Enginn verði út undan

Þegar horft er til þeirrar velsældar sem gæði okkar góða lands geta verið grunnur að, ef rétt er að málum staðið, er mér efst í huga að við tökum höndum saman um að tryggja að þar fái allir að njóta – enginn verði útundan.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Nái ég kjöri í öruggt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi mun ég á Alþingi beita mér fyrir að flokkurinn sýni í öllu starfi sínu að honum er ljóst mikilvægi allra stétta þjóðfélagsins. Vilji vinna að sátt og samstarfi þeirra í milli, enda er fátt mikilvægara fyrir farsæld þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk þarf í viðleitni sinni til að efla hag þjóðarinnar að standa með grundvallarstefnumálum sínum, verja traustar undirstöður sígildrar frjálslyndrar íhaldsstefnu sem kristallast í upprunalegum gildum Sjálfstæðisflokksins. Þau eiga jafn vel við í dag sem áður. Besta leiðin til þess er að efla sjálfstæða, siðræna og gagnrýna hugsun, sem því miður hefur mætt vaxandi mótbyr hér á landi og víðar um heim.

Traust menntun styrkir tjáningarfrelsið
Ég mun leggja áherslu á menntamál nái ég kjöri. Sá málaflokkur hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægari en nú. Leggja þarf aukna áherslu á menntun uppvaxandi kynslóðar, einkum grunnfögin lestur, reikning og skrift, um leið og sækja þarf í fræðslunni styrk í hinn trausta menningararf þjóðarinnar með því að tryggja staðgóða þekkingu á honum, landi og sögu. Verknám fái aukið vægi í skólakerfinu, sem einnig ber að laga jafnóðum að hinni hröðu framþróun í hverskonar tækni og vísindum. Vinna ber markvisst að því að hver og einn geti notið sem best hæfileika sinna, látið til sín taka í þjóðfélaginu á þann hátt sem hugur hans og geta helst standa til. Styrkja ber tjáningarfrelsið með öllum ráðum og tryggja að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé (fjölmiðlar, háskólar o.fl.) gæti hlutleysis.

Lesa áfram

Skert full­veldi – lakari lífs­kjör

Sigurður Þórðarson skrifar:

Sigurður Þórðarson

Allt frá tímum Gamla sáttmála hefur barátta Íslendinga snúist um aukið frjálsræði í verslun. Þessa sögu þekkja margir Íslendingar enda hafa verið skrifaðar um hana margar bækur og doktorsritgerðir. Í apríl sl. voru liðin 166 ár síðan Íslendingar fengu verslunarfrelsi og um leið leyfi til að eiga viðskipti við aðra en Dani. Óumdeilt er að enginn einn atburður hafði meiri áhrif á þróunina frá örbirgð til bjargálna.

Inn í þessa sögu tvinnast þjóðarátak við stofnun Eimskips og samvinnufélaga, sem ásamt ýmsu öðru rufu verslunar einangrun þjóðarinnar. Skömmu eftir lýðveldis tökuna 1944 sögðu Íslendingar upp Flesksölusamningnum illræmda frá árinu 1901 (milli Dana og Breta), með það í huga að færa út fiskveiðilögsöguna. Þetta var gert árið 1952 þegar landhelgin var færð úr þremur í fjórar sjómílur.

Lesa áfram

Vanda skal val þegar kosið er til þings

Arnar Þór í 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Kraganum.

Ragnhildur Kolka skrifar í Mbl

Ragnhildur Kolka

„Það þarf að hreinsa út á Alþingi og fá nýtt fólk sem kann til verka.“ Þessa setningu má heyra í öllum innhringiþáttum sem útvarpsstöðvarnar bjóða upp á. Þeir sem þennan söng kyrja eru oftast að hugsa um eigin hagsmuni sem lítið erindi eiga inn á þing þjóðarinnar. En kemur þá að kosningum og sagan endurtekur sig. Tilraunir til að bæta mannval á þingi hafi lítið lagað. Til dæmis hefur tilraunin til að hækka laun þingmanna, og fá þannig reynslumikið fólk með haldgóða menntun, gersamlega mistekist. Alls kyns lukkuriddarar, með litla sem enga reynslu aðra en að tala fyrir eigin skoðun, hafa þá nælt sér í þægilega innivinnu. Afleiðingin er að flokkar spretta upp eins og gorkúlur því nú hefur ríkið tekið framfærslu þeirra á sig. Og ef eitthvað, þá sýnir reynslan að gæðastuðullinn lækkar með hverju ári. Busarnir koma inn með ærslum og það að markmiði að láta fyrir sér fara; sá sem hefur hæst, gagnrýnir mest og kemst oftast í settið hjá RÚV á besta möguleikann á að ná endurkjöri. Eða þannig virðist planið sett upp. En nú sést ljós við enda ganganna. Þær fréttir berast að hinn ágæti Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem mörgum er kunnur af greinaskrifum um þjóðmál, gefur nú kost á sér til setu á Alþingi.

Verður að segjast að sú sem þetta ritar harmar það helst að geta ekki tekið þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi, því langt er um liðið síðan annar eins gæslumaður fyrir hagsmunum Íslands og fullveldi þjóðar hefur stigið fram í röðum þeirra. Vona ég að kjósendur í kjördæminu séu mér sammála og styðji framboð hans, því ekkert er jafn mikilvægt fyrir íslenska þjóð og að fulltrúar hennar hafi ást og trú á henni sjálfri. Nóg er af neisegjurum í öðrum flokkum. Arnar Þór hefur um árabil fjallað um samspil laga og samfélags á vettvangi löglærðra, en steig skrefið inn í opinbera umræðu á síðum Morgunblaðsins árið 2017. Þar, og víðar, hefur hann fjallað um ýmis lögfræðileg, siðferðisleg og samfélagsleg mál af heimspekilegri nálgun samkvæmt vestrænni lýðræðishefð. Slík umfjöllun kveikir sjaldnast stóra elda hér á landi, þótt þá þegar hafi hann aflað sér nokkuð stórs hóps lesenda. Enn fleiri tóku þó að sperra eyrun þegar hann setti fram efasemdir um réttmæti þess að Alþingi samþykkti þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Var hann þá óragur við að vara við hættunni á fullveldisafsali sem í slíkri samþykkt fælist. Á sinn hógværa hátt minnti hann á að fullveldi þjóðar gæti stafað ógn af og benti m.a. á að EES-samningurinn hefði, á sínum tíma, tryggt þjóðinni óskorað vald yfir orkulindum.

Lesa áfram

Að stinga höfðinu í steininn

Nú eru heilbrigðismálin að „springa framan í“ ráðherra málaflokksins.

Ragnar Önundarson skrifar í Mbl um heilbrigðismálin

Ragnar Önundarson

Ríkinu er óheimilt að tryggja sjálfu sér einkaaðstöðu á mörkuðum þar sem samkeppni á að ríkja. Þetta er svo mikilvægt prinsipp að settar hafa verið evrópskar reglur um samkeppni í heilbrigðisþjónustu. Ef lengri biðraðir myndast en til þriggja mánaða er okkur heimilt að fara út úr biðröðinni á kostnað sjúkratrygginga. Ekki eftir þriðja mánuð, eins og margir halda, heldur strax, ef biðröðin er lengri en þrír mánuðir. Þar með styttist bið annarra. Vitað er að fæstir vilja fara utan á sjúkrahús, flest fólk setur allt sitt traust á lækninn sinn og treystir sér ekki til að vera sjúklingar á erlendu tungumáli. Þessar náttúrulegu samkeppnishindranir veita ríkinu vernd fyrir erlendri samkeppni sem ekki er unnt að fjarlægja.

Lesa áfram

Jón Magnússon um úrslit prófkjörs xD:

Jón Magnússon

Atlagan að stöðu Guðlaugs Þórs sem helsta forustumanns Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík geigaði. Hann fékk flest atkvæði í prófkjörinu og er því enn ótvíræður foringi Sjálfstæðisfólks í Reykjavík og full ástæða til að óska honum og Flokknum til hamingju með það.

Sterk staða nýliðans Diljá Mist Einarsdóttur,vekur athygli,en hún vann 3. sætið með glæsibrag og er glæsilegur fulltrúi venjulegs ungs fólks innan Sjálfstæðisflokksins. Diljá hefur getið sér góðs orðs hvarvetna sem hún hefur starfað og mikils af henni að vænta í framtíðinni.

Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson héldu sjó og Kjartan Magnússon og Friðjón Friðjónsson mega vel við sinn hlut una.

Nokkur atriði eru umhugsunarverð fyrir Sjálfstæðisfólk að loknu þessu prófkjöri og að fengnum þessum úrslitum.

Í fyrsta lagi er Sigríði Andersen fyrrum dómsmálaráðherra hafnað. Það er alvarlegt mál. Ekki síst fyrir það, að Sigríður er ötulasti málsvari borgaralegs frelsis innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er alvarlegt mál þegar Sjálfstæðisfólk refsar ötulasta málsvara grundvallarsjónarmiða sjálfstæðisstefnunnar, vegna þess ótta, sem byggður hefur verið upp til réttlætingar hömlum og ófrelsi.

Í öðru lagi voru það afgerandi mistök að hafna Ingibjörgu Sverrisdóttur formanni félags eldri borgara í Reykjavík, helsta málsvara félagslegs réttlætis fyrir aldraða og verkafólk í þessu prófkjöri.

Í prófkjörinu sannaðist enn sem fyrr máttur peningana og auglýsinga í pólitískri baráttu og sýnir venjulegu fólki, hvað þarf til að ná árangri í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins. Milljónir á milljónir ofan þurfa til að koma. Þannig á það ekki að vera og má ekki vera og knýr á um að leita annarra leiða við val á frambjóðendum Flokksins í framtíðinni.

Þátttakan í prófkjörinu var góð miðað við það sem verið hefur undanfarin ár, en er léleg miðað við t.d. prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þar sem um 5000 manns kusu í helmingi fámennara kjördæmi en í Reykjavíkurkjördæmunum. Þá er þessi þátttaka svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar gott betur en 10 þúsund manns mættu til að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Jón Magnússon er hæstaréttarlögmaður í Reykjavík

Hættum að níðast á öldruðum

Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Hér á landi búa margar kynslóðir með ýmsar þarfir sem hlúa þarf að með mismunandi hætti. Miklu skiptir við alþingiskosningar í haust, að vel takist til við val á þingmönnum og mikilvægustu hagsmunir og sjónarmið fólksins í landinu eigi sér málsvara á Alþingi. Á það hefur skort að eldra fólk ætti málsvara á Alþingi og sennilega er það þess vegna sem hagsmuna þess hefur ekki verið gætt eins vel og nauðsyn hefur borið til á þeim vettvangi. Eitt er þó víst að aldraðir eiga svo sannarlega inni þann rétt að vel sé hugsað fyrir þeirra þörfum svo þeir geti átt bærilegt ævikvöld. Flest stjórnmálasamtök taka þó undir slagorðið „að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“, en á það hefur verulega skort og að orð og efndir hafi farið saman.

Svívirðileg meðferð á öldruðum

Því miður er það svo að þegar aldraðir missa heilsuna, sem óhjákvæmilegt er fyrr eða síðar, þá skortir verulega á að þjónusta við þá sé í samræmi við þeirra þarfir. Langar biðraðir eru eftir einföldum læknisaðgerðum eins og liðskiptum sem valda viðkomandi hreyfihömlun og miklum þjáningum oft misserum saman. Í sumum tilfellum hefur þeim verið þvælt til útlanda í aðgerð sem unnt er að sinna á einkareknu sjúkrahúsi hér á landi með miklu minni kostnaði og fyrirhöfn, en einhver pólitísk hugmyndafræði er látin bitna á sjúklingunum. Svipaða sögu má segja um margar aðrar einfaldar en mjög lífsbætandi aðgerðir fyrir aldraða eins og t.d. skiptingu á augasteini sem þeir eru ekki taldir verðskulda fyrr en þeir eru orðnir hálfblindir. Þessi meðferð skrifast fyrst og fremst á reikning heilbrigðisráðherrans sem fær stuðning annarra ráðherra í ríkisstjórninni sem nú víkja, en hafa stutt til valda. Stuðningur við veikburða aldraða og hjúkrunarheimili er alveg sér kapítuli.

Lesa áfram

Flokkur og frambjóðendur

Jón Magnússon skrifar

Jón Magnússon

Ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum knúði á sínum tíma fram breytingar á reglum Flokksins um val á frambjóðendum. Í stað þess að sérvaldar kjörnefndir stilltu upp fólki, áttu flokksmenn og jafnvel allir kost á því að kjósa milli þeirra sem gáfu kost á sér.

Þó hvert kerfi hafi til síns ágætis nokkuð, þá verður öðru hverju að breyta til vegna þess að kerfi hafa tilhneigingu til að staðna. Þannig er það líka með prófkjörin.  Prófkjör gagnast vel þegar kosið er á milli einstaklinga, en síður þegar raða á upp á framboðslista. 

Verkefni kjörnefnda hér áður fyrr var að gæta þess, að fá stjórnmálafólk sem var forustufólk á sínu sviði og naut álits og vinsælda í framboð.

Á þeim tíma mátti jafnan sjá á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík forustufólk í viðskitpalífi, verkalýðshreyfingu og ýmsum félagssamtökum. Á þeim tíma naut  Sjálfstæðisflokkurinn iðulega ríflega 40% fylgis Reykvíkinga.  

Á það hefur skort undanfarna áratugi, að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bæri gæfu til þess í gegnum prófkjör að fá framboðslista, sem spegla þann vilja að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur allra stétta og í húsi hans séu margar vistarverur eins og Jóhann Hafstein fyrrverandi formaður Flokksins orðaði það svo snilldarlega á sínum tíma einmitt þegar þörf var á.

Lesa meira

Aðhalds er þörf á þingi

Bjarni Jónsson skrifar

Persónukjör:

Bjarni Jónsson

Talsverð spurn hefur verið eftir því hérlendis, að kjósendur fengju í hendurnar raunhæfa möguleika á því að velja, hverjir setjast á þing fyrir stjórnmálaflokkana.  Þessi þörf kemur aðallega fram hjá kjósendum, sem búa við hlutfallskosningar, eins og t.d. Íslendingar og Þjóðverjar, en þýzku kosningareglurnar veita kjósendum þar möguleika á að kjósa bæði flokk og einstakling á þing.  Hérlendis hafa sumir stjórnmálaflokkanna komið til móts við kjósendur að þessu leyti með því að halda prófkjör, í seinni tíð bundin við þátttöku eigin flokksmanna.  Sjálfstæðisflokkurinn gengur fram með skýrustum hætti allra flokkanna á þessu vori vegna Alþingiskosninganna haustið 2021, því að hann býður flokksmönnum sínum að velja frambjóðendur í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi landsins.  Þar með valdeflast flokksmenn, og þeir verða lýðræðislega virkari en þeir, sem ekki njóta þessara réttinda. Ætla má, að kjósendum falli þessi lýðræðislega aðferð betur í geð en óskýr aðferðarfræði „flokkseigenda“ fyrir luktum dyrum. 

Lýðræðið:

Arnar Þór Jónsson, dómari, (AÞJ), hefur manna ötullegast gengið fram á undanförnum árum við að sýna okkur fram á útþynningu lýðræðisins á Íslandi vegna minnkandi áhrifa kjörinna fulltrúa almennings á mótun laganna.  Þetta stafar sumpart af lagafrumvörpum, sem í auknum mæli berast þingmönnum misvönduð frá ráðuneytunum, en verstur er þó flaumur tilskipana og reglugerða, sem stafar frá embættismönnum Evrópusambandsins, ESB, og samþykktar hafa verið af EFTA-ríkjunum þremur (EFTA-Fríverzlunarsamtök Evrópu), sem sæti eiga með fulltrúum ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni (EES-Evrópska efnahagssvæði ESB og EFTA utan Svisslands). 

Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993, og hann gekk í gildi 1. janúar 1994.  Þar með tók s.k. fjórfrelsi Innri markaðar ESB með öllu sínu viðamikla regluverki gildi á Íslandi, þ.e. frjálst flæði vöru (þó ekki með algeru tollfrelsi fiskafurða), þjónustu, fólks og fjármagns.  Viðsemjandi EFTA-landanna, sem þá voru fleiri en nú, var í raun Efnahagsbandalag Evrópu (European Economic Community), en arftakinn, Evrópusambandið (European Union) hefur fengið sitt stjórnarskrárígildi (Lissabon-sáttmálann), aukin völd frá aðildarlöndunum og margar nýjar stofnanir undir stjórn Framkvæmdastjórnarinnar.  Um er að ræða ríkjasamband, sem virðist stefna á að verða Sambandsríki. 

Framkvæmdastjórn ESB ákveður, hvað af lagasetningum og reglum ESB, sem hún metur, að varði samræmingu ríkjanna, svo að Innri markaðurinn virki hnökralaust, hún leggur fyrir EFTA.  EFTA-ríkin móta síðan sameiginlega afstöðu, og ef þau telja sig ekki geta orðið við ósk ESB um innleiðingu, þá fer málið ekki fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til afgreiðslu. Fáein dæmi eru um það vegna andstöðu norskra stjórnvalda og Stórþingsins.

Lesa áfram