Fyrst Brexit…svo Swexit?

Tengsl Sviss og ESB hafa trosnað

Úr leiðara Mbl 31. maí 2021

Sviss hefur óvenjulega stöðu í heiminum og hefur með ýmsu móti tekist að halda sér hlutlausu og friðsælu – og allvel vopnuðu – á meðan nágrannaþjóðirnar hafa borist á banaspjót. Sviss hefur þess vegna verið talið ákjósanlegur vettvangur margvíslegrar alþjóðlegrar samvinnu og samskipta. Nýleg tilkynning um fund Bidens og Pútíns í Sviss ber þessu vitni. Þessi staða Sviss og saga landsins á eflaust sinn þátt í að skýra óvenjulega stöðu þess gagnvart Evrópusambandinu. Staðan er ekki síst óvenjuleg þegar haft er í huga að Sviss er umlukið ríkjum Evrópusambandsins, fyrir utan að vísu stutt landamæri við EFTA-ríkið Liechtenstein, en það ágæta furstadæmi er mjög háð Sviss svo að þau landamæri eru ekki að öllu leyti greinileg. Líkt og Liechtenstein, Noregur og Íslands er Sviss í EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, en ólíkt hinum ríkjunum þremur hafnaði Sviss því á sínum tíma, árið 1992, að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Mjótt var á munum en það dugði til og varð einnig til þess að umsókn um aðild að ESB, sem ríkisstjórn Sviss hafði áður lagt inn, fór ofan í skúffu í Brussel. Þar lá hún lengi vel, eða allt þar til ákveðið var árið 2016 að draga hana til baka. Sú ákvörðun Sviss að draga umsóknina til baka eftir að hún hafði legið afskiptalaus í skúffu í nær aldarfjórðung sýnir vitaskuld að slík umsókn hefur þýðingu, líka sú sem liggur í skúffu. Af þessu mættu íslenskir stjórnmálamenn draga lærdóm. En það er fleira forvitnilegt í samskiptum Sviss og Evrópusambandsins.

Þegar umsóknin var formlega dregin til baka hafði landið um nokkurra ára skeið átt í viðræðum við sambandið um fyrirkomulag samskiptanna, en þau byggðust á, og byggjast á, 120 tvíhliða samningum sem segja má að komi í stað aðildarinnar að EES. Sviss er í raun aðili að innri markaði ESB í gegnum þessa samninga, en eðli þeirra er annað en EES-samningsins, þó að þeir hafi, að minnsta kosti hingað til, reynst sambærilegir í raun. Samningarnir breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerst hefur til dæmis hér á landi, en þar skiptir einnig máli að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins. Evrópusambandið hafði gert kröfu um að breyta fyrirkomulaginu í samskiptunum við Sviss, slá þessum 120 samningum saman í einn og láta löggjöfina í Sviss þróast með meiri sjálfvirkni í takt við ákvarðanir í Brussel. Til að ná þessu fram beitti ESB töluverðum þrýstingi og hefur til að mynda hótað því að samningarnir 120 muni einn af öðrum úreldast og falla úr gildi og þar með að Sviss detti smám saman út af innri markaðnum. Ýmsum Svisslendingum varð líka nóg um þegar þeim þótti ESB nota kórónuveirufaraldurinn til að senda þeim skilaboð í stað þess að tryggja hnökralausa samvinnu gegn þeim vágesti.

Eftir margra ára viðræður um þessi mál ákvað Sviss í liðinni viku að slíta frekari viðræðum um breytt fyrirkomulag samninga sinna við ESB og taldi sambandið ganga of langt í kröfum sínum um íhlutun í svissnesk málefni. Einn þeirra sem hafa tjáð sig um þessa ákvörðun er Svisslendingurinn Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTAdómstólsins og Íslendingum að góðu kunnur úr Icesave-málinu. Hann ræddi það mál lítillega en einkum þó nýjustu ákvörðun Svisslendinga í hlaðvarpsspjalli við vefinn Brussels Report, sem og í grein á sama miðli. Baudenbacher segir að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um hvernig fór en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en að vanmetið hafi verið hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu en ekki stjórnmálalegan samruna. Þegar fólk hafi fundið að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti.

Carl Baudenbacher

Baudenbacher telur að Sviss og ESB eigi að reyna að semja um nýja leið samstarfs þessara aðila, en segir óvíst að það sé mögulegt eftir það sem á undan er gengið. Þá geti Sviss staðið frammi fyrir sama kosti og Bretland, kosti sem hann kallar Swexit. Hann segir að þetta væru engin endalok fyrir Sviss, en að þetta yrðu ekki góðar fréttir fyrir samheldni innan Evrópusambandsins. Fleiri hafa bent á, til að mynda Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt til dæmis Bandaríkjunum sem eigi farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada. Hann bendir á að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra. Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér. Nú er svo sem langur vegur frá því að Sviss sé búið að slíta öll tengsl við ESB en þau eru byrjuð að trosna. Vera má að hægt verði að lappa upp á þau, enda þrýstingur mikill beggja vegna borðsins. Hvernig sem fer er þróun samskipta Sviss og ESB nokkuð sem Íslendingar hljóta að horfa til