Aðhalds er þörf á þingi

Bjarni Jónsson skrifar

Persónukjör:

Bjarni Jónsson

Talsverð spurn hefur verið eftir því hérlendis, að kjósendur fengju í hendurnar raunhæfa möguleika á því að velja, hverjir setjast á þing fyrir stjórnmálaflokkana.  Þessi þörf kemur aðallega fram hjá kjósendum, sem búa við hlutfallskosningar, eins og t.d. Íslendingar og Þjóðverjar, en þýzku kosningareglurnar veita kjósendum þar möguleika á að kjósa bæði flokk og einstakling á þing.  Hérlendis hafa sumir stjórnmálaflokkanna komið til móts við kjósendur að þessu leyti með því að halda prófkjör, í seinni tíð bundin við þátttöku eigin flokksmanna.  Sjálfstæðisflokkurinn gengur fram með skýrustum hætti allra flokkanna á þessu vori vegna Alþingiskosninganna haustið 2021, því að hann býður flokksmönnum sínum að velja frambjóðendur í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi landsins.  Þar með valdeflast flokksmenn, og þeir verða lýðræðislega virkari en þeir, sem ekki njóta þessara réttinda. Ætla má, að kjósendum falli þessi lýðræðislega aðferð betur í geð en óskýr aðferðarfræði „flokkseigenda“ fyrir luktum dyrum. 

Lýðræðið:

Arnar Þór Jónsson, dómari, (AÞJ), hefur manna ötullegast gengið fram á undanförnum árum við að sýna okkur fram á útþynningu lýðræðisins á Íslandi vegna minnkandi áhrifa kjörinna fulltrúa almennings á mótun laganna.  Þetta stafar sumpart af lagafrumvörpum, sem í auknum mæli berast þingmönnum misvönduð frá ráðuneytunum, en verstur er þó flaumur tilskipana og reglugerða, sem stafar frá embættismönnum Evrópusambandsins, ESB, og samþykktar hafa verið af EFTA-ríkjunum þremur (EFTA-Fríverzlunarsamtök Evrópu), sem sæti eiga með fulltrúum ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni (EES-Evrópska efnahagssvæði ESB og EFTA utan Svisslands). 

Alþingi samþykkti EES-samninginn 1993, og hann gekk í gildi 1. janúar 1994.  Þar með tók s.k. fjórfrelsi Innri markaðar ESB með öllu sínu viðamikla regluverki gildi á Íslandi, þ.e. frjálst flæði vöru (þó ekki með algeru tollfrelsi fiskafurða), þjónustu, fólks og fjármagns.  Viðsemjandi EFTA-landanna, sem þá voru fleiri en nú, var í raun Efnahagsbandalag Evrópu (European Economic Community), en arftakinn, Evrópusambandið (European Union) hefur fengið sitt stjórnarskrárígildi (Lissabon-sáttmálann), aukin völd frá aðildarlöndunum og margar nýjar stofnanir undir stjórn Framkvæmdastjórnarinnar.  Um er að ræða ríkjasamband, sem virðist stefna á að verða Sambandsríki. 

Framkvæmdastjórn ESB ákveður, hvað af lagasetningum og reglum ESB, sem hún metur, að varði samræmingu ríkjanna, svo að Innri markaðurinn virki hnökralaust, hún leggur fyrir EFTA.  EFTA-ríkin móta síðan sameiginlega afstöðu, og ef þau telja sig ekki geta orðið við ósk ESB um innleiðingu, þá fer málið ekki fyrir Sameiginlegu EES-nefndina til afgreiðslu. Fáein dæmi eru um það vegna andstöðu norskra stjórnvalda og Stórþingsins.

Hagsmunagæzlan:

Þegar t.d. kemur að orkumálunum, verður ekki séð, að þau snerti Innri markaðinn neitt varðandi Ísland, þar sem Ísland er án nokkurra lagna, sem flytja orku á milli landa.  Jón Baldvin Hannibalsson, sem var utanríkisráðherra Íslands, þegar EES-samningurinn var gerður, staðfesti oftlega í umræðunum á Íslandi 2019 um Orkupakka 3 (OP3), að okkur kæmi einfaldlega öll sú löggjöf ekki við, því að við ættum í engum milliríkjaviðskiptum með orku eftir raflögnum eða gaslögnum, en megininntak OP3 er að færa stjórnun slíkra viðskipta til ACER-Orkustofnunar ESB.  Ef Íslendingar hefðu óskað eftir samþykki hinna EFTA-landanna fyrir undanþágu frá OP3 á þeim forsendum, að hann ætti ekki við hér, eins og Járnbrautarpakki 4, má telja líklegt, að afstaða EFTA hefði orðið sú í Sameiginlegu EES-nefndinni, að Ísland fengi undanþágu frá veigamiklum atriðum eða jafnvel öllum OP3 og að ESB hefði fallizt á þá tilhögun. 

