Tryggjum öldruðum mannsæmandi lífskjör í samræmi við nútímann
og frelsi til að bæta hag sinn.
Ingibjörg H. Sverrisdóttir skrifar í Mbl
Ég býð mig fram til 4. sætis á framboðslista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer 4. og 5. júní. Þetta geri ég af knýjandi nauðsyn. Mér finnst eins og svo mörgum öðrum að núverandi ríkisstjórn og Alþingi hafi hvorki skilning á aðstæðum eldra fólks né vilja til að bæta þær. Stór hópur eldra fólks í þessu landi er látinn búa við kröpp kjör. Það er sama hvaða gögnum er framvísað og rökum beitt til að benda á óréttlætið, öllum óskum um leiðréttingu hefur verið hafnað. Núverandi kjörtímabili er að ljúka og þrátt fyrir fjölmarga bænarfundi og fundarsetur undanfarin fjögur ár er tímabilinu að ljúka án þess að fráfarandi ríkisstjórn sýni nokkurn vilja til að rétta hlut þess hóps aldraðra sem verst er settur.
Aldraðir í efnahagslegri spennitreyju
Eldra fólk er fjölmennur hópur í samfélaginu. Í upphafi árs 2021 voru tæplega 47 þúsund manns 67 ára og eldri og um 75 þúsund voru 60 ára og eldri. Það búa ekki allir við sömu kjör. Sumir, sérstaklega þeir sem áður voru tekjuháir, hafa það alveg ágætt og þurfa ekki að kvarta. Þorri aldraðra býr hins vegar við kröpp kjör og miklar skerðingar og er verulega ósáttur við sitt hlutskipti. Þetta fólk hefur hörðum höndum skapað þau lífskjör í landinu sem við nú búum við.
Nú þegar þetta fólk er orðið aldrað og hefur minna vinnuþrek bregður hins vegar svo við að stjórnarherrarnir, sem vel að merkja hafa margföld laun og miklu betra lífeyriskerfi, vilja sem minnst af þessu fólki vita. Ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins sem við öll höfum greitt til og greiðum enn, er skertur stórkostlega bæði með tilliti til lífeyristekna hins aldraða og atvinnutekna sem þeir kunna að geta aflað sér. Ríkiskrumlan er svo stórtæk að þessu leyti að það tekur með skerðingum á ellilífeyri frá Tryggingastofnun og tekjuskatti frá 65,87% til 83,85% af þessum tekjum hins aldraða. Þannig er stór hluti aldraðra hnepptur í einhvers konar spennitreyju þar sem þeir nánast verða að sætta sig við það sem að þeim er rétt og geta ekki bætt stöðu sína með neinu móti. Afleiðingin er sú að flestir aldraðir eiga mjög erfitt með að bæta efnahagsstöðu sína jafnvel þótt frískir séu og geti fengið launaða atvinnu.
Grunnsjónarmið Sjálfstæðisflokksins
Þessi meðferð á öldruðum er auðvitað andstæð öllum þeim grunnsjónarmiðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir frá stofnun sinni. Grunnhugsjón hans er að fólk eigi að hafa frelsi til að uppskera eins og það sáir. Þeim sem vilja bæta sinn hag með atvinnu og hjálpa þannig samfélaginu í heild á að taka fagnandi en ekki refsa með skerðingu á greiðslum frá almannatryggingum. En það er ekki bara með skerðingu tryggingargreiðslna til aldraðra sem hið opinbera fer illa með þá. Það rekur þá einnig úr vinnu ekki síðar en um sjötugt óháð því hvort þeir hafa þrek og vilja til að vinna lengur. Þetta skerðir auðvitað enn frelsi og e.t.v. mannréttindi aldraðra og herðir að þeim sultarólina. Til viðbótar dregur þetta úr þjóðarframleiðslu, lækkar skatttekjur hins opinbera, eykur útgjöld almannatrygginga og fjárþörf lífeyriskerfisins. Þessi skipan sem enginn ráðherra hefur séð ástæðu til að hrófla við er auðvitað glapræði eins og allir sjá sem ekki eru blindaðir af valdaglýju. Það að gera ásættanlegar lagabreytingar fyrir eldri borgara þessa lands og þar með efla þjóðarbúið og almannahag virðist ekki vera á dagskrá þeirra. Af þessari ástæðu þarf að fá nýja fulltrúa þjóðarinnar á þing. Verði ég kjörin mun ég beita mér fyrir því að aldraðir fái lífsskilyrði sín leiðrétt, geti lifað sómasamlegu lífi og fái tækifæri til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins öllum landsmönnum til heilla.
Höfundur er eldri borgari og formaður FEB.