Þegar horft er til þeirrar velsældar sem gæði okkar góða lands geta verið grunnur að, ef rétt er að málum staðið, er mér efst í huga að við tökum höndum saman um að tryggja að þar fái allir að njóta – enginn verði útundan.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl
Nái ég kjöri í öruggt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi mun ég á Alþingi beita mér fyrir að flokkurinn sýni í öllu starfi sínu að honum er ljóst mikilvægi allra stétta þjóðfélagsins. Vilji vinna að sátt og samstarfi þeirra í milli, enda er fátt mikilvægara fyrir farsæld þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk þarf í viðleitni sinni til að efla hag þjóðarinnar að standa með grundvallarstefnumálum sínum, verja traustar undirstöður sígildrar frjálslyndrar íhaldsstefnu sem kristallast í upprunalegum gildum Sjálfstæðisflokksins. Þau eiga jafn vel við í dag sem áður. Besta leiðin til þess er að efla sjálfstæða, siðræna og gagnrýna hugsun, sem því miður hefur mætt vaxandi mótbyr hér á landi og víðar um heim.
Traust menntun styrkir tjáningarfrelsið
Ég mun leggja áherslu á menntamál nái ég kjöri. Sá málaflokkur hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægari en nú. Leggja þarf aukna áherslu á menntun uppvaxandi kynslóðar, einkum grunnfögin lestur, reikning og skrift, um leið og sækja þarf í fræðslunni styrk í hinn trausta menningararf þjóðarinnar með því að tryggja staðgóða þekkingu á honum, landi og sögu. Verknám fái aukið vægi í skólakerfinu, sem einnig ber að laga jafnóðum að hinni hröðu framþróun í hverskonar tækni og vísindum. Vinna ber markvisst að því að hver og einn geti notið sem best hæfileika sinna, látið til sín taka í þjóðfélaginu á þann hátt sem hugur hans og geta helst standa til. Styrkja ber tjáningarfrelsið með öllum ráðum og tryggja að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé (fjölmiðlar, háskólar o.fl.) gæti hlutleysis.