Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl
Auglýsing hér í Morgunblaðinu frá Sjálfstæðisflokknum fyrir viku gæti bent til þess að flokkurinn ætli að heyja kosningabaráttuna á 50 ára gömlu baráttumáli ungra sjálfstæðismanna um báknið burt. Það er jákvætt enda löngu tímabært en ekki alveg einfalt. Frá því að uppreisnarmenn frjálshyggjunnar komust til valda í flokknum fyrir um fjórum áratugum hefur báknið þanizt út sem aldrei fyrr og Sjálfstæðisflokkurinn átt sinn hlut að því. Til þess að tekið verði mark á þessu markmiði nú þarf vilji til þess að sjást í verki fyrir kosningar. Og þar sem flokkurinn hefur fjármálaráðuneytið í sínum höndum ætti það að vera létt verk. Utanríkisráðuneytið er augljóst fyrsta verkefni. Þar er mesta tildrið og sýndarmennskan og hefur alltaf verið. Utanríkisþjónusta allra landa einkennist af því og þótt hún sé alls staðar hlægileg er hún hlægilegust hjá smáríkjunum. Snemma á þessari öld taldi ráðuneytið að það gæti haft milligöngu um frið milli Ísraela og Palestínumanna. Nú telur það sig geta miðlað málum á milli Bandaríkjamanna og Rússa. Slíkt ofmat á sjálfu sér kostaði óheyrilegt fé þegar utanríkisráðuneytið ætlaði að kaupa sér sæti með stóru strákunum. Til að skipta máli í þeim leik þarf fjölmennar þjóðir, mikla fjármuni og öflugan her. Við höfum ekkert af því. Jafnframt er kominn tími til að fækka sendiráðum bæði á Norðurlöndum og annars staðar. Þau hafa einfaldlega litlum verkefnum að sinna. Eitt sendiráð í Osló dugar fyrir Norðurlöndin öll. Ríkið getur sparað sér kostnað við sendiherrabústaði annars staðar, sem í sumum tilvikum geta kostað um 600 milljónir. Sendiráð í sumum öðrum löndum eru algerlega óþörf. Fyrsta verkefnið hér heima er að ríkið efni til námskeiðs fyrir starfsmenn sína til að upplýsa þá um hvert hlutverk þeirra er.
Í upphafi þessa kjörtímabils boðaði einn ráðuneytisstjóri nánustu samstarfsmenn til fundar og óskaði eftir því að upplýsingar til nýs ráðherra yrðu takmarkaðar. Það eitt sýnir að einhver misskilningur er á ferð meðal starfsmanna í ráðuneytum um þeirra hlutverk. Hinir kjörnu fulltrúar eru valdir af fólkinu í landinu til að ráða. En það er margra áratuga gamalt vandamál að embættismenn reyni að sölsa þau völd undir sig og sú árátta þeirra stuðlar að því að báknið þenst út. Hvers vegna ráðherrar úr öllum flokkum láta það viðgangast er óskiljanlegt.
Að koma böndum á báknið er því verðugt verkefni en það er bæði flókið og víðtækt. Um skeið virtist Miðflokkurinn ætla að taka forystu í því en hann hefur ekki fylgt því eftir. Sjálfstæðisflokkurinn er vel til þess fallinn en þá verður hann líka að horfast í augu við eigin ábyrgð á bákninu. Í bákninu felst gífurleg sóun á almannafé. Þeir sem vinna hjá opinberum aðilum hafa engan skilning á því að sú staða getur komið upp að ekki sé til fyrir launum. Uppsagnir eru að mestu óþekkt fyrirbæri í opinbera kerfinu. Það er kominn tími til að það breytist. Í einu ráðuneyti gengur einn starfshópur undir nafninu „dauðadeildin“ af því að þeir starfsmenn hafa ekkert að gera. Auðvitað er hneyksli að þetta skuli vera svona en engu að síður staðreynd. Standi Sjálfstæðisflokkurinn við stóru orðin í þetta sinn verður það honum mikil lyftistöng í kosningabaráttunni.
Það er þekkt í stærri einkafyrirtækjum að kostnaður við æðstu stjórnendur þeirra hefur tilhneigingu til að vaxa of mikið. En reynslan er sú að þau rétta sig af og skera þann umframkostnað niður. Það gerist ekki hjá opinberum aðilum, hvorki hjá ríki né sveitarfélögum. Þetta sjáum við mjög skýrt hjá stærri sveitarfélögum hér. Við þurfum að hefja mikið átak hér í þessum efnum í opinbera kerfinu öllu. Þótt það kunni að þykja undarlegt á eyðslan á opinberu fé sér rætur í löngu liðnum tíma, þegar „yfirstéttin“ var í betri aðstöðu bæði hér og annars staðar til að lifa á kostnað almennings.
Kóngafjölskyldur fyrri tíma eru enn til en eru tímaskekkja sem á að heyra sögunni til. Það væri fróðlegt að kannað yrði hversu mikið af siðum og venjum á Bessastöðum á rætur að rekja til dönsku hirðarinnar. Slík könnun ætti að fara fram og síðan ætti markvisst að þurrka þá háttsemi út. Og út af fyrir sig má segja það sama um orðuglingrið sem hér er í gangi. Almennt má segja að í okkar samfélagi eigi að þurrka út sýndarmennsku og tildur hvar sem það er að finna. Við erum öll afkomendur sjómanna og bænda og eigum að vera stolt af því. Prjálið sem einkennir flest evrópsk samfélög á ekkert erindi hingað og hefur aldrei átt þótt reynt hafi verið að innleiða ósiði annarra þjóða hér. Sé Sjálfstæðisflokknum alvara með því að koma böndum á báknið og allan umbúnað þess er þetta réttur tími til þess, m.a. vegna þess að við þurfum með einhverjum hætti að borga kostnað við faraldurinn. Það er enginn vafi á því að slíku átaki verður fagnað um allt land. Almennir borgarar sjá þá „blóðugu sóun“ sem hér er hjá hinu opinbera og þola hana illa. Þeir vita hverjir borga. En þetta má ekki verða enn ein sýndarmennskan. Því yrði illa tekið.
Höfundur er f.v. ritstjóri