Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Viðvaranir lögfræðilegra ráðunauta

Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar sögðu í álitsgerð sinni erlendri stofnun falið a.m.k. óbeint ákvörðunarvald um skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Þeir sögðu að hér ræddi um meira valdframsal af hálfu Íslendinga en dæmi væru um í 25 ára sögu EES-samningsins. Þeir líktu þeirri ákvörðun sem fyrir lá við að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á Íslandsmiðum. Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar vöruðu við hættu á samningsbrota- og skaðabótamáli sem gæti risið ef aðili sem legði sæstreng að landinu fengi synjun Orkustofnunar við beiðni um tengingu við íslenskt raforkukerfi. Staða Íslands yrði ekki vænleg í slíku máli.

Efni umdeildra reglugerða

Umdeildasta reglugerðin í þriðja orkupakkanum (nr. 713/ 2009), sem lögð var fyrir Alþingi, kvað á um stofnun orkustofnunar Evrópu, ACER, sem hefði vald sem gæti að dómi lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar falið í sér a.m.k. óbein áhrif á skipulag, nýtingu og ráðstöfun verðmætra íslenskra orkuauðlinda. Önnur reglugerð sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar gerðu fyrirvara við er um raforkuviðskipti yfir landamæri (nr. 714/2009).

Brottfallnar reglugerðir

Svo bar við að báðar þessar reglugerðir voru felldar brott af hálfu ESB með nýjum reglugerðum sem er að finna í fjórða orkupakkanum. Þegar ríkisstjórnin aflaði samþykkis Alþingis 2. september 2019 fyrir að taka í íslensk lög Evrópureglugerðir nr. 713 og 714 frá 2009 hafði hin fyrri eins og sjá má í lagasafni ESB misst gildi sitt tveimur mánuðum áður frá og með 4. júlí 2019. Löglærðir sérfræðingar verða að skýra réttaráhrif og lögfylgjur þessa. Hin síðari féll brott í lok árs 2019.

Lögleiðing brottfallinnar reglugerðar

Eftir standa áleitnar spurningar. Vissi ríkisstjórnin ekki af því að nýjar reglugerðir kváðu á um brottfall hinna umdeildu reglugerða þriðja orkupakkans og að sú nr. 713 um evrópska orkustofnun og valdheimildir hennar var þá þegar fallin úr gildi? Óvarlegt sýnist að gera ráð fyrir að ekki hafi í ráðuneytum legið fyrir vitneskja um þetta atriði. Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi um brottfall reglugerðanna og gildistöku nýrra áður en lagt var fyrir löggjafarþingið að samþykkja í atkvæðagreiðslu 2. september 2019 að veita þegar brottfallinni Evrópureglugerð nr. 713 lagagildi á Íslandi?

Lögleiðing brottfallins orkupakka

Enda þótt oftlega hafi verið óskað upplýsinga um væntanlegan fjórða orkupakka í umræðum um þriðja orkupakkann upplýsti ríkisstjórnin ekki Alþingi nema í almennum atriðum um fjórða pakkann. Hvaða skýringar eru á því að ríkisstjórnin upplýsti ekki Alþingi fyrir afgreiðslu þriðja orkupakkans um að fjórði orkupakkinn lægi þá þegar fyrir, hefði hlotið samþykki æðstu stofnana Evrópusambandsins og hefði þá þegar a.m.k. að umtalsverðu leyti leyst þann þriðja af hólmi? Áleitnar spurningar um orkupakka Ólafur Ísleifsson Ólafur Ísleifsson » Aflað var samþykkis Alþingis fyrir að leiða í íslensk lög brottfallna reglugerð Evrópusambandsins og að nokkru leyti brottfallinn orkupakka.

Höfundur er hagfræðingur og fv. alþingismaður. olafurisl@outlook.com