Því miður hefur grunnstefnu flokksins ekki verið haldið nægilega á lofti undanfarna tvo Áratugi.
Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl:

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929. Þeir menn sem stóðu að stofnun hans vildu beita sér fyrir umbótum í þessu hrjóstruga landi og leysa landkosti þess úr læðingi með rafvæðingu sveita og ýmsum öðrum verklegum framförum. Megináhersla var lögð á frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðernisvitund manna en ekki síður á frjálst framtak, frjálsa verslun og frelsi einstaklinganna. Í stefnuskránni var jafnframt lögð áhersla á að tryggja afkomu þeirra, sem áttu undir högg að sækja í lífinu. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt, þegar skilyrði væru til þess skv. sambandslögunum. Hins vegar sagði, í stefnuyfirlýsingunni frá 1929, að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“ Þegar litið er til framangreindra stefnumiða og hugsjóna þeirra manna, sem stofnuðu flokkinn, er ljóst að menn hafa ekki lengi þurft að leita viðeigandi nafns fyrir hann. Annars vegar stefnir hann að fullu sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart öðrum eins fljótt og frekast var kostur og hins vegar er gert ráð fyrir að meginstefið í innanlandsstefnunni verði bundið við hlut einstaklingsins. Tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl, þótt hann hitti fyrir sér ofjarl í sjúkdómum eða fátækt. Slíkum aðilum á að hjálpa til sjálfshjálpar og er það í anda þess hugarfars samhjálpar, sem verið hefur samofið þjóðareðlinu frá öndverðu.
Lesa áfram…
Continue reading “Sjálfstæðisflokkurinn– Sjálfstæðisstefnan”







