Fjölbreytni í þingflokki sjálfstæðismanna er Sjálfstæðisflokki sem þjóðarflokki nauðsyn til að endurspegla viðhorf landsmanna með viðhlítandi hætti.
Bjarni Jónsson skrifar í Mbl.

Fullveldi þjóðar, lýðræði og einstaklingsfrelsi eru verðmæti sem í askana verða látin. Það sýnir sagan hvarvetna. Allt er þetta vandmeðfarið og útþynning á þessum gildum varasöm, því að hún varðar leiðina til glötunar þeirra. Arnar Þór Jónsson dómari hefur með skilmerkilegum hætti vakið máls á því að viðhorfsbreytingar er þörf hérlendis á meðal embættismanna og þingmanna í átt til enn vandaðri rýni á tilskipunum og reglugerðum ESB m.t.t. til íslenskrar stjórnskipunar áður en þær fara fyrir sameiginlega afgreiðslunefnd ESB og EFTA. Þaðan berast „gerðirnar“ síðan þjóðþingunum til lögfestingar. Nú hefur borið vel í veiði, því að Arnar Þór hefur gefið kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) í 2.-3. sæti D-listans í alþingiskosningunum haustið 2021.
Breytt Evrópusamband
Á árunum 1990-1992, þegar ESB og EFTA sömdu sín á milli um Evrópska efnahagssvæðið, EES, hafði Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar ESB 1985-1995, fengið aðildarlöndin til að samþykkja sáttmála um innri markað ESB og gekk hann í gildi 1. janúar 1993. Þar skyldi fjórfrelsið ríkja, þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns. Sáttmálinn kveður á um viðamikið regluverk, sem ásamt tollum torveldar aðgengi þeirra sem utan við standa nema með sérstökum fríverslunarsamningi. EES-samningurinn var aðallega gerður til að hleypa EFTA-ríkjunum inn á innri markaðinn gegn upptöku regluverksins sem um hann gildir. Það verður sífellt umfangsmeira, og þegar Efnahagsbandalag Evrópu breyttist í Evrópusamband árið 1993 tók eðli þess að breytast með nýjum sáttmálum og eftir Lissabonsáttmálann 2009 er leynt og ljóst stefnt að sambandsríki Evrópu.







