Arnar Þór í forystusveit

Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti.

Eygló Egilsdóttir skrifar í Mbl

Eygló Egilsdóttir

Um komandi helgi mun sjálfstæðisfólk ganga til prófkjörs í Suðvesturkjördæmi og velja fólk í forsvar til alþingiskosninga. Þar býður sig fram í 2.-3. sæti Arnar Þór Jónsson. Það má segja að hann sé nýr á vettvangi stjórnmála, en þó kemur framboð hans þeim ekki alfarið á óvart sem þekkja til hans. Undanfarin misseri hefur Arnar látið til sín taka í pólitískri umræðu, svo eftir hefur verið tekið. En hann hefur skrifað greinar og komið fram opinberlega til að fjalla um mál er varða réttindi allra Íslendinga, mál sem eru allt í senn: stór, flókin og umdeild. Málefni eins og þriðja orkupakkann og frelsi og réttindi fólks. Afstaða hans og tilgangur eru skýr hverju sinni og byggjast á yfirvegaðri og yfirgripsmikilli lögfræðilegri þekkingu á viðfangsefnunum, ásamt djúpri sannfæringu um að gera rétt og þola ekki óréttlæti. Að mínu mati er það einmitt slíkt fólk sem þarf að velja til forystu nú. Fólk sem þorir að tjá sig umbúðalaust, fólk sem getur hlustað á mótrök og tekið heiðarlega afstöðu í erfiðum málum, þó sú afstaða sé ekki endilega vinsæl akkúrat í dag, en rétt til lengri tíma.

Árin í kjölfar heimsfaraldurs geta orðið okkur flókin og erfið. Við þurfum fólk sem er tilbúið að leiða okkur í gegnum góða, sem og erfiða tíma og hnika ekki af leið þó vindar blási. Líkt og við Arnar þekkjum, eins og allir sem eiga rætur til Vestmannaeyja, að þó að við fáum stundum vindinn í fangið, þá mun hann á endanum snúast. Það er bara það; að halda stefnu á meðan hann blæs. Ég treysti Arnari til þess, enda veit ég að hann er fullur af eldmóði að takast á hendur þessi málefni sem hann þekkir svo vel og hefur ástríðu til að sinna af heilindum. Prófkjör er vettvangur til að hafa áhrif á framtíðina með því að velja fólk til að vera í forystu stjórnmála næstu ára. Með sífellt aukinni kröfu um beint lýðræði og ákalli, sérstaklega unga fólksins, um að fá að hafa meiri áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu, er ekki hægt annað en hvetja til þátttöku í prófkjöri. Það er auðvelt að skrá sig og taka þátt, og það er ekki of seint. Ég vona að sjálfstæðisfólk í Suðvesturkjördæmi beri gæfu til að velja Arnar Þór í forystusveit flokksins nú. Ég mun gera það.

Höfundur er viðskiptafræðingur og sjálfstætt starfandi.
eygloegils@gmail.com