Að vera eða sýnast

Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið

Í Fréttablaðsgrein 29. apríl sl. víkur Sveinn Andri Sveinsson orðum að tjáningarfrelsi dómara, m.a. með þeim orðum að á dómurum hvíli „sú ríka skylda að gera ekkert sem orkað getur tví­mælis og er til þess fallið að draga ó­hlut­drægni þeirra í efa“. Í greininni er ég nafngreindur með vísan til niðurstöðu Landsréttar í máli þar sem talið var, að þótt orkað gæti tvímælis hvort tjáning mín væri samrýmanleg starfi mínu hefði hún ekki verið þess eðlis að draga mætti óhlutdrægni mína í efa.

Hér birtast glöggar andstæður. Annars vegar krafa um að dómarar geri ekkert sem orkað getur tvímælis og hins vegar sú mannlega reynsla að allt orki tvímælis þá gert er. Viðfangsefni okkar, sem erum af holdi og blóði, er að finna og feta milliveginn með skynsemina og samviskuna að leiðarljósi.

EES er ekki undanþegið gagnrýninni umræðu

Mér telst til að ég hafi á síðustu árum birt um 60 greinar um samhengi laga og samfélags, um tengsl lýðræðis og tjáningarfrelsis – og um dýrmæti þess að vera sjálfráða manneskja og sjálfstæð þjóð. Nánar felst í þessu að lög standa ekki undir nafni nema þau þjóni tilteknu samfélagi og að ekki er unnt að tala um samfélag fyrr en það hefur komið sér upp lögum í einhverri mynd. Íslenskur réttur – og vestræn stjórnskipun – byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Virkt tjáningarfrelsi er nauðsynleg forsenda þess að lýðræðið skili þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. samfélagi þar sem allir eiga þátt í að kjósa æðstu handhafa löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þar sem lögin taka jafnt til allra og allir eru jafnir fyrir lögunum, enginn er m.ö.o. hafinn yfir lögin, valdið er temprað og valdhafar svara til ábyrgðar. Til að þetta geti gengið upp er nauðsynlegt að hver og einn borgari hugsi sjálfstætt, lesi, hlusti, tali, spyrji, myndi sér skoðun á óþvingaðan hátt – og geti skipt um skoðun þegar forsendur breytast eða þegar ný atvik kalla á nýja nálgun.

Í framangreindu dómsmáli hafnaði Landréttur því að tjáning mín um EES rétt ylli vanhæfi. Að gefnu tilefni skal hér áréttað að ein helsta forsenda aðildar Íslands að EES samningum var sú að samningurinn geymdi afmarkaðar heimildir til framsals á íslensku ríkisvaldi, auk þess sem þær heimildir væru á takmörkuðu sviði og ekki verulega íþyngjandi fyrir Íslendinga. Í framkvæmd hefur þróunin þó orðið sú að valdheimildir íslenska ríkisins hafa verið framseldar til alþjóðlegra eftirlitsstofnana með þeim afleiðingum að tengslarof hefur orðið milli íslensks almennings og erlendra valdastofnana sem binda hendur íslenskra stjórnvalda, setja okkur lagareglur og taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenskum fyrirtækjum og íslenskum borgurum.

Hið svonefnda tveggja stoða kerfi EES samningsins virðist ekki lengur standa undir nafni. Í framkvæmd má sjá og finna hvernig Ísland sogast hægt og bítandi nær iðustraumi stofnanaveldisins í Brussel. Mikil orka hefur verið lögð í það af hálfu íslenskra stjórnvalda og íslenskra lögfræðinga að halda uppi þeirri ásýnd að framkvæmd EES samningsins í núverandi mynd rúmist innan heimilda stjórnarskrárinnar og samræmist enn þeim forsendum sem lagðar voru fullgildingu samningsins til grundvallar 1993. Svo er ekki. Engu að síður hafa íslenskir lögfræðingar þagað um það ósamræmi sem upp er komið og þær stjórnskipulegu mótsagnir sem fyrir liggja. Ég leyfi mér að fullyrða að úr hópi u.þ.b. 2000 lögfræðinga hérlendis séu þeir lögfræðingar teljandi á fingrum annarrar handar sem opinberlega og á prenti hafa lýst áhyggjum af þessari þróun, kallað eftir ígrundaðri umræðu og betrumbótum á ástandi sem ekki er sæmandi þjóð sem kallast vill sjálfstæð og fullvalda. Mér er að sjálfsögðu fullkunnugt um það að dómurum er óhægt um vik þegar kemur að þátttöku í opinberri umræðu. Á hinn bóginn blasir við að þegar svo fáir kalla eftir því að staða Íslands á vettvangi EES sé gaumgæfilega íhuguð m.t.t. þess hvað telja megi viðunandi hagsmunagæslu, þá þurfa menn að hlýða samvisku sinni og gæta að þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart landi og þjóð um vernd og viðhald réttarkerfisins. Þegar svo er komið að þung straumiða ESB reglna er farin að grafa undan stoðum lýðveldisins og þeim stjórnskipulegu undirstöðum sem störf embættisdómara grundvallast á, þá kemst ég ekki undan því að velja hvort ég ætla þegjandi að taka þátt í innleiðingu nýs stjórnarfars sem á sér ekki stjórnskipulega stoð, eða mæla varnaðarorð og kalla eftir því að þingmenn, embættismenn og allur almenningur vakni til vitundar um alvöru þess sem hér er að gerast. Sem dómari hef ég unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. Á þeim grundvelli – og innan þess ramma – tel ég raunar að ég hafi ekki aðeins rétt, sem borgari þessa lands, til að tjá mig um sýn mína á stöðu mála, heldur beina skyldu. Dómsvaldi fylgir rík ábyrgð sem birtist ekki síst í þátttöku dómara í umræðu um málefni sem varða heill réttarkerfisins, réttarríkisins, lýðræðis, valdtemprunar o.fl.

