Meðalvegurinn vandrataði

“Getur verið að réttarríkið og lýðræðið standi valtari fótum en við höfum leyft okkur að vona?”

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Eftir nokkra daga verður gengið til kosninga þar sem stjórnmálaflokkarnir leggja verk sín og framtíðaráætlanir í dóm kjósenda. Réttur okkar til að kjósa og til að gefa kost á okkur til starfa í þágu samfélagsins hvílir á grunni hugsjóna vestrænnar stjórnskipunar um réttarríki, lýðræði og frjálslyndi, auk sjálfsákvörðunarréttar manna og þjóða. Á tyllidögum er oft vísað til þessara orða, kannski án þess að við gefum inntaki þeirra nægilegan gaum.

Hugsjónin um réttarríki felur í sér að handhafar ríkisvalds séu bundnir af lögum, ekki síður en almennir borgarar. Allir séu jafnir fyrir lögunum og enginn yfir þau hafinn. Lýðræðið skapar ramma utan um stjórnmálin og gerir okkur kleift að velja fólk til forystustarfa. Með stjórnarskrá, mannréttindasáttmálum og almennum lögum er leitast við að verja frelsi og réttindi borgaranna.

Samandregið miðar þetta allt að einu marki, þ.e. jafnvægisstillingu og valddreifingu, þannig að komið sé í veg fyrir misbeitingu valds. Í þessu felst einnig að sjálfsákvörðunarrétturinn má engum skerðingum sæta nema að undangenginni vandaðri lýðræðislegri umræðu og lagasetningu sem stenst kröfur réttarríkisins um fyrirsjáanleika, tempraða valdbeitingu og mannréttindi borgaranna.

Þegar þetta er ritað höfum við um nokkurra missera skeið farið nærri varasömum mörkum annars konar stjórnarfars. Sú spurning er áleitin hvort kórónuveiran og viðbrögð við henni séu mögulega til marks um að réttarríkið og lýðræðið standi veikar en við höfðum áður talið. Ólýðræðislega valdir sérfræðingar hafa fengið hald á valdataumunum á forsendum neyðarréttar, með þeim afleiðingum að Alþingi hefur verið gert nánast óvirkt. Daglegu lífi landsmanna hefur verið stjórnað „í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis“ með reglum settum án almennrar umræðu, en ekki með lögum sem eru stöðug, fyrirsjáanleg, vandlega rædd og ígrunduð. Þetta þýðir að við höfum í reynd búið við nýja tegund stjórnarfars, sem helst má kenna við fámennisstjórn og tækniveldi.

Stjórnarskrá lýðveldisins heimilar ekki slíka umpólun og engar ytri aðstæður eru hér uppi sem heimila að slíkt ólýðræðislegt stjórnarfar sé innleitt umræðulaust eða andmælalaust. Stjórnvöld stóðu vissulega frammi fyrir mikilli óvissu á fyrri stigum kórónuveirufaraldursins, en vandséð er að slík óvissa eða hætta sé enn uppi að gera eigi sóttvarnaráðstafanir miðlægar við stjórn landsins. Af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur engin gagnrýni, ekkert viðnám verið veitt. Með vísan til alls framanritaðs ber að árétta fyrri ábendingar mínar um nauðsyn þess að ákvarðanir heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanir komi til umræðu og endurskoðunar hjá Alþingi við fyrsta tækifæri.

Mikilvægi þessa málefnis, þ.e. hvernig lýðræðislegir stjórnarhættir kalla á aðgæslu og aðkomu Alþingis, líka þegar óvæntar alvarlegar aðstæður skapast, er svo afgerandi að kraftmikil umræða verður að eiga sér stað, svo læra megi af hinni nýfengnu reynslu. Umræða sem varpar ljósi á viðfangsefnið, ristir djúpt og víkkar sjónarhornið, en þrengir það ekki. Hér þarf m.ö.o. að kalla eftir sjónarmiðum og gagnrýni úr sem flestum áttum í anda lýðræðis og hófstillts stjórnarfars. Þögn má ekki umlykja svo mikilvægt mál. Hvar eru nú stjórnspekingarnir í háskólunum? Hvers vegna heyrast ekki raddir fleiri lækna og heilbrigðisstarfsfólks? Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki veitt aðhald?

Hugsjónir vestrænnar stjórnskipunar um réttarríki, lýðræði og virðingu fyrir borgaralegu frelsi kunna að virðast fjarlægar og úr tengslum við daglegt líf. Þær gegna engu að síður mikilvægu hlutverki sem leiðarstjörnur fyrir stjórnmálin, lagasetninguna og þá mörkun stefnu í lykilmálum þjóðarinnar sem kjörnum fulltrúum fólksins, stjórnmálamönnum, er ætlað að annast. Við megum því ekki láta ótta byrgja okkur sýn, heldur láta okkur lærast að geta gert tvennt í senn: Ráða fram úr óvæntum vandamálum án þess að vega að lýðræðislegum stjórnarháttum. Jafnvel um hánótt getum við með heiðskírri sýn staðsett okkur og markað stefnu út frá stjörnuhimninum. Nái ég kjöri á Alþingi mun ég leitast við að vera einn slíkra vökumanna.

Höfundur skipar 5. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *