Leitin að skapandi jafnvægi

Arnar Þór Jónsson skrifar um lýðræðið í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Við lifur á háskalegum tímum. Með því er ég ekki að vísa sérstaklega til kórónuveirunnar (C-19) sem allt hefur snúist um síðustu misseri, heldur annars konar háska sem vegur að undirstöðum lýðfrjálsra samfélaga. Ótti og hjarðhegðun hafa valdið því að margar grunnforsendur daglegs athafnafrelsis eru í uppnámi og mörgum ekki jafn ljósar og áður. Í stað þess að ákvæði stjórnarskrár ákvarði heimildir til sóttvarna eru sóttvarnir orðnar ákvarðandi viðmið fyrir borgaralegt frelsi. Þegar heilbrigðisráðherra reynist hafa gengið of langt í reglusetningu er athyglinni ekki beint að ábyrgð ráðherra og ábyrgð dómstóla gagnvart stjórnarskrá, heldur að ábyrgð dómstóla gagnvart sóttvörnum. Þetta hefur gerst á aðeins rúmlega einu ári, en í smáum skrefum og í beinni útsendingu.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan C-19 kom fram hefur verið þrengt svo að gagnrýninni hugsun og tjáningarfrelsi að jafnvel stjórnlyndustu menn hljóta að viðurkenna að frjálslynd lýðræðishefð þoli ekki slíka þróun til langframa. Nú er svo komið að erfitt er að greina mikinn mun á stefnu stjórnmálaflokkanna. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin.

Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. En þegar ofan á slíkt bætast þöggun, ritskoðunartilburðir, útilokun o.fl. blasir við óheilbrigt ástand. Sú slagsíða sem hér um ræðir veldur hættu á efnahagslegu og pólitísku tjóni. Með því að nýta ekki tjáningarfrelsið eins og kostur er veikja menn lýðræðið, því einsleit tjáning framkallar einsleita umræðu, fábreytni í hugsun og gagnrýnisleysi, sem í verstu mynd þróast út í yfirlæti, hroka og valdbeitingu.

Af þessu má sjá að sumir stjórnmálamenn virðast bregðast hlutverki sínu með því að stökkva á vinsældavagninn, en slíkt gerist iðulega þegar kosningar eru fram undan. Fábreytnin sem hér var lýst hefur mögulega átt verulegan þátt í því að þegar C-19 kom fram afsöluðu stjórnmálamenn sér stefnumótunarhlutverki sínu í hendur sóttvarnarsérfræðinga. Í framkvæmd hefur þetta birst í því að risastórar ákvarðanir hafa verið teknar án þess að lagt hafi verið heildrænt mat á afleiðingarnar. Einn þáttur, þ.e. sóttvarnir, hefur orðið allsráðandi í samfélagslegri stefnumótun. Með þessu hafa hefðbundin stjórnmál verið tekin úr sambandi, eins og norski lagaprófessorinn Hans Petter Graver benti nýlega á. Þegar fókusinn er þrengdur með þessum hætti hverfur allur nauðsynlegur samanburður og víðsýni. Án heildarsýnar verður erfitt að finna nauðsynlegt jafnvægi og feta braut meðalhófs. Með þessu móti er jarðvegurinn plægður fyrir valdboðsstefnu, einræði og harðstjórn. Eitt viðvörunarljósið á þessari háskalegu braut birtist í því að nú er svo komið að hvers kyns heilbrigður efi og sjálfstæð hugsun er uppnefnd sem „frjálshyggja“ og það hugtak notað sem skammaryrði. Hefð sem í rúmlega 200 ár hefur verið kjölfesta lýðræðisins og drifkraftur framfara, þ.e. klassískt frjálslyndi, er smám saman að verða hornreka.

Þeir sem sýna vilja til að nálgast viðfangsefni sín í anda Johns Stuarts Mills, Johns Lockes, Montesquieus o.fl. mega búast við að vera skrumskældir sem „frjálshyggjumenn“ á samfélagsmiðlum og kenndir við öfgahugsun sem ógnar samfélagslegri velferð. Hér er raunveruleg hætta á vatnaskilum. Í stað þess að almennir borgarar standi vörð um frelsi sitt er því afsalað til hins opinbera og borgaralegt frelsi gert háð leyfisveitingum ríkisins. Það sem áður þótti hversdagslegt og sjálfsagt, s.s. ferðafrelsi, er gert tortryggilegt, ekki síst af þeim sem kenna sig við „frjálslyndi“. Allir vilja vera frjálslyndir en raunverulegt inntak þeirrar stefnu dofnar eftir því sem fleiri stjórnlyndir einstaklingar veifa frjálslyndisfána. Þeim fækkar a.m.k. óðum sem trúa sjáanlega á frelsi einstaklingsins og eru á varðbergi gagnvart opinberri valdbeitingu.

Hvar eru nú allir þeir sem hafa leitandi og opinn huga; sem vilja umbera og hlusta á andstæðar skoðanir; sem hafa trú á hinum almenna borgara, hugmyndum hans og skynsemi? Opin og málefnaleg umræða er smiðja, verkfæri og nauðsynleg forsenda góðra ákvarðana. Vondar hugmyndir þola illa slíka deiglu og dagsljós til samanburðar við góðar hugmyndir. Vinsældir og almenn viðurkenning skoðunar jafngilda því ekki að hún sé rétt. Þróunin sem ég hef hér lýst er háskaleg því hægt og bítandi er stjórnlyndi að þrengja að skapandi frjálslyndi. Einkennin birtast m.a. í því að ótti og kvíði víkja allri rökhugsun til hliðar. Hljóðlát rödd samviskunnar er yfirgnæfð í hávaða og upphrópunum. Yfirsýn og heildarmynd er í framkvæmd ýtt til hliðar vegna taugaveiklunar, uppnáms, geðshræringar og skorts á yfirvegun. Áður en yfir lýkur verður aðeins ein tegund hugsunar umborin, þ.e. hjarðhugsun. Eftir Arnar Þór Jónsson » Vinsældir og almenn viðurkenning skoðunar jafngilda því ekki að hún sé rétt.

Höfundur er héraðsdómari
arnar.thor.jonsson@domstolar.is