Íslenska krónan er okkar bjargvættur á krepputímum

Úr leiðara Mbl 5. febrúar 2021:

Systurflokkarnir á Íslandi, Samfylking og Viðreisn, hafa fátt handbært til að veifa nú sem mæli með inngöngu Íslands í ESB, eins og álit og atburðarás hafa leikið sambandið síðustu ár. Það sem helst er reynt að hanga í er ímyndaður ávinningur af myntinni sem Íslendingar „fengju að taka upp“ álpuðust þeir inn. Þeirri sömu mynt sem tryggði að þau lönd sem í hana voru hnýtt voru mörgum árum lengur að jafna sig en Ísland eftir bankaslysið.

Hér á Íslandi ráða fyrrnefndir pólitískir tvíburar (innskot: Samfylking og Viðreisn) illa við umræðuna um myntina og forðast því raunverulega umfjöllun um hana. Þeir tyggja einungis að krónan sé „of lítil mynt“. Meginmálið er að myntin lesi stöðu síns þjóðfélags eins og krónan gerir og bregðist við. Viðbrögðin geta orðið skörp. En þau taka mið af beinhörðum þjóðarhagsmunum. Seðlabankinn horfir í sömu andrá til hagsmuna landsins. Dettur einhverjum í hug að Seðlabankinn í Frankfurt myndi gera það? Að sjálfsögðu ekki. Það væri heimskulegt af honum. Í því tilviki væri rétt að tala um að hagsmunirnir væru alltof, alltof litlir! Mestu skiptir að krónan er sinnar þjóðar mynt. Hún les það sem að henni snýr og lagar sig að því. Margir gerðu sitt til að draga íslenska þjóð að landi eftir bankafallið fyrir rúmum áratug. En enginn þó eins og krónan. Með þessu tali um smákrónuna mætti ætla að þar sem fjöldinn er mestur væri allt í mestum sóma.