Íslensk ráðstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn verður að standa undir nafni, annars er ekki hægt að kjósa hann

Guðjón Smári Agnarsson skrifar í MBL:

Guðjón Smári Agnarsson

Það hefur verið vægast sagt undarlegt að fylgjast með aðgerðum flokksins sem ég byrjaði að kjósa rúmlega tvítugur og hélt því áfram fram að bankahruni með þeim undantekningum þó, að ég skilaði auðu þegar mér fannst líklegt að framsóknarmaðurinn í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna í Austurlandskjördæmi kæmist inn með mínu atkvæði. Ég er að tala um aðgerðir flokksins í kreppunni sem Kínaveiran Covid-19 hefur valdið, óhemjumikla skuldsetningu ríkissjóðs og ótrúlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fólks, umskipti á afstöðu flokksins gagnvart því að orkumál skuli vera utan við áhrifavald Evrópusambandsins en það var ein aðalforsenda þess að margir flokksmenn sættust á aðild að EES og loks það hvernig reyndum þingmönnum er haldið frá ráðherraembættum og þeim hreinlega ýtt út í horn og óreyndir þingmenn með ókunnar skoðanir eru hafnir til valda.


Ég tek afstöðu til flokka einkum eftir því hvernig þeir vilja halda í sjálfstæði þjóðarinnar og hvaða afstöðu þeir hafa til atvinnurekstrar lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Reyndar er það þannig að frá því að núverandi formaður tók við hef ég ekki getað kosið Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Það er geymt en ekki gleymt að hann hélt því fram í Fréttablaðinu fyrir u.þ.b. 15 árum að hann væri þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Þó að margt gott megi segja um manninn og þó að hann hafi ýmislegt gott gert í fjármálaráðuneytinu þá er það afar ótrúverðugt að flokkur hafi formann sem hefur öndverðar skoðanir við grundvallarstefnu flokksins. Ég hef skynjað orð hans um sjálfstæðismál þannig að hann hafi ekki skipt um skoðun á málinu – bara að það henti ekki að ganga inn um þessar mundir.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að standa undir nafni, annars er ekki hægt að kjósa hann.

Mér virðist að hann sé að breytast í krataflokk. Kannski heldur forysta flokksins að þeir nái inn krötunum sem gengu út og stofnuðu Viðreisn. Þá gleyma þeir fólkinu sem hefur kosið flokkinn vegna þess að hann hefur staðið vörð um sjálfstæði landsins. Ég hef reyndar haft það á tilfinningunni í mörg ár að forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra séu líka þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að ganga í ESB – bara ekki strax. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar við pöntun bóluefnis gegn Covid-19 styrkja þessar grunsemdir mínar, þar sem samþykkt var að ganga í eina sæng með ESB og ríkisstjórnin afsalaði þeim sjálfsagða rétti frjáls og fullvalda ríkis að geta keypt bóluefni eftir öðrum leiðum. Það var ekki við hæfi að Sjálfstæðisflokkurinn tæki þá afstöðu. Það var að mínu mati eðlilegt að fara varlega og taka fast á sóttvörnum þegar veira sem enginn vissi mikið um barst hingað fyrir rúmu ári. Það skilaði því að margir gátu átt nokkuð eðlileg samskipti síðastliðið sumar. Þegar önnur bylgja skall á í haust (ég er nógu góður í stærðfræði til þess að vita að þessi smit sem greindust í ágúst voru ekki bylgja – það eru miklar ýkjur; horfið bara á grafið á vefsíðunni um veiruna) var aftur gripið hart til varna en nú í vikunni þegar greinst höfðu þrjú smit utan sóttkvíar var gripið til harðari aðgerða en nokkru sinni.

Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í því að loka atvinnufyrirtækjum einn ganginn enn? Nú er þó búið að sprauta bóluefni í stærstan hluta þeirra sem eru viðkvæmir fyrir því að deyja af völdum veirunnar. Það geta auðvitað margir veikst en það er ekki hægt að loka þjóðfélaginu út af því; það er ekki gert vegna annarra sjúkdóma. Það er hamrað á því réttilega að landið geti aldrei orðið laust við veiruna en samt miðast aðgerðirnar að því að gera þjóðfélagið veirulaust. Svo finnst mér skrítið að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn hafi ekki kallað fleiri að borðinu við ákvarðanir um sóttvarnir en lögfræðinga ráðuneytisins og sóttvarnalækni, sem sjálfur bað um það í fyrra að ráðherra tæki ábyrgð á málinu. Rekstrarleg og hagfræðileg sjónarmið hafa verið algerlega út undan og það er ljóst að margar ákvarðanir um takmarkanir og innkaup bóluefna hafa sýnt hve lítið vit á rekstri ráðherra hefur. Ráðherra og ríkisstjórn hefðu átt að kalla til reyndan rekstrarráðgjafa eða „bisnessmann“ auk Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands varðandi áhrif aðgerða á hag fyrirtækja og þjóðarinnar. Þó að veiran komi frá Kína þurfa aðgerðir Íslendinga gegn veirunni ekki að vera í kommúnískum anda. Ríkisstjórnin hefði líka átt að gera þjóðinni miklu betri grein fyrir því hve mikið tjón það er fyrir þjóðarbúið að hafa mörg fyrirtæki lokuð eða nánast lokuð og fjölda fólks atvinnulausan mánuðum saman og hve skuldasöfnun ríkissjóðs vegna greiðslna til fyrirtækja í dái og fólks í einangrun og sóttkví er gríðarlega mikil.

Þegar ég fer á rakarastofuna skynja ég að fólk gerir sér enga grein fyrir vandanum. Ætli þessir nýju 19. aldar foringjar í ASÍ og verkalýðsfélögunum sem eru að verða verðbólgufélög á ný komi ekki aftur með ýktar kröfur og verkföll innan fárra missera? Þeir munu gera það ef fólk er ekki upplýst um raunverulega stöðu. Það sást í nýlegum kosningum í Verðbólgufélagi verslunarmanna.

Höfundur er viðskiptafræðingur á eftirlaunum.
gudjonsmari@outlook.com