Alþingi hefur brugðizt þjóðinni í þrjátíu ár
Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:
Silfur RÚV fyrir tveimur vikum með formönnum þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi var tíðindalaust framan af en vaknaði til lífsins þegar skæruliðadeild Samherja kom til umræðu. Þá var hægt að sjá fyrir sér hvert yrði mesta deilumál kosninganna. Það mat breyttist svo snögglega þegar fréttir bárust af því að fyrirtækið hefði beðist afsökunar á framgöngu skæruliðanna. Eftir þá afsökunarbeiðni getur málið tæpast orðið hitamál í kosningum. Ef það hins vegar gerðist að héraðssaksóknari birti niðurstöður á rannsókn sinni á málum Samherja fyrir kosningar gæti málið komist á dagskrá aftur. Ef það gerðist er líklegt að það yrði erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einfaldlega vegna þess að það er sterk tilhneiging til að gera hann ábyrgan fyrir hugsanlegum misgjörðum atvinnulífsins. Annað mál sem er að koma upp um þessar mundir er samstarf Dana og Bandaríkjanna um njósnir um bandalagsþjóðir og leiðtoga þeirra. Það er heldur ólíklegt að þær njósnir hafi náð til Íslands og íslenzkra stjórnmálamanna. Til hvers? Þeir skipta nákvæmlega engu máli í hinni stóru mynd. Öðru máli gegnir um kalda stríðið. Þá þótti okkur öllum sjálfsagt mín megin í því að finna út með öllum ráðum hvað kommarnir væru að gera, eins og við kölluðum andstæðinga okkar í kalda stríðinu Fyrir nokkrum árum fékk eiginkona mín, sem nú er látin, bréf frá opinberum aðilum þess efnis að síminn á heimili foreldra hennar hefði verið hleraður. Faðir hennar, Finnbogi Rútur Valdimarsson, sem var þingmaður fyrir Sósíalistaflokkinn og síðar Alþýðubandalagið, þóttist reyndar vita það. Þeir töluðu töluvert saman í síma, hann og Ólafur Thors, og þegar klikk heyrðist í símanum sagði Ólafur: jæja nú eru þeir byrjaðir að hlera. Meira leyndarmál var þetta nú ekki þeirra í milli.
Æskuvinur minn, Ragnar Arnalds, fékk líka bréf þess efnis að heimasími hans hefði verið hleraður, en hann barðist hart gegn veru bandaríska varnarliðsins á Íslandi. Þá var ástæða til að fylgjast með kommunum. Nú er engin ástæða til að fylgjast með íslenzkum stjórnmálamönnum. Komi það hins vegar í ljós að það hafi verið gert mun það valda uppnámi í kosningabaráttunni hér. Enn eitt mál, sem getur valdið usla á næstu mánuðum, eru atvinnumálin og þá sérstaklega ungs fólks. Engar kynslóðir ungs fólks hafa lent í slíkum hremmingum og núverandi kynslóðir á þeim aldri sennilega frá því fyrir stríð. Og ef því unga fólki finnst stjórnarflokkarnir ekki standa sig nægilega vel í því að bæta þeirra stöðu getur orðið meiri háttar uppnám meðal ungra kjósenda. Það eru því margir óvissuþættir í kosningabaráttunni. Til viðbótar kemur svo að vísbendingar eru um að þreyta sé komin í stjórnarsamstarfið. Þegar reynt er að spyrjast fyrir um hvað valdi er skýringin sú að viðmót ráðherra Sjálfstæðisflokksins sé að þeir ráði. Nú má vel vera að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins átti sig ekki á að viðmót þeirra megi skilja á þennan veg en auðvitað er þeim ljóst að í samstjórn tveggja eða þriggja flokka ræður enginn einn ferðinni. Þannig hefur það aldrei verið og þannig verður það aldrei.
Framsóknarflokkurinn hefur áratugum saman stundað að starfa ýmist til hægri eða vinstri. Þær vísbendingar sem voru nefndar hér áðan snúast um það að nú sé komið að því að þeir horfi til vinstri. Hins vegar eru engar vísbendingar um að þeir vilji kaupa það því verði að taka upp stuðning við aðild að ESB. Myndun vinstristjórnarinnar sumarið 1956 var vandlega undirbúin og lykilatriði í því stjórnarsamstarfi var brottför varnarliðsins, sem ekki varð af. Allt eru þetta vangaveltur. Úrslit kosninganna ráða mestu um það hvað gerist. Enginn getur sagt til um það hvað kann að koma upp í kosningabaráttunni og breyta allri þessari mynd. En hið stóra undirliggjandi mál í okkar samfélagi er nýting auðlindarinnar í hafinu og hvernig þeim auði hefur verið ráðstafað með ákvörðunum stjórnmálamanna. Það mál er af þeirri stærðargráðu að fyrr eða síðar veldur það einhvers konar sprengingu.
Auðlindamálið er mál sem gæti leitt til gerbreytingar á flokkakerfinu eins og við þekkjum það. Fólkinu í landinu er löngu ofboðið. Líkurnar á því að einhver núverandi flokka taki á sig rögg og móti sér stefnu sem endurspegli vilja fólksins í landinu hafa ekki verið miklar. Það eru liðin rúmlega þrjátíu ár frá því að málið varð til með einni ákvörðun vinstristjórnar. Á þeim tíma hefur ekkert annað gerst í lýðræðisríki en að festa óbreytt kerfi í sessi. Það breyttist hins vegar í eldhúsdagsumræðum síðastliðið mánudagskvöld. Píratar töluðu þannig að þeir gætu náð til ungs fólks með þeim málflutningi. Svo er spurningin hvort hið beina lýðræði á að koma til sögunnar og að áhugamenn um þennan málaflokk taki höndum saman um að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stóra mál. Alþingi hefur ekki tekizt að ráða við það með fullnægjandi hætti á þremur áratugum og þá er eðlilegt að þjóðin sjálf taki af skarið. Það er að verða töluverð endurnýjun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem er gott. Hún gæti haldið áfram í Suðvesturkjördæmi í dag með framboði Arnars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, sem hefur vakið verulega athygli með skrifum sínum um þjóðmál. Það er ennþá endurnýjunarkraftur í þeim flokki.