Arnar Þór Jónsson skrifar í Fréttablaðið
Blaða- og tímaritsgreinar sem ritaðar eru í góðri trú hljóta að hafa það að markmiði að sýna umfjöllunarefnið í nýju ljósi og vera þannig gagnlegt efnislegt framlag til málefnalegrar umræðu. Það eru því ávallt vonbrigði að rekast á greinar sem afvegaleiða, drepa málum á dreif og / eða varpa hulu yfir raunveruleikann fremur en að upplýsa og fjalla um staðreyndir.
Í Morgunblaðinu 10. júlí sýndi ég með rökum hversu klisjukenndur og villandi málflutningur þeirra er sem vilja gera inngöngu Íslands í ESB að aðalstefnumáli sínu fyrir þingkosningarnar næstkomandi haust.
Lagði ég áherslu á að umfjöllun um slík alvörumál yrði að taka mið af raunsæi (d. realpolitik) en ekki hugarburði eða ímyndunum á borð við þær sem því miður einkenndu Fréttablaðsgrein Þorsteins Pálssonar 8. júlí síðastliðinn.
Í nýrri grein Þorsteins 15. júlí er sami tónn sleginn strax í upphafi þegar hann segir að oft sé „árangursríkara í pólitík að hræða fólk frá stefnu andstæðinganna en að fá það með rökum til að aðhyllast eigin málstað.“
Svo er að sjá sem hann beiti í þessum tilgangi afbökunum, ýkjum og rangfærslum. Ég hvet alla til að lesa áðurnefnda Morgunblaðsgrein mína og bera saman rökfærslur okkar Þorsteins til að meta hvor okkar byggir á traustari grunni.
Það er illa komið fyrir fyrrverandi formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins þegar þau hafa gengið í lið með þeim sem vilja grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar með staðlausum stöfum og hræðsluáróðri; með þeim sem vilja að Íslendingar gefi frá sér til útlanda aftur stjórn eigin mála sem þeir svo lengi börðust fyrir að fá inn í landið.
Lesa meira