Alþingi var á undirbúningsstigum búið að fjalla um OP3 án teljandi athugasemda, nema frá einum þingmanni, Frosta Sigurjónssyni, sem varaði við að hleypa þessu máli lengra.  Þetta mál sýndi í hnotskurn, að hagsmunagæzlu fyrir Íslands hönd á Alþingi gagnvart EES er ábótavant.  Með því að velja menn með getu, þekkingu og vilja til að verja fullveldi Íslands á öllum sviðum, þar sem að því og Stjórnarskránni er sótt, til setu á Alþingi, leggja kjósendur sitt lóð á vogarskálar sjálfstæðisbaráttunnar, sem aldrei lýkur. 

Arnar Þór Jónsson:

AÞJ skrifaði í Garðapóstinn í maí 2021 stutta og skelegga grein, sem vænta má, að marka muni störf hans á þingi, hljóti hann þingsæti í Alþingiskosningunum haustið 2021.  Þar stóð m.a. þetta:

„Okkur ber [að] standa vörð um burðarstoðir lýðveldisins og þann lýðræðislega grunn, [sem] markaður er með stjórnarskránni.“

„Stöðugt umfangsmeira framsal íslenzks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana á sér ekki stjórnskipulega stoð.  Athugasemdalaust og umræðulaust þokumst við frá lýðræðislegum stjórnarháttum í átt til skrifræðis og fámennisstjórnar, þar sem valdhafar svara ekki til ábyrgðar gagnvart borgurunum.  Lýðveldið hefur af þessum sökum veikzt, en skrifstofuveldið styrkzt.  Samhliða þrengir stjórnlyndi í síauknum mæli að borgaralegum réttindum, þ.m.t. tjáningarfrelsinu.“

Þessi niðurstaða greiningar Arnars Þórs á stjórnmálastöðunni nú er alvarleg og krefst viðbragða af hálfu þeirra, sem eru sama sinnis, og þeir eru allmargir í Sjálfstæðisflokkinum.  Svo vel vill til, að hann býður sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 10.-12. júní  í SV-kjördæmi í 2.-3. sæti listans vegna Alþingiskosninganna haustið 2021.  Á næsta kjörtímabili má búast við viðamiklum „gerðum“ frá ESB til EFTA til innleiðingar á Íslandi, í Noregi og í Liechtenstein, og þá er brýnt, að sem flestir þingmenn verði í stakk búnir til að rýna þessi mál af kostgæfni og vega og meta, hvernig hagsmunum Íslands verður bezt borgið í þessu samstarfi á vettvangi EES. 

Orkupakki 4:

Eitt þessara stórmála er lagabálkur, sem nú þegar hefur tekið við af Orkupakka 3 í ESB og bíður innleiðingar EFTA-landanna.  Þessi nýja afurð ESB á orkusviði gengur enn lengra en eldri orkulöggjöf ESB í miðstýringarátt og valdframsali frá innlendum stjórnvöldum og fyrirtækjum á borð við Landsnet til Orkustjóra ESB í aðildarlöndunum (National Energy Regulator) og til ACER (Orkustofnunar ESB) og framkvæmdastjórnar ESB á sviði orkumála.  Stjórnsýslunnar og Alþingis bíður það vandasama verkefni að rýna, hvað í OP4 er ósamrýmanlegt íslenzku Stjórnarskránni og/eða gengur í berhögg við íslenzka hagsmuni á sviði, sem gegnir stærra hlutverki í íslenzkum þjóðarbúskapi en í nokkru öðru aðildarlandi EES.  Engum er betur treystandi til að vega þetta og meta af kostgæfni og finna þær röksemdir, sem duga íslenzkum hagsmunum á vettvangi EES, en Arnari Þór Jónssyni. 

Sjálfstæðisstefnan:

Með lokaorðum sínum í téðu prófkjörsávarpi í Garðapóstinum sýndi AHJ, svo að ekki verður um villzt, að hann er trúr upphafsgildum Sjálfstæðisflokksins, sem eiga ekki síður erindi við Íslendinga árið 2021 en 1929:

„Framangreind afstaða mín er í fullu samræmi við hina klassísku sjálfstæðisstefnu og hugsjónir hennar um sjálfsákvörðunarrétt, einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi.  Enn sem fyrr eru þessi góðu gildi grundvöllur þess, að fjölskyldur og fyrirtæki, menntun, menningar- og efnahagslíf, geti blómstrað.“

Garðabæ, 01.06.2021

Bjarni Jónsson, rafm. verkfr.