþættur en grunnurinn er bersýnilega sá að boða og fræða þegnana um hin raunverulegu gildi trúarinnar. Boðorðin tíu þekkja flestir, í það minnsta þeir sem fengu kristinfræðikennslu í grunnskólum áður en henni var úthýst af umrótinu. Fulltrúar þjóðkirkjunnar gerðust sekir um að brjóta eitt þeirra fyrir stuttu þegar drambið dró þá til að leggja nafn Guðs við hégóma. Það er í sjálfu sér ámælisvert en verri er þó vanrækslan á boðskapnum eða það sem virðist algjör skortur á vilja til að fylgja honum eftir. Boðorðin eru ákveðnar og einfaldar meginreglur sem börnum var kennt að temja sér, dæmisögurnar til þess að læra af enda felst í þeim mikil viska. Í gegnum boðskapinn hafa verið dregnar sjö höfuðsyndir en þær eru leti, ágirnd, græðgi, nautnasýki, dramb, öfund og reiði. Allar byggjast þær á tilfinningum sem eru manninum í blóð bornar og augljósar á hinum svonefndu samskiptamiðlum, þeirri allra verstu sálarmeinsemd, sem þrátt fyrir nafnið hefur litlu skilað í samskiptum öðru en eyðileggingu á hinu eðlilega. Þetta ættum við öll að hafa hugfast.
Síðastliðin ár benda nefnilega til þess að tilfinningahernaði sé beitt af miklum þunga í fjölmiðlum til þess að knýja fram lögfestingu á hinu og þessu umróti. Samlegðaráhrifin til lengri tíma litið kunna að enda í vanrækslu á því allra mikilvægasta og óstöðugleika. Tálsýn tilfinninganna Eftir Viðar Guðjohnsen Viðar Guðjohnsen » Síðastliðin ár benda til þess að tilfinningahernaði sé beitt af miklum þunga í fjölmiðlum til þess að knýja fram lögfestingu á hinu og þessu umróti.
Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.