Vatnaskil nálgast

Í ljósi þróunar EES réttar hérlendis sl. áratugi tel ég að við Íslendingar nálgumst nú mögulega nokkurs konar lagaleg vatnaskil, þar sem lýðræðislegir þættir víkja fyrir valdboði, þar sem miðstýring kemur í stað nálægðarreglunnar, þar sem ógagnsætt regluverk leysir af hólmi þekktar innlendar réttarvenjur, hefðir og dómstólamótuð viðmið, og þar sem erlendar valdastofnanir seilast ótilhlýðilega til valda yfir æðstu stofnunum íslenska lýðveldisins. Öllum hugsandi mönnum má ljóst vera að hér er alvörumál á ferðinni. Hver sem þetta les má með sama hætti undrast að hér sé ekki iðkuð dagleg umræða um stöðu íslensks lýðræðis, um völd Alþingis, um framsal íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, um varnir íslensks almennings gagnvart ákvörðunum sem teknar eru í fjarlægum borgum og eiga sér enga skírskotun hér, um íþyngjandi kröfur og samhliða kostnað sem íslensk fyrirtæki þurfa að bera vegna eftirlitskostnaðar o.fl.

Það eru engar fréttir að dómurum beri almennt að stíga varlega til jarðar í tjáningu sinni á opinberum vettvangi. Þetta sem annað þarf þó að skoða kreddulaust og í réttu samhengi. Rétt og skylt er að færa umræðu um framangreind mál út úr fámennum hópi lögfræðinga, háskólamanna og annarra borgara. Umræðuna ber að færa til almennings sem óhjákvæmilega ber hitann og þungann af afleiðingum þessarar þróunar. Það hefur mátt nema af umfjölluninni að þeir sem ríkasta ábyrgð bera í þessu tilliti eru tregastir til að ræða um þróunina og neita jafnvel að horfast í augu við þá vá sem hér stendur fyrir dyrum íslensks réttar. Myndbirting þessarar tregðu hefur birst í því að fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn og lögfræðingar hafa mælst til þagnar eða ofurvarkárni þar sem dómarar eiga í hlut. Mikilvægi málefnisins er þó slíkt grundvallaratriði að það útheimtir heiðarlega umræðu og ígrundun á opnum vettvangi frekar en þögn.

Samantekt

Frelsisbarátta Bandaríkjamanna á 18. öld markaði ákveðinn vendipunkt í lýðræðissögunni, þegar þeir höfnuðu því að vera krafðir um skattgreiðslur án þess að hafa átt fulltrúa á breska þinginu sem ákvað þá skattlagningu. Telja núlifandi Íslendingar slíkt ekki gilda um sig með sama hætti? Er Íslendingum ekki enn umhugað um fullveldi sitt og sjálfstæði, um gildi þess að lögin eigi sér lýðræðislegar rætur, að löggjafinn svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum, að tjáningarfrelsið beri að verja í lengstu lög og að frjálslynt stjórnarfar sé ákjósanlegra en sú stjórnlynda útgáfa sem nú ryður sér til rúms á Vesturlöndum? Enn og aftur hvet ég til árvekni og vöku yfir þessum málum öllum, sem og vandaðrar og ígrundaðrar umræðu allra sem vilja vinna að heill og farsæld Íslands.

Höfundur er héraðsdómari.