Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Áframhald af greininni

Ísland og Sjálfstæðisflokkurinn

Gísli Ragnarsson skrifar í Mbl

Sjálfstæði smáþjóðar er ekki sjálfsagt. Það þarf stöðugt að vera
á verði og gæta þess að ekkert sé gert sem stuðlar að valdaafsali.

Gísli Ragnarsson

Ljóðið hennar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind), Hver á sér fegra föðurland, er okkur Íslendingum kært. Hver á sér fegra föðurland, með fjöll og dal og bláan sand, með norðurljósa bjarmaband og björk og lind í hlíð? Með friðsæl býli, ljós og ljóð, svo langt frá heimsins vígaslóð. Geym, drottinn, okkar dýra land er duna jarðarstríð. Hver á sér meðal þjóða þjóð, er þekkir hvorki sverð né blóð en lifir sæl við ást og óð og auð, sem friðsæld gaf? Við heita brunna, hreinan blæ og hátign jökla, bláan sæ, hún uni grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf. Ó, Ísland, fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð. Hver dagur líti dáð á ný, hver draumur rætist verkum í, svo verði Íslands ástkær byggð ei öðrum þjóðum háð. Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð. Okkur sem erum fædd um miðja síðustu öld var kennt að elska Ísland og vinna því allt til heilla. Sjálfstæðishugsjónin í ljóði Huldu: „Svo aldrei framar Íslands byggð sé öðrum þjóðum háð“ var og er grundvallarhugsjón okkar. Í kosningum 1956 fylgdi ég ömmu og afa á kjörstað í Miðbæjarskólanum. Ég var stoppaður af við innganginn af lögreglumanni sem brosandi bað mig um að setja fálkann, merki Sjálfstæðisflokksins, aftan við kragann svo hann sæist ekki meðan ég væri inni á kjörstaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 42,4% atkvæða í þessum kosningum og var Ragnhildur Helgadóttir yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri, 26 ára. Það var eitthvað svo sjálfsagt í mínum augum að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Hans helsta stefnumál var að Íslands byggð yrði aldrei öðrum þjóðum háð. Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn að fá rúm 20% í kosningum. Í borgarstjórnarakosningunum 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60,4% atkvæða. Hvað veldur? Ég er viss um að sjálfstæðishugsjónin er flestum Íslendingum hugleikin. Að Íslands ástkær byggð verði ei öðrum þjóðum háð. Háværar raddir eru því miður uppi sem dásama erlend áhrif á Íslandi. Fólk sem vill að Ísland verði öðrum þjóðum háð. Þetta er ekkert nýtt. Það hafa alltaf verið til menn á Íslandi sem sjá tækifæri í að færa vald úr landi. Fyrst til Noregs, Danmerkur og nú til Brussel. Því miður er áróðri þeirra ekki svarað af nægilegri sannfæringu. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki andmælt slíkum áróðri á nægilega sannfærandi hátt.

Áframhald af greininni

AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”

Áframhald af greininni

Málefni útlendinga sett í biðflokk

Jón Gunnarsson Dómsmálaráðherra

Ákveðið hefur verið að fresta frek­ari umræðu um útlend­inga­mála­frum­varp Jóns Gunn­ars­sonar dóms­mála­ráð­herra til haust­þings, en dóms­mála­ráð­herr­ann hefur sagt að hann hafi ákveðið að fresta frum­varp­inu til þess að liðka fyrir samn­ingum um þing­lok.  Þrír stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ar, Sam­fylk­ing­in, Við­reisn og Flokkur fólks­ins, fram ítar­legar breyt­ing­ar­til­lögur við frum­varp ráð­herra eftir að ráð­herra óskaði eftir því að fá efn­is­legar athuga­semdir sem liðkað gætu fyrir samn­ingum um frum­varp­ið, en sam­kvæmt frétt RÚV kom ráð­herr­ann með til­lögur á móti sem þing­flokk­arnir þrír sættu sig ekki við.

Þetta frumvarp snýr meðal annars að flutningi þjónustu milli ráðuneyta. Breytingarnar munu greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis og færa reglur nær þeim sem í gildi eru á Norðurlöndunum. Samstaða hefur verið um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og var vonast til að það yrði að lögum nú í vor. En reyndin var önnur.

Málið snýst nú um ólöglega hælisleitendur sem höfðu áður fengið hæli í öðrum Evrópulöndum en neituðu að framfylgja sóttvarnarlögum á Íslandi, svo ekki möguleiki á að flytja þá úr landi á þeim tíma. Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns.. 

Nýlega kom fram, að hælisleitendur sem Íslendingar hafa veitt hæli eru nú um 25 á hverja 10.000 íbúa landsins. Næsta þjóð er Svíþjóð með 7,6 á hverja 10.000 íbúa og síðan Danmörk og Noregur með í kringum 3 á hverja 10.000 íbúa. Finnland var ekki talið með enda er sennilega stuðulinn hjá þeim í kringum 0.

Það er að öllum líkindum orðið útbreidd vitneskja í Afríku og Mið-Austurlöndum að það skuli vera til þjóð norður í dumbshafi sem tekur á móti öllu fólki og ber það á höndum sér. Fólk fái húsnæði, laun og það besta væri að það þyrfti aldrei að vinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru um 400 milljónir manna sem eru lagðir af stað eða íhuga að gerast hælisleitendur. Hvert geta Íslendingar farið þegar búið er að fylla landið af hælisleitendum og ríkissjóður komin á svipaðan stað og sá í Venezúela? Það eru nægar flugsamgöngur til að moka 20.000 flóttamönnum á dag til landsins. Eftir 100 daga væru komnar 2 milljónir sem allir fengu fæði og húsnæði á kostnað ríkisins. Og ef það er ekki nóg eru 200 milljónir í viðbót þarna úti sem gjarnan mundu vilja fá það líka. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt mikla vinnu í þetta frumvarp um útlendingamál með það fyrir augum að flýta fyrir afgreiðslu umsókna, gera umsóknarferilinn skilvirkari og réttlátari. Hingað til hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt frumvarpinu stuðning og gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu frumvarpsins og greiða fyrir þinglokum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa þétt að baki dómsmálaráðherra í þessu mikilvæga máli og löngu tímabæru breytingum til hins betra.

Ísland á nú í stríði við Rússland

Loftur skrifar:

ESB herinn að störfum

Ísland á nú í stríði við Rússland. Ekki sem frjálst og fullvalda lýðræðisríki, heldur sem taglhnýtingur Evrópusambandsins (ESB). Ísland er ekki aðili að ESB og þá vaknar sú spurning hvernig gat þetta gerst?

ESB er viðskiptabandalag nokkurra Evrópuríkja.
ESB er ekki hernaðarbandalag, og ekki heldur varnarbandalag. Samt sem áður á ESB nú í stríði við Rússland. ESB er óvinur Rússlands og Ísland er nú orðinn óvinur Rússlands vegna ESB.    

Ísland er hluti af NATO, sem er varnarbandalag vestrænna ríkja og sem ekki á í stríði við Rússland. Hvers vegna á þá Ísland í stríði við Rússland þegar engin ógn steðjar að Íslandi?

Hvað ef Rússland vinnur stríðið?

Er ekki eitthvað bogið við þessa utanríkisstefnu Íslands?

Orkulaus náttúruvernd

Jónas Elíasson skrifar (visir.is)

Varaaflsskortur

Jónas Elíasson prófessor

Nú er orkuskortur í landinu og verður viðvarandi næstu 4 – 5 árin að líkum lætur. Kerfið er eins og sjómenn kalla það „á tampi“, varla má bila vél án þess að skerða þurfi orkuafhendingu. Þetta kemur orkufyrirtækjunum ekkert illa. Þeim gefst tækifæri til að loka á þá sem eru á lægstu töxtunum og hækka þannig meðalverðið í sölunni. Þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og slæmt fyrir loftslagið, því jarðefnaeldsneyti kemur í stað hinnar hreinu íslensku orku. Nú þurfa loðnubræðslur að brenna 20.000 tonnum af olíu af því að þær fá ekki rafmagn.

Stjórnvöld hafa í gegn um tíðina þurft að beita töluverðum þrýstingi á orkufyrirtækin til að fá þau til að virkja, jafnvel ríkisfyrirtækið Landsvirkjun dregur lappirnar þegar kemur að því að byrja á næstu virkjun, tólf ár eru síðan byrjað var á síðustu virkjun hefur sá tími ekki orðið jafn langur áður. Einangrað orkukerfi eins og Ísland þarf varafl, en það er uppurið eftir þessi tólf ár. Þetta hefur ríkisstjórnin látið gott heita, nú er frekar treyst á ferðamenn en orkuiðnað til að halda uppi þjóðarbúskapnum, og ekki má gleyma því að gróði orkufyrirtækja er mestur meðan ekkert er byggt. Hinir síblönku félagar, ríkiskassinn og Reykjavíkurborg, hefur lapið upp arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sínum þó þá muni ekkert um þetta lítilræði, án tillits til þess að í orkuskorti tapar þjóðarbúið 10 – 20 földu því verðmæti sem orkan kostar.

Pólitísk uppgjöf fyrir þrýstihópum

Þetta ástand má kalla „de facto“ pólitíska uppgjöf fyrir samtökum í umhverfis og náttúruverndargeira sem búin eru að vera suðandi um skaðsemi allra framkvæmda sem skerða ósnerta náttúru, að þeirra eigin óskeikula mati. Þeir ímynda sér að náttúran eigi um aldur og ævi að vera eins og hún var daginn sem þeir fermdust. Gallinn er auðvitað sá að þeir fermdust ekki allir sama daginn og hvernig á náttúran þá að vera ?

Lestu meira

Að kosningum loknum


Undirstöður lýðveldisins verða að vera traustar til að stöðugleiki haldist.

Arnar Þór Jónsson

Niðurstaða kosninganna er að þjóðin vill stöðugleika.

Prófkjör sjálfstæðismanna í Kraganum sl. vor fól einnig í sér skilaboð um stöðugleika, þar sem fjórir sitjandi þingmenn voru valdir til áframhaldandi setu í þeim sætum, en ég kjörinn í 5. sætið. Mikill stuðningur við minn málflutning dugði ekki til að fleyta mér inn á Alþingi. Persóna mín skiptir þó engu máli hér. Í stóra samhenginu skiptir öllu að þingmenn ræði af heilindum um áhrifaleysi Íslands innan EES, um skæðadrífu erlendra lagareglna sem Alþingi hvorki breytir né afnemur að eigin frumkvæði, um skort á lýðræðislegu aðhaldi o.fl. Til eru þeir, jafnvel í hópi lögfræðinga, sem ekki vilja að athygli sé beint að þeirri staðreynd að lög Íslendinga eru nú að stórum hluta samin af fulltrúum annarra þjóða og gefin út í nafni yfirþjóðlegra stofnana. Framangreint réttarástand er ósjálfbært, ótryggt, ögrun við lýðræðið og opnar möguleika á misbeitingu valds.

Um þetta er skylt að ræða.

Skilyrðislaust bann verður ekki lagt við því að embættismenn taki þátt í slíkri umræðu, enda hljóta þeir að mega vera trúir samvisku sinni og sannfæringu. Hér sem annars staðar ber að árétta að ásýndin má ekki bera inntakið ofurliði og að kerfið er ekki mikilvægara en fólkið sem það á að þjóna.

Ég bauð fram krafta mína til að leiða upplýsta umræðu um þessi mál á Alþingi og til að vara við því að við framseljum valdið úr landi, enda sýnir sagan að slíkt getur haft neikvæð áhrif á hagsæld Íslands til lengri tíma. Vonandi taka nýkjörnir þingmenn þetta hlutverk að sér. Þar má einna helst binda vonir við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, enda var sá flokkur stofnaður m.a. í þeim tilgangi að stuðla að sjálfstæði þjóðarinnar. Brýnt er þó að aðrir víkist ekki undan ábyrgð í þessum efnum. Að því sögðu óska ég öllum þingmönnum góðs gengis, landi og þjóð til heilla.

Höfundur er lýðræðis- og lýðveldissinni.

Í landi tækifæranna

Hreinræktað vinstra afkvæmi er ekki í burðarliðnum

Úr leiðara Mbl 27. september 2021

En svo kom „hrunið“. Þá töldu langþjáðir vinstrimenn að þeir væru loks komnir í „land tækifæranna“. Tækifærin þau yrði að nýta út í æsar. Blásið var til árása á Alþingishúsið og Seðlabankann og fleiri hús illskunnar og eins á heimili útvalinna í þjóðfélaginu. Ríkisútvarpið tók fullan þátt í þessu nýja réttlæti, og hefur aldrei efast, svo að séð verði. Toppur tilverunnar náðist svo þegar hér var mynduð „fyrsta hreina vinstristjórnin“ sem hækkaði skatta oftar en 100 sinnum á sínum ferli.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði aldrei verið fjær því að stjórna landinu en þá. En skemmst er frá því að segja, að engir tveir stjórnarflokkar fengu aðra eins útreið, eftir aðeins eitt kjörtímabil og þessir hreinræktuðu og var reyndar bætt um betur í kosningunum þar á eftir. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan.

Í aðdraganda kosninga nú tilkynnti Samfylkingin að hún myndi ekki ljá máls á því að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Það hafði ekki minni áhrif, en ef Guðmundur og Glúmur hefðu gefið sambærilega yfirlýsingu. Samfylkingin hefur aðeins einu sinni orðið stór, eins og vonir stóðu til. Það var vorið 2003 eftir að flokkurinn hafði gefið út baráttuyfirlýsingar með tilvonandi útrásarvíkingum og þaðan af meiri svindlurum um óskráð samstarf þessara velunnara smáfólksins í landinu og flokksins. En hvernig urðu úrslitin nú? Samfylkingin náði, eftir að hafa setið í stjórnarandstöðu um hríð og komist í fylgi niður undir 10% og nú síðast, eftir 4 ár til viðbótar í stjórnarandstöðu, að tapa rúmlega 2,2% til viðbótar. Þó voru hún og Viðreisn ein um að gefa ESB fögur fyrirheit um að draga þjóðina sem fyrst inn í það ólukkulega samband.

Systurflokkarnir tveir sem einokuðu þetta mikla baráttumál fyrir fullveldisskerðingu þjóðarinnar og náðu um 18% fylgi samanlagt! Vissulega sýndu mælingar nokkru fyrir kosningar að nálin væri tekin að halla sér nokkuð til vinstri. En þá greip Gunnar Smári inn í og lýsti áformum þeirra Leníns heitins um betri tíð, bæði í grafhýsi þess síðarnefnda og hér heima. Þau gengu að vísu ekki út á að farga milljarða tugum úr búi yfirboðara Gunnars Smára (og í framhaldi skattgreiðenda) eins og þegar hann var sem stórtækastur síðast. Enda breyttur maður nú á ferð, efldur af fé blásnauðra verkamanna, í gallabuxum og með götóttan trefil, kominn úr einkaþotunni yfir í ryðgaðan strætó sem SVR var hætt að nota. Hann gaf nægilega mikið upp um framtíðina, eins og til að mynda það að dæmdi Hæstiréttur framtíðarinnar gjörðir hans ólögmætar myndi hann ryðja réttinn, eins og núverandi formaður Eflingar reyndi bæði að gera við þingið og dómstólinn sem tók mál hennar fyrir. Það var í sama mund þegar þessi þrumuský Smárans drundu í eyrum almennings sem nálin, sem mældi viðhorf fólksins, tók að færast á vit heilbrigðrar skynsemi á ný.”

Um úrslit kosninganna

Júnas Elíasson prófessor skrifar:

Kosningaúrslitinn bera keim að því baráttan snýst ekki um stefnumál borin fram af flokksmönnum heldur auglýsingastríð milli ráðandi forystusveita. Þetta hefur komið mismunandi út:

Jónas Elíasson

Sjálfstæðisflokkurinn fær þokkalega kosningu, en hann náði ekki að hrífa kjósendur með sér og kemst áfram á góðri frammistöðu. Hann er eins og kartafla, allt það besta er að neðanjarðar.

Framsókn sigraði auglýsingastríðið. Svo eru þau með einn góðan mann.

VG er með forsætisráðherra sem tókst að sannfæra þjóðina um ágæti sitt, alla nema eigin flokksmenn. Það besta sem hún gerir er að koma sér út úr þessum flokki með þá hugsandi flokksmenn sem þar eru og komast í annað samstarf. 

Viðreisn er greinilega komin á endapunkt. Evrunuddið dugar ekki lengur.

Píratar töpuðu, en ekki því sem þeir áttu skilið eftir frammistöðuna í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.

Miðflokkurinn er að skila sér heim. Lífið er erfitt hjá þeim, framsóknarmennskan er í blóðinu, hún erfist. 

Jónas Elíasson, research professor
University of Iceland,  Kyoto University, Kyoto