Þjóðarkreppa

Leiðari Mbl 17. febrúar 2021:

Það skiptir öllu að glannaleg framganga veiklyndra stjórnmálamanna höggvi ekki á  mikilvægasta þráðinn

Full ástæða er til að vekja athygli á stórmerkri grein Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara hér í blaðinu sl. laugardag. Greinin ber yfirskriftina „Kreppa lýðræðisins“. Og er þar í engu ofmælt. Arnar Þór rifjar upp að það var kunn meginforsenda þess að staðfesting Alþingis gæti gengið fram á samningnum um EES að fullveldiskröfum stjórnarskrárinnar væri ekki storkað. Því var tryggt af hálfu Íslands að landið hefði lokaorðið um það hvort „tilskipanir“ tengdar EES-samningnum yrðu leiddar í lög þess. Fullyrt var af hálfu þeirra sem báru ábyrgð á samningsgerðinni að öllum aðilum væri þetta ljóst og einnig hitt að Ísland yrði ekki beitt neinum þvingunum af því tilefni á komandi tíð. Nú er ljóst orðið að íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki staðið við sitt nema síður sé og er það alvarlegt mjög. Héraðsdómarinn segir í framhaldi af því: „Af þessum sökum hringdu allar viðvörunarbjöllur hjá mér þegar ég sá hvernig standa átti að innleiðingu þriðja orkupakka ESB 2019 (OP3) og jafnvel fullyrt að Íslendingar gætu ekki sótt um undanþágur! Ljóst var að stór hluti almennings var á móti innleiðingunni og hreyft var sjónarmiðum um að OP3 fæli í sér framsal ríkisvalds sem stæðist ekki stjórnarskrá. Gagnrýni var svarað með því að færa athyglina að smáatriðum, með útúrsnúningum eða með beinum rangfærslum. Þegar til kastanna kom var OP3 innleiddur með þingsályktun en ekki formlegu lagasetningarferli. Látið var að því liggja í umræðum innan og utan þings að samningsbundið neitunarvald Íslands væri aðeins gilt í orði en ekki á borði. Sú skemmri skírn sem málið fékk á Alþingi varð til þess að stjórnskipulegir varnaglar um aðkomu forseta lýðveldisins voru sniðgengnir og málið var aldrei borið undir hann til samþykktar eða synjunar, sbr. ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Mér er tjáð að nú sé svo komið að hátt hlutfall nýrra lagareglna öðlist gildi með þessum óvandaðri hætti!“ Og Arnar Þór heldur áfram: „Ef satt er, þá má sú þróun teljast verðugt rannsóknarefni fyrir lögfræðinga.“ Og hann bætir við: „Hver eru þá rökin fyrir því að þingsályktun sé veitt sama gildi og lögum sem hlotið hafa þinglega og stjórnskipulega rétta meðferð?“ Eins og menn muna gekk þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þvert á ákvarðanir Landsfundar síns í þessu máli og að auki óvenjulega ljósar yfirlýsingar formanns flokksins á Alþingi sem voru svo afgerandi að ekkert gat farið á milli mála. Ekkert annað atriði er eins til þess fallið og þetta að skaða trúverðugleika þess flokks sem hefur langleiðina hingað til verið burðarbitinn í þjóðarskútu Íslendinga. Alvara málsins er einnig sú að Íslendingar hafa nú enga leið til að fella burt íþyngjandi ákvarðanir, sem stangast berlega á við stjórnarskrá og er laumað inn eins og ómerkilegustu þingsályktun og skotið fram hjá lögmætum atbeina forsetans með þessari sviksamlegu aðferð. Og með þessari aðferð er hratt og örugglega verið að smygla þjóðinni inn í ESB þvert á vilja hennar, og þvert á sjálfa stjórnarskrá landsins. Með hliðsjón af því er óþarfa fikt forsætisráðherrans við stjórnarskrána einkar ógeðfelld gjörð í blálok kjörtímabils og eins hitt að hinir flokkarnir í ríkisstjórninni skuli láta slíkt yfir sig ganga.