Ferskur vorblær í stjórnmálunum

Bjarni Jónsson skrifar :

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori.  Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna. 

Bjarni Jónsson

Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi.  Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki.  Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs. 

Frost, lávarður, sem leiddi samninganefnd Bretlands í útgönguviðræðunum við ESB, sagði nýlega, að nú væri Bretum brýnast að einfalda opinbert regluverk fyrir  atvinnulífið, sem að megninu til er komið frá Brüssel (ESB), og jafnhliða ættu embættismenn brezku stjórnsýslunnar að venja sig af að hugsa eins og embættismenn ESB. Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir EFTA-þjóðirnar í EES, sem taka gagnrýnilítið við löggjöf Evrópusambandsins á vettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES nefndinni, þar sem ESB á líka fulltrúa, en þar er ákveðið, hvað innleiða skal.  

Þetta átti t.d. við um OP3, þótt hlutverk hans sé aðallega að fá stjórnun orkuflutninga (rafmagns, olíu og gass) á milli EES-landanna í hendur Orkustofnun Evrópusambandsins – ACER og framkvæmdastjórn ESB. Spyrja má, hvort einhver rökrétt ástæða hafi verið til að innleiða nánast allan OP3 á Íslandi í ljósi þess, að engar slíkar lagnir liggja til Íslands, og stjórnvöld hafa opinberlega engin áform um að samþykkja slíkar tengingar við Ísland. 

Þegar svona er í pottinn búið, er eðlilegt, að margir fyllist tortryggni um, að fiskur liggi undir steini.  Hins vegar setti Alþingi m.a. það skilyrði við lögleiðingu OP3 að áskilja samþykkt Alþingis fyrir tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þótt áhöld séu um, hvort þetta afbrigði við innleiðingu ESB löggjafar sé í samræmi við EES-samninginn og haldi fyrir EFTA-dómstólinum, er ákvæðið þó góðra gjalda vert og óbeinn afrakstur andófs “Orkunnar okkar” o.fl. við OP3. 

Arnar Þór Jónsson (AÞJ) hefur einmitt fjallað um útþynningu lýðræðisins við innleiðingu löggjafar ESB, sem Alþingismenn hafa nánast engin áhrif á, þegar hún er mótuð, enda er hún á engan hátt sniðin við  íslenzkar aðstæður. Það er andstætt lýðræðislegri hugsun, að löggjöf sé tekin hrá upp erlendis frá og lögleidd hér á færibandi.  Með þessu má segja, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun og löggjafarvaldið fært í hendur erlendra embættismanna. Þetta fyrirkomulag grefur undan þingræðinu.

Bretar vildu ekki taka upp þetta kerfi eftir útgönguna, þ.e. ganga í EES, heldur stefna þeir á að gera víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  Spurningin er fyrir EFTA þjóðirnar, hvort ekki fari að verða tímabært að óska viðræðna við framkvæmdastjórn ESB um endurskoðun EES-samningsins. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og skipulega, því að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi. 

Eftir Stórþingskosningar í haust er líklegt, að í Noregi verði þingmeirihluti fyrir ríkisstjórn, sem setur a.m.k. alvöru valkostagreiningu í þessum efnum á dagskrá sína, enda er óánægja með núverandi framkvæmd EES-samningsins að magnast í Noregi, ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar, sem þykir áunnin réttindi sinna félagsmanna fyrir borð borin við innleiðingu ýmissa gerða ESB. Ef norska alþýðusambandið verður afhuga EES-aðild Noregs, mun norski Verkamannaflokkurinn í kjölfarið söðla um til samræmis.  

AÞJ hefur ritað bækur um hugðarefni sín, t.d. “Lög og samfélag”, sem gefin var út árið 2016 af Háskólanum í Reykjavík og Háskólaútgáfunni.  Þá hefur hann ritað greinar í tímarit, t.d. Þjóðmál, og í Morgunblaðið.  Ein slík birtist þar 3. apríl 2021 undir fyrirsögninni:

      “Útgangspunktar og forsendur til íhugunar”.

