Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu

Marta Guðjónsdóttir skrifar í Mbl

„Borgaryfirvöld vita að þau eru víða að framkvæma þéttingaráform sem borgarbúar myndu hafna“

Marta Guðjónsdóttir

Á miðvikudaginn var ákváðu borgaryfirvöld að falla frá þeim skipulagsáformum í Bústaða- og Fossvogshverfi að láta reisa þar sautján, nýjar íbúðablokkir meðfram sunnanverðum Bústaðaveginum. Þetta undanhald borgaryfirvalda kom eins og sólskinsblettur í heiði og því full ástæða til að óska íbúum til hamingju með þennan varnarsigur. Þess má geta að margir þessara íbúa eru orðnir langþreyttir á því að börn þeirra þurfi að sækja grunnskóla og leikskóla í önnur hverfi vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi Fossvogsskóla og leikskólans Kvistaborgar. Þessir íbúar áttu því ekki von á að borgaryfirvöld bættu gráu ofan á svart með því að kynna þeim fyrirhugaða innrás þéttingaröfga í hverfi þeirra með fyrrnefndum skipulagsáformum.

Mótmæli íbúanna

Þéttingaráformin vöktu hörð viðbrögð og mikil mótmæli, sem m.a. komu fram á fjölmennum íbúafundi í Réttarholtsskóla hinn 8. desember sl. Þar bentu íbúarnir borgarstjóra góðfúslega á að þessar öfgar myndu þrengja mjög að byggðinni sem fyrir er, stuðla að óheyrilegu umferðar og umhverfisraski á framkvæmdatímanum, byrgja fyrir útsýni, lengja skugga og fækka sólarstundum, útrýma gróðri og grænum svæðum meðfram Bústaðavegi, fækka bílastæðum nýrra og eldri íbúa, auka slysahættu við Bústaðaveg, fjölga íbúum án þess að bæta þjónustustig íbúanna, draga úr verðgildi eldri fasteigna og verða auk þess í ósamræmi við yfirbragð og sérkenni hinnar eldri byggðar. Öllu átti til að kosta til að ná fram slagorði borgarstjórans um þéttingu byggðar!

Kosningaskjálfti

Borgaryfirvöldum var brugðið við þessi hörðu mótmæli í svo fjölmennum borgarhluta, svona rétt fyrir kosningar, og létu því framkvæma Gallupkönnun á viðhorfi íbúanna. Niðurstaða hennar var sú að mikill meirihluti þeirra sem afstöðu tóku var andvígur fyrirhugaðri þéttingu við Bústaðaveg og við gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar. Borgaryfirvöld sáu sér því ekki annað fært en að brjóta blað í samskiptum sínum við borgarbúa, taka tillit til mótmælanna og draga þéttingaráformin til baka meðfram Bústaðavegi þó þau þráist enn við á gatnamótum Háaleitisbrautar og Miklubrautar.

Önnur ófriðarbál

Um leið og því er fagnað að óbilgjörn borgaryfirvöld láti loks undan harðri andstöðu og skýrum skilaboðum almennings þegar vegið er mjög gróflega að nánasta umhverfi fólks, hljóta samt að vakna eftirfarandi spurningar: Hvers vegna eru áformin um þéttingu við gatnamót Háaleitis- og Miklubrautar ekki einnig dregin til baka, en þar er einnig meirihlutinn mótfallinn þéttingunni? Hversu aukinn þarf meirihluti íbúa að vera svo borgaryfirvöld taki tillit til hans? Taka borgaryfirvöld einungis tillit til borgarbúa þegar minna en hálft ár er til borgarstjórnarkosninga? Hvað um öll hin ófriðarbálin sem borgaryfirvöld hafa kveikt um alla borg vegna öfgafullra þéttingaráforma, s.s. eins og á reit Stýrimannaskólans, Veðurstofuhæð og samþykktu skipulagi sem gerir ráð fyrir að fimmfalda íbúafjölda Skerjafjarðar, án breytinga á umferðaraðkomu? Hvers vegna hefur ekki verið hlustað á íbúa þessara svæða, né þeir fengið skoðanakönnun? Svar við síðustu spurningunni er hins vegar einfalt: Borgaryfirvöld vita að þau eru víða að framkvæma þéttingaráform sem borgarbúar myndu hafna, rétt eins og við Bústaðaveginn.

Faglegt skipulag eða slagorðastefna

Hvers vegna skyldi skipulagsstefna borgaryfirvalda hafa kveikt ófriðarbál um alla borg? Fyrir því eru hugmyndafræðilegar ástæður: Fagleg skipulagsvinna felst í mati á mörgum og ólíkum umhverfisþáttum og skipulagsfræði snúast um rannsóknir á samverkandi áhrifum þessara þátta á mannlífið og umhverfið. Skipulag þarf því að vinna á breiðum grunni, með opnum huga og margvíslegum tölfræðilegum upplýsingum. Einhliða, pólitískar slagorðastefnur stuðla hins vegar að þröngsýni og einhæfni, draga úr yfirveguðu mati og skilningi á því hvernig þróun eins þáttar hefur áhrif á annan. Þegar slagorð fara að móta samfélög og umhverfi snúast þau oft upp í andhverfu sína eins og þau hafa nú þegar gert með skipulags- og samgöngustefnu borgaryfirvalda. Slagorð draga einnig úr umburðarlyndi og hafna oftast lýðræðislegri samvinnu. Ákvörðun borgaryfirvalda sl. miðvikudag er þó spor í rétta átt og batnandi mönnum er best að lifa. En þessi sömu yfirvöld hafa ekki tekið sönsum fyrr en þau átta sig á því að skipulag er fyrir íbúana sjálfa, ekki yfirvöld. Skipulag er alls staðar og alltaf fyrir íbúana, ekki einungis korter fyrir kosningar, og viðbrögð íbúanna við þéttingaröfgunum við Bústaðaveg eru skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *