Fjaðrirnar tíndar af íslensku þjóðþingi

Úr Reykjavíkurbréfi Mbl 12. september 2021

Alþingi Íslendinga

Þrátt fyrir ríka þörf á að hafa bannhelgi yfir fjölmörgum málum hér og erlendis kemur fyrir að menn hristi af sér þöggunarfjötrana og það jafnvel hinir ótrúlegustu menn. Fjölmargir flokkar bjóða fram hér og margt hefur bent til þess að óvenjumargir muni ná mönnum á þing. Lengi hefur dunið á þinginu gagnrýni um að sífellt verði óljósara út á hvað starfsemin þar gangi. Og það er von að þróunin sé í þessa átt, því að Brusselvaldið gengur sífellt lengra í því að líta á heimaþingin sem skrifstofur frekar en þing, og þar séu aðsendir pakkar frá Brussel færðir til bókar.

Hér er tilhneigingin sú að mál frá Brussel fái lagagildi, með skammri skírn, og sífellt lélegri eða engri yfirferð. Færri raunverulegar umræður fara fram og aðeins málamyndayfirferð í þingnefnd. Enda hví skyldu menn fara yfir mál, sem þeir hafa ekkert með að gera hvort að séu samþykkt eða ekki.

Umræðan um orkupakkann var ömurlegt dæmi þessa. Utanríkisráðuneytið gerði uppkast að skýrslu til sjálfs sín þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sjálfur lykilþáttur í því að Alþingi gæti samþykkt EES-samninginn, ótvíræður réttur þess að velja eða hafna sendingum fá Brussel, hefði með einhverjum dularfullum hætti gufað upp! Auðvitað hefur slík skýrsla enga þýðingu aðra en niðurlægingu allra sem að komu og breytir engu öðru en að gefa utanríkisráðherranum tækifæri til að flissa eins og væri hann Kamala Harris og láta undirtyllum ráðuneytið eftir. Þær forherðast í þjónkun sinni við búrókrata í Brussel, og leyna því hvergi að þangað sækja þær lokafyrirmæli sín.

Við sjáum það í þeirri litlu kosningabaráttu, sem þó er, að systurflokkarnir Samfylking og Viðreisn hafa ekkert fram að færa annað en þekkta auðmýkt og undirgefni gagnvart Evrópusambandinu. Ekkert annað er lagt á borð kjósendanna. Og það gerist eftir að Bretar hafa horfið úr sambandinu og allar hrakspár um hrun viðskipta þeirra hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Það gerist eftir hrakför ESB í bólusetningarmálum sem var öll með miklum ólíkindum.