Hún gefur í stuttu máli allgóða mynd af hugmyndafræði og boðskap þessa frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum að þessu sinni.  Það er mat höfundar þessa vefseturs, að gagnrýnin og rökföst hugsun AÞJ geti orðið Sjálfstæðisflokkinum til heilla og bætt vinnubrögð þingflokks sjálfstæðismanna án þess, að kastað sé rýrð á núverandi þingflokk.  Hér verða tíundaðir 6 fyrstu punktar AÞJ:

  1. “Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds.  Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags.”  Íslendingar munu varla nokkurn tímann samþykkja að gangast undir CAP-sameiginlega landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB af þessum ástæðum, því að samkvæmt Hvítbók Framkvæmdastjórnarinnar um þessi mál er ætlunin að bjóða fiskimiðin innan lögsögu ESB-landanna upp, og geta þá útgerðir ESB-landanna boðið í fiskveiðikvótana.  Útgerðir ESB-landanna eru margar hverjar stærri en þær stærstu íslenzku, svo að íslenzku útgerðirnar mundu áreiðanlega missa vænan spón úr aski sínum.  Þessi uppboðsstefna er einmitt sú, sem ESB-flokkarnir, Viðreisn og Samfylking, boða hérlendis.  Það var lán, að sjávarútvegsmál voru undanskilin valdsviði EES-samningsins.  Það voru orkumálin hins vegar ekki, og þess vegna krafðist ESA-Eftirlitsstofnun EFTA þess í byrjun síðasta áratugar, að vatnsréttindi ríkisins, aðallega Landsvirkjunar, yrðu leigð út á markaðskjörum á Evrópska efnahagssvæðinu.  Stjórnarráðið framdi þau hrapallegu mistök árið 2016 að fallast á allar röksemdir ESA og kröfugerð.  Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar kröfugerð ESA 2019, var henni hafnað samstundis.  Ekki er ljóst, hvort samþykktarbréf íslenzku ríkisstjórnarinnar frá 2016 hefur verið dregið til baka.  Af þessu sést, að þörf er fullrar aðgæzlu í viðskiptunum við ESB og ESA.
  2. “Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun.  Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð.”  Það kom í ljós árið 2016, að botninn var þá suður í Borgarfirði hjá ráðherrum og utanríkisráðuneyti, þegar að sjálfstæðum einstaklingum og sjálfstæðri hugsun kom.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að AHJ leggur áherzlu á þetta til að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar. 
  3. “Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því, sem við á, og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.”  Íslandi tókst vel upp á sviði hafréttarmála og leiddi þróun alþjóðaréttar að mörgu leyti á því sviði.  Landvörnum landsins er vel fyrir komið með herverndarsamningi við Bandaríkin og aðild landsins að NATO. Landið er með fjölmarga fríverzlunarsamninga við lönd um allan heim og stendur frammi fyrir gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Bretlands.  Fjölþætt samband landsins við meginland Evrópu fer fram samkvæmt samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, frá 1993, sem gildi tók 01.01.1994.  Sá samningur er einstakur að því leyti, að stöðugur straumur nýrrar löggjafar streymir frá ESB til lögleiðingar í EFTA-löndunum í EES, án þess að íslenzkir þingmenn komi þar að nokkru leyti að stefnumörkun.  Til Alþingis berst löggjöf til innleiðingar í íslenzka lagasafnið, sem ekki er hægt að réttlæta sem aðlögun að Innri markaði ESB, eins og t.d. lagabálkar um orkumál.  Þegar ofan á bætist valdframsal til stofnana ESB, hlýtur slíkur málatilbúnaður að valda deilum í landinu, enda jafnvel Stjórnarskrárbrot. Það er þess vegna æskilegt að leita af varfærni endurskoðunar á EES-samninginum, a.m.k. ef samstaða næst um það með Norðmönnum eftir haustkosningarnar í ár. 
  4. ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera “sérstaks eðlis” (sui generis).  Reynslan hefur sýnt, að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif.”  ESB er yfirþjóðlegt ríkjasamband, sem Frakkar og Þjóðverjar ráða nú lögum og lofum í.  Forkólfar þessara þjóða stefna leynt og ljóst að því að endurvekja ríki Karlamagnúsar með stofnun sambandsríkis, en alþýða manna í þessum ríkjum eða annars staðar er ekki hrifin. Áður fyrr höfðu aðildarþjóðirnar neitunarvald í flestum málum, en þeim málaflokkum fækkar óðum, og atkvæðagreiðslur með vegnum atkvæðastyrk eftir íbúafjölda ryðja sér til rúms.  Það væri algert óráð fyrir Íslendinga að færa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna til framkvæmdastjórnar ESB.
  5. Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenzka lýðveldisins.”    Það er mikilvægt að gefa þessum orðum gaum.  Íslenzka utanríkisráðuneytið virðist stundum verða fyrir þrýstingi frá því norska vegna málefna, sem norsku ríkisstjórninni er í mun að fái framgang á vettvangi EFTA í EES.  Nýjast af þessum toga er sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES, sem er í skjalasafni norska stjórnarráðsins, en hefur ekki fengizt birt, um, að EFTA-ríkin fallist á einnar stoðar meðferð Járnbrautarpakka 4, sem þýðir, að járnbrautarmálum Noregs og Liechtenstein verður stjórnað frá ERA, ESB-stofnun fyrir járnbrautir, en ekki með milligöngu ESA.  Þá eru nokkur dæmi um inngrip ESA í íslenzk málefni, sem varða þjóðarhagsmuni, eins og krafa ESA um markaðssetningu vatnsréttinda í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja.  Þetta mundi þýða uppboð vatnsréttinda innan EES.  Hið alvarlega í þessu máli er, að íslenzka ríkisstjórnin féllst á þetta 2016, en þegar norsku ríkisstjórninni barst sams konar krafa frá ESA nokkrum árum síðar, var henni einfaldlega hafnað, og batt núverandi ríkisstjórn þá sitt trúss á þann sama hest.  Nú er eftir að sjá, hvort ESA muni kæra Ísland og Noreg til EFTA-dómstólsins fyrir samningsbrot. Kann það að ráðast af dómi ESB-dómstólsins í svipuðu máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB. Þetta sýnir, hversu bráðnauðsynlegt er að vinna að hugarfarsbreytingu hérlendis á meðal stjórnmála- og embættismanna, þegar kemur að spurningum um fullveldi landsins.   
  6. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi, sem þeim hefur verið falið; ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum, sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.”  Það er einkenni á vinnubrögðum ESB að draga völd úr höndum stjórnmálamanna aðildarlandanna og færa þau í hendur embættismanna Sambandsins.  Þetta smitar óhjákvæmilega yfir á EFTA-ríkin í EES.  Nægir að nefna sem dæmi Orkustjórann (“The National Energy Regulator”), en hérlendis var Orkumálastjóra falið að fara með þessi völd, sem eru umtalsverð samkvæmt Orkupakka 3 og aukast enn með Orkupakka 4, ef hann verður innleiddur hér, en nauðsynlegt er að rýna þörfina á því gaumgæfilega. Nýjasta dæmið er líklega fyrirkomulag stjórnar sóttvarna hérlendis.  Þegar tillögur Sóttvarnalæknis fela í sér meiriháttar inngrip í daglegt líf fólks og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja, þá er augljóst, að líta verður til fleiri átta en sóttvarnanna einna við ákvarðanatöku.  Sóttvarnaráð hefur verið sniðgengið, en með nýrri sóttvarnalöggjöf ætti að endurskipuleggja það með þátttakendum, sem veita því breiða skírskotun í þjóðfélaginu, og það geri tillögur til ráðherra í sóttvarnaskyni.