Evrópukratismi

Jónas Elíasson skrifar:

Jónas Elíasson

ESB er afsprengi evrópukratismans. Hann er undarlegt fyrirbrigði, ættaður frá Robert Schuman, sem var mjög þekktur ráðherra í nokkrum þekktum ríkisstjórnum Frakklands 1940 – 1953. Hann fékk þá hugljómun um 1940 að Evrópa skyldi halda frið með því að sameinast um að setja þungaiðnaðinn undir yfirþjóðlega stjórn innan sameiginlegra ytri tollamúra. Eftir heimstyrjöldina voru menn opnari fyrir þessum boðskap og Schuman kom því til leiðar að og Kola- og stálbandalagið var stofnar 1951. Það varð svo að EBE, síðan EB og síðast ESB.

Schuman var reyndar ekki krati í okkar skilningi, hans flokkur var Kristilegir Demókratar. En bæði þeir og sósíaldemókratar tóku boðskapnum fagnandi svo í dag er Evrópubandalagið trúaratriði hjá sósíaldemókrötum allrar Evrópu. Þangað vilja þeir fara og þar vilja þeir bera beinin. Þetta er evrópukratismi.

Í dag vilja evrópukratar að markmiðið sé Bandaríki Evrópu í stíl við USA. Það er ríkjabandalag um sameiginleg mál 50 ríkja sem eru sjálfstæð að öðru leyti. Þetta er allt önnur stjórn en Evrópukommissionin í Brussel, sem er yfirþjóðlegt embættismannavald. Hún heimtar að jafnvel við, smáþjóð lengst norður í Atlantshafi, samþykki reglur um raforkumarkað sem hún er ekki einu sinni tengd við, auk þess sem okkar efnahagskerfi er gerólíkt hinni iðnvæddu Evrópu. Kvaðir um yfirþjóðlegt vald samræmast ekki  stjórnarskrá Bandaríkjanna, forseti þeirra yrði ekki langlífur í embætti ef hann reyndi að skipta sér af innríkismálum einstakra ríkja.  Evrópuríkin eru smám saman að láta sér skiljast að yfirþjóðlegt embættismannavald samræmist ekki stjórnarskrá sjálfstæðra ríkis. Sandurinn er því að renna úr tímaglasi evrópukrata.

Það veldur stöðugum vandræðum í Brussel að yfirþjóðleg stjórn er oft í andstöðu við stjórnarskrár aðildarríkjanna sem allar gera ráð fyrir óskertum sjálfsákvörðunarrétti. Þetta blessast því varnarmálin eru komin undir Nató, og tollamál eru ekki í stjórnarskrám ríkjanna. Athafnafrelsi er það hins vegar. Á því sviði er æ erfiðara um vik fyrir Brussel að koma sínum yfirþjóðlegu markaðsstýringum að. Schuman gerði upphaflega ráð fyrir að bara þungaiðnaðurinn væri miðstýrður, en í dag stýra embættismenn ESB í Brussel að allri iðnaðarframleiðslu og öllum markaðsaðgangi eins og þeir komast upp með. Þarna eru mjög hæpnar tæknilegar viðskipta hindranir óspart notaðar. Margir þekkja CE merkinguna og vandræðin sem af henni stafa, en þar að auki er ýmis vitleysa eins og ákveða að ýmis Bandarískt matvara sé hættuleg og megi ekki selja í Evrópu. Það er þetta sem Bretar eru að flýja, með Brexit. Hætt er við að fleiri fari þá leið.

ESB sinnar á Íslandi eru á algerum villigötum með stuðningi sínum við ESB aðild. ESB er í dag 70 ára gamall draugur, sprottinn upp úr ógnum heimstyrjaldarinnar 1938 – 1945. Öll upphafleg markmið um frið og forystu í heimsmálum eru löngu horfin úr augsýn ESB. Yfirþjóðlegt embættismannavald og einokun innan ytri tollamúra er það sem eftir er. Ísland á ekkert erindi þangað inn, bara út,  og það verða íslenskir ESB – sinnar að láta sér skiljast.