Arnar Þór Jónsson hrl. skrifar í Þjóðmál:

1. Formáli
Grein þessi er rituð af ærnu tilefni. Eftir liðlega aldarfjórðungslanga aðild að EES-samningnum standa Íslendingar frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir mega, í ljósi þess hvernig höndlað hefur verið með samninginn, í raun heita áhrifalausir um efni þeirra lagareglna sem sendar eru hingað í pósti og innleiddar í stórum stíl í íslenskan rétt, daglangt og árlangt.[1] Þetta áhrifaleysi stafar ekki af samningsákvæðunum sjálfum, því EES-samningurinn geymir í 103. gr. skýr ákvæði um rétt Íslands til að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu viðkomandi gerða í íslenskan rétt. Engu að síður hefur Ísland aldrei beitt þessu neitunarvaldi og þar með aldrei beint ágreiningsmálum í sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins. Þó liggur fyrir, sérstaklega eftir miklar umræður um hinn svonefnda þriðja orkupakka ESB árið 2019, að upp hafa komið mál sem gefið hafa fullt tilefni til þess að stjórnvöld sýndu pólitískt þrek til að verja samningsbundinn rétt Íslands í þessu tilliti. Það væri stjórnvöldum unnt á grundvelli skýrra samningsheimilda, þótt lokamarkmiðið væri ekki annað en að fara fram á undanþágur frá Evrópureglum sem ekki eru taldar eiga við hér á landi sökum sérstakra aðstæðna hér á landi.
Af atvikum eins og þau hafa þróast má ljóst vera að fullveldi Íslands er ógnað með þeirri einstefnu lagareglna sem EES-samningurinn hefur í framkvæmd haft í för með sér. Alþekkt er að stofnanir ESB rökstyðja forgang ESB-réttar með skírskotun til þess að samninga skuli halda (lat. Pacta sunt servanda).[2] Ekkert hefur komið fram um hvers vegna Íslendingar ættu ekki að njóta réttar samkvæmt þessari ævagömlu meginreglu samningaréttar. Sú staðreynd að smáþjóðin Ísland hafi aldrei tekið þann kost að láta reyna á samningsbundnar heimildir sínar til hagsmunagæslu er vart merki um „jafnræði“ svonefnds „Tveggja stoða kerfis“ EFTA og ESB í EES-samningnum.
Continue reading “Sjálfstæðisbaráttan nýja?”