Frelsi þjóðarinnar er okkur afar dýrmætt

Úr viðtali við Vigdísi Finnbogadóttur á RÚV:

Spyrill RÚV:

„Að lokum Vigdís. Þú ert fjórtán ára gömul þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 1944. Hverjar eru minningar þínar frá þeim degi?“

Vigdís Finnbogadóttir:

„Ákaflega bjartar.  Við vorum öll svo hreykin af þessu frelsi og þessu sjálfstæði sem að við innsigluðum á Þingvöllum þennan dag við fórum austur í Steindórsrútu sem var farartæki þeirra tíma og og við vorum öll sparibúinn eða minnsta kosti með sparifötin í töskunni en það var svo mikill vatnsgangur við komumst aldrei í þessi fínu föt okkar en sjálf lýðveldistakan á Lögbergi verður öllum ógleymanleg sem þar voru staddir. Og við megum aldrei, aldrei gleyma því hversu dýrmætt það er að eiga þetta frelsi; mega segja allt upphátt, hugsa allt og vera við sjálf með okkur sjálfum.“

Vigdís Finnbogadóttir f.v. forseti Íslands í útvarpsviðtali á Rás 1, RÚV 26. júní 2022

Hér má hlusta á allt viðtalið í þættinum Reykjavík bernsku minnar, sem er afar fróðlegt

Þjóðhátíð 2022

Kæru landsmenn.

Fjallkona Íslands

Á þjóðhátíðardaginn er vert að minnast þess sem við Íslendingar eigum sameiginlegt. Þjóðhátíðardagurinn er sameiginlegur hátíðisdagur. Hann gefur okkur mikilvægt tækifæri til að gleðjast og fagna. Á þessum degi komum við saman og gleðjumst hvert með öðru. Haldnar eru ræður, flutt ljóð, leikið, dansað og sungið. Fjallkonan er þar í lykilhlutverki. Fólk og félög leggja sitt af mörkum til gleðja og gera daginn eftirminnilegan. Í orði og verki gefum við hvert öðru hlut af hjarta okkar og tíma.

Fjallkonan er táknmynd Íslands, landsins sem fóstrar okkur, nærir og verndar. Fjallkonan táknar líka móður jörð, móðurástina sem öllum er lífsnauðsynleg. Ísland (Ísafold) er móðir okkar allra, griðastaður okkar, sem okkur ber virða, hlúa að og verja. Við erum þannig í reynd börn þessa lands. Það sem móðir þráir heitast er að börn hennar sýni hvert öðru virðingu og vináttu, þroskist og blómstri á fallegan hátt. Ágreiningur getur verið hluti af þroskaferli manns og þjóðar, en takmarkið er að við náum að búa í sátt og samlyndi, vinnum saman að sameiginlegum markmiðum og gildum.

Við getum notað þennan þjóðhátíðardag til að hugsa um þennan fagra þráð milli lands og þjóðar og hvað við sem einstaklingar, í okkar eigin mætti, getum gert til þess að bæta samfélagið á einhvern máta. Það gerum við með því að líta inn á við, finna styrkleika okkar, tengjast hjörtum annarra og spinna saman litríkan og traustan þjóðarþráð til framtíðar. Saman myndum við sterka heild og gott samfélag.

Gleðilega þjóðhátíð.

Málefni útlendinga sett í biðflokk

Jón Gunnarsson Dómsmálaráðherra

Ákveðið hefur verið að fresta frek­ari umræðu um útlend­inga­mála­frum­varp Jóns Gunn­ars­sonar dóms­mála­ráð­herra til haust­þings, en dóms­mála­ráð­herr­ann hefur sagt að hann hafi ákveðið að fresta frum­varp­inu til þess að liðka fyrir samn­ingum um þing­lok.  Þrír stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ar, Sam­fylk­ing­in, Við­reisn og Flokkur fólks­ins, fram ítar­legar breyt­ing­ar­til­lögur við frum­varp ráð­herra eftir að ráð­herra óskaði eftir því að fá efn­is­legar athuga­semdir sem liðkað gætu fyrir samn­ingum um frum­varp­ið, en sam­kvæmt frétt RÚV kom ráð­herr­ann með til­lögur á móti sem þing­flokk­arnir þrír sættu sig ekki við.

Þetta frumvarp snýr meðal annars að flutningi þjónustu milli ráðuneyta. Breytingarnar munu greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis og færa reglur nær þeim sem í gildi eru á Norðurlöndunum. Samstaða hefur verið um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og var vonast til að það yrði að lögum nú í vor. En reyndin var önnur.

Málið snýst nú um ólöglega hælisleitendur sem höfðu áður fengið hæli í öðrum Evrópulöndum en neituðu að framfylgja sóttvarnarlögum á Íslandi, svo ekki möguleiki á að flytja þá úr landi á þeim tíma. Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns.. 

Nýlega kom fram, að hælisleitendur sem Íslendingar hafa veitt hæli eru nú um 25 á hverja 10.000 íbúa landsins. Næsta þjóð er Svíþjóð með 7,6 á hverja 10.000 íbúa og síðan Danmörk og Noregur með í kringum 3 á hverja 10.000 íbúa. Finnland var ekki talið með enda er sennilega stuðulinn hjá þeim í kringum 0.

Það er að öllum líkindum orðið útbreidd vitneskja í Afríku og Mið-Austurlöndum að það skuli vera til þjóð norður í dumbshafi sem tekur á móti öllu fólki og ber það á höndum sér. Fólk fái húsnæði, laun og það besta væri að það þyrfti aldrei að vinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru um 400 milljónir manna sem eru lagðir af stað eða íhuga að gerast hælisleitendur. Hvert geta Íslendingar farið þegar búið er að fylla landið af hælisleitendum og ríkissjóður komin á svipaðan stað og sá í Venezúela? Það eru nægar flugsamgöngur til að moka 20.000 flóttamönnum á dag til landsins. Eftir 100 daga væru komnar 2 milljónir sem allir fengu fæði og húsnæði á kostnað ríkisins. Og ef það er ekki nóg eru 200 milljónir í viðbót þarna úti sem gjarnan mundu vilja fá það líka. 

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt mikla vinnu í þetta frumvarp um útlendingamál með það fyrir augum að flýta fyrir afgreiðslu umsókna, gera umsóknarferilinn skilvirkari og réttlátari. Hingað til hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt frumvarpinu stuðning og gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu til að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar m.a. til að flýta fyrir afgreiðslu frumvarpsins og greiða fyrir þinglokum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa þétt að baki dómsmálaráðherra í þessu mikilvæga máli og löngu tímabæru breytingum til hins betra.

ESB – áróður á RÚV

Einu sinni enn

Staksteinar MBL 0104022
(ekki aprílgabb!)

Útvarp allra landsmanna?

Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í
Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.

Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“

Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.

Fréttablaðið er úti á gangi

Loftur skrifar

Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?

Raforkuverð í Evrópu

Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.

Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB

Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.

Áhrif sæstrengs

Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.


ref.
Sérfræðiskýrsla samtakanna Orkunnar okkar um orkupakka ESB

Ísland á nú í stríði við Rússland

Loftur skrifar:

ESB herinn að störfum

Ísland á nú í stríði við Rússland. Ekki sem frjálst og fullvalda lýðræðisríki, heldur sem taglhnýtingur Evrópusambandsins (ESB). Ísland er ekki aðili að ESB og þá vaknar sú spurning hvernig gat þetta gerst?

ESB er viðskiptabandalag nokkurra Evrópuríkja.
ESB er ekki hernaðarbandalag, og ekki heldur varnarbandalag. Samt sem áður á ESB nú í stríði við Rússland. ESB er óvinur Rússlands og Ísland er nú orðinn óvinur Rússlands vegna ESB.    

Ísland er hluti af NATO, sem er varnarbandalag vestrænna ríkja og sem ekki á í stríði við Rússland. Hvers vegna á þá Ísland í stríði við Rússland þegar engin ógn steðjar að Íslandi?

Hvað ef Rússland vinnur stríðið?

Er ekki eitthvað bogið við þessa utanríkisstefnu Íslands?

Orkulaus náttúruvernd

Jónas Elíasson skrifar (visir.is)

Varaaflsskortur

Jónas Elíasson prófessor

Nú er orkuskortur í landinu og verður viðvarandi næstu 4 – 5 árin að líkum lætur. Kerfið er eins og sjómenn kalla það „á tampi“, varla má bila vél án þess að skerða þurfi orkuafhendingu. Þetta kemur orkufyrirtækjunum ekkert illa. Þeim gefst tækifæri til að loka á þá sem eru á lægstu töxtunum og hækka þannig meðalverðið í sölunni. Þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og slæmt fyrir loftslagið, því jarðefnaeldsneyti kemur í stað hinnar hreinu íslensku orku. Nú þurfa loðnubræðslur að brenna 20.000 tonnum af olíu af því að þær fá ekki rafmagn.

Stjórnvöld hafa í gegn um tíðina þurft að beita töluverðum þrýstingi á orkufyrirtækin til að fá þau til að virkja, jafnvel ríkisfyrirtækið Landsvirkjun dregur lappirnar þegar kemur að því að byrja á næstu virkjun, tólf ár eru síðan byrjað var á síðustu virkjun hefur sá tími ekki orðið jafn langur áður. Einangrað orkukerfi eins og Ísland þarf varafl, en það er uppurið eftir þessi tólf ár. Þetta hefur ríkisstjórnin látið gott heita, nú er frekar treyst á ferðamenn en orkuiðnað til að halda uppi þjóðarbúskapnum, og ekki má gleyma því að gróði orkufyrirtækja er mestur meðan ekkert er byggt. Hinir síblönku félagar, ríkiskassinn og Reykjavíkurborg, hefur lapið upp arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sínum þó þá muni ekkert um þetta lítilræði, án tillits til þess að í orkuskorti tapar þjóðarbúið 10 – 20 földu því verðmæti sem orkan kostar.

Pólitísk uppgjöf fyrir þrýstihópum

Þetta ástand má kalla „de facto“ pólitíska uppgjöf fyrir samtökum í umhverfis og náttúruverndargeira sem búin eru að vera suðandi um skaðsemi allra framkvæmda sem skerða ósnerta náttúru, að þeirra eigin óskeikula mati. Þeir ímynda sér að náttúran eigi um aldur og ævi að vera eins og hún var daginn sem þeir fermdust. Gallinn er auðvitað sá að þeir fermdust ekki allir sama daginn og hvernig á náttúran þá að vera ?

Lestu meira

Mogginn kýlir formann xD kaldan í Orkupakkamálinu

Forysta xD nýkjörin

Úr leiðara MBL 20. febrúar 2022:

Orkukreppa Evrópu – Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós

“Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið.
Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið.
Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði.”

Ekki er úr vegi að rifja upp ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 en landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af um tólfhundruð fulltrúum.

Í ályktun Atvinnuveganefndar segir orðrétt: “

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu

Marta Guðjónsdóttir skrifar í Mbl

„Borgaryfirvöld vita að þau eru víða að framkvæma þéttingaráform sem borgarbúar myndu hafna“

Marta Guðjónsdóttir

Á miðvikudaginn var ákváðu borgaryfirvöld að falla frá þeim skipulagsáformum í Bústaða- og Fossvogshverfi að láta reisa þar sautján, nýjar íbúðablokkir meðfram sunnanverðum Bústaðaveginum. Þetta undanhald borgaryfirvalda kom eins og sólskinsblettur í heiði og því full ástæða til að óska íbúum til hamingju með þennan varnarsigur. Þess má geta að margir þessara íbúa eru orðnir langþreyttir á því að börn þeirra þurfi að sækja grunnskóla og leikskóla í önnur hverfi vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi Fossvogsskóla og leikskólans Kvistaborgar. Þessir íbúar áttu því ekki von á að borgaryfirvöld bættu gráu ofan á svart með því að kynna þeim fyrirhugaða innrás þéttingaröfga í hverfi þeirra með fyrrnefndum skipulagsáformum.

Mótmæli íbúanna

Þéttingaráformin vöktu hörð viðbrögð og mikil mótmæli, sem m.a. komu fram á fjölmennum íbúafundi í Réttarholtsskóla hinn 8. desember sl. Þar bentu íbúarnir borgarstjóra góðfúslega á að þessar öfgar myndu þrengja mjög að byggðinni sem fyrir er, stuðla að óheyrilegu umferðar og umhverfisraski á framkvæmdatímanum, byrgja fyrir útsýni, lengja skugga og fækka sólarstundum, útrýma gróðri og grænum svæðum meðfram Bústaðavegi, fækka bílastæðum nýrra og eldri íbúa, auka slysahættu við Bústaðaveg, fjölga íbúum án þess að bæta þjónustustig íbúanna, draga úr verðgildi eldri fasteigna og verða auk þess í ósamræmi við yfirbragð og sérkenni hinnar eldri byggðar. Öllu átti til