Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl:
Mönnum leyfist ekki að daufheyrast við tilburðum sem leiða til þróunar valdakerfis sem reist er á veikum og ófullnægjandi lagalegum grunni
Segja má að greinin sem hér birtist dragi saman í stuttu máli margt það sem ég hef gert að umtalsefni í fyrri greinum um Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) og stöðu Íslands innan EES. Umfjöllun sú sem hér birtist er þó að stórum hluta endursögn á nýrri grein eftir Andrew Tettenborn, prófessor við lagadeild háskólans í Swansea, sem birt var í Spectator 4. mars sl. (The EU is sliding into a United States of Europe). Á vissan hátt endurómar grein hans það sem ég hef viljað vekja Íslendinga til vitundar um. Tettenborn fjallar um atvik sem eiga sér nokkra samsvörun við mál Guðmundar Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu, sem yfirdeild MDE taldi viðeigandi að ráða til lykta með úrlausn sem birt var fullveldisdaginn 1. desember sl. Ef menn sjá sannleikskorn í því sem Tettenborn segir um stöðu ríkja sem formlega hafa gengið í ESB, þá hlýtur að vera full ástæða til að velta fyrir sér réttmæti þess að MDE blandi sér í innanríkismál hér á landi og grípi fram fyrir hendurnar á fólki sem Íslendingar hafa, í lýðræðislegum kosningum, veitt umboð til að stýra þeim málum. Við Tettenborn erum sammála um mikilvægi þess að sem flestir sjái og gagnrýni slík utanaðkomandi inngrip sem standa á ótraustum eða engum lagalegum og lýðræðislegum grunni. Það hef ég fengið staðfest frá honum sjálfum.
Pólland og ESB
Öfugt við Íslendinga hafa Pólverjar formlega skuldbundið sig til að hlíta grundvallarsáttmálum ESB, þ.m.t. Lissabon-sáttmálanum sem til varð eftir að stjórnarskrá ESB var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi. Þriðjudaginn 2. mars sl. urðu þau tíðindi að dómstóll ESB kaus, á grundvelli almennra meginreglna Lissabonsáttmálans, að blanda sér í það hvernig Pólverjar standa að skipun dómara í Hæstarétt Póllands. Samkvæmt stjórnarskrá Póllands eru hæstaréttardómarar skipaðir af forseta landsins að fenginni tilnefningu KRS (Dómstólaráði Póllands) sem aðallega er samsett af dómurum. Fram til ársins 2019 voru dómarar í stjórn KRS kosnir af fulltrúum dómsvaldsins og umsækjendur sem ekki hlutu embætti áttu málskotsrétt til stjórnsýsludómstóls.
Meira…