Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *