Enginn verði út undan

Þegar horft er til þeirrar velsældar sem gæði okkar góða lands geta verið grunnur að, ef rétt er að málum staðið, er mér efst í huga að við tökum höndum saman um að tryggja að þar fái allir að njóta – enginn verði útundan.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Nái ég kjöri í öruggt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi mun ég á Alþingi beita mér fyrir að flokkurinn sýni í öllu starfi sínu að honum er ljóst mikilvægi allra stétta þjóðfélagsins. Vilji vinna að sátt og samstarfi þeirra í milli, enda er fátt mikilvægara fyrir farsæld þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk þarf í viðleitni sinni til að efla hag þjóðarinnar að standa með grundvallarstefnumálum sínum, verja traustar undirstöður sígildrar frjálslyndrar íhaldsstefnu sem kristallast í upprunalegum gildum Sjálfstæðisflokksins. Þau eiga jafn vel við í dag sem áður. Besta leiðin til þess er að efla sjálfstæða, siðræna og gagnrýna hugsun, sem því miður hefur mætt vaxandi mótbyr hér á landi og víðar um heim.

Traust menntun styrkir tjáningarfrelsið
Ég mun leggja áherslu á menntamál nái ég kjöri. Sá málaflokkur hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægari en nú. Leggja þarf aukna áherslu á menntun uppvaxandi kynslóðar, einkum grunnfögin lestur, reikning og skrift, um leið og sækja þarf í fræðslunni styrk í hinn trausta menningararf þjóðarinnar með því að tryggja staðgóða þekkingu á honum, landi og sögu. Verknám fái aukið vægi í skólakerfinu, sem einnig ber að laga jafnóðum að hinni hröðu framþróun í hverskonar tækni og vísindum. Vinna ber markvisst að því að hver og einn geti notið sem best hæfileika sinna, látið til sín taka í þjóðfélaginu á þann hátt sem hugur hans og geta helst standa til. Styrkja ber tjáningarfrelsið með öllum ráðum og tryggja að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé (fjölmiðlar, háskólar o.fl.) gæti hlutleysis.

Ósýnilegu valdi (stofnanavaldi / peningavaldi / klíkuvaldi) sé ekki beitt til að hræða fólk til undirgefni og þagnar. Engin stofnun má verða ríki í ríkinu. Vald þeirra þarf að tempra þannig að jafnvægis sé gætt í starfseminni og valdi ekki misbeitt.

Kerfin þjóni fólki – ekki öfugt
Einfalda þarf skipurit ríkisstofnana svo almenningi sé auðveldað að reka erindi sín við þær og staðinn sé vörður um frelsi einstaklingins gegn kerfisflækjum. Unnið verði áfram og ákveðið á braut stafrænna samskipta milli borgaranna og kerfisins við afgreiðslu erinda þeirra. Kerfin eiga að þjóna einstaklingunum og fyrirtækjum en ekki öfugt. Draga ber úr stofnanamáli og segja hlutina skýrt þannig að allir geti skilið. Stjórnendaábyrgð verður að vera skýr og raunveruleg, ríkisstarfsmenn þurfa að bera ábyrgð eins og aðrir. Fyrirtæki og fólk þarf einfaldara regluverk og skera þarf markvisst niður reglufargan og sníða það til svo það vísi veg virkrar stjórnsýslu. Alþingi sem samkvæmt stjórnarskrá okkar fer með löggjafarvald í landinu, verður sjálft að axla ábyrgð á þessu lykilhlutverki sínu og sjá til þess að lögin samræmist íslenskum veruleika. Draga verður stórlega úr vægi reglna sem eiga sér ekki lýðræðislega rót og miðaðar eru við milljónaþjóðir sem búa á meginlandi Evrópu við allt önnur skilyrði en ríkja hér á okkar fámenna eylandi. Íslendingar hætti því að taka við lögum í pósti utan frá þegar slíkt er í ósamræmi við veruleika okkar, stærð og uppbyggingu okkar samfélags og beiti ákvæðum um neitunarvald samkvæmt EESsamningnum þegar það á við og viðhafi virka hagsmunagæslu. Tryggja verður að nýting landsgæða verði ákveðin af þjóðinni sjálfri og réttkjörnum fulltrúum hennar en lúti ekki regluverki frá öðrum. Það gafst ekki vel fyrr á tíð að landinu væri stjórnað að utan – og vísbendingarnar eru skýrar um að svo er ekki heldur nú. Á Alþingi verði rætt markvisst um aðalatriði (alvörupólitík), ekki einblínt á aukaatriði (gervipólitík). Kjörnum fulltrúum á Alþingi og annars staðar ber að standa dyggir og trúir á verði um hag þjóðarinnar. Hlutverk embættismanna er að liðsinna kjörnum fulltrúum við framkvæmd verkefna. Ókjörnum embættismönnum leyfist ekki að taka pólitíska stefnumörkun í sínar hendur.

Kreddulausa heilbrigðisþjónustu
Þegar horft er til þeirrar velsældar sem gæði okkar góða lands geta verið grunnur að, ef rétt er að málum staðið, er mér efst í huga að við tökum höndum saman um að tryggja að þar fái allir að njóta – enginn verði út undan. Því er m.a. brýn nauðsyn nú að losa heilbrigðiskerfið við kreddur sem hamla læknisþjónustu, gera öryrkjum kleift að njóta eins eðlilegs lífs og hugsanlegt er – og greiða eldri borgurum enn frekar leiðina til að bæta hag sinn með eigin vinnu eins lengi og vilji og heilsa leyfa. Standa ber áfram vörð um fjölbreytt menningar- og listalíf þjóðarinnar sem á margan hátt er lykill að lífshamingju hennar. Í prófkjörinu 10.-12. júní leita ég eftir stuðningi ykkar í 2.-3. sæti og heiti því að vinna af heilum hug að framgangi hinna góðu gilda sem Sjálfstæðisflokkurinn er byggður á. Ég hvet sjálfstæðisfólk til að mæta á kjörstað og nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til að velja sigurstranglegan framboðslista Sjálfstæðisflokksins við alþingiskosningarnar sem fram fara 25. september nk.

Höfundur sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi 10.-12. júní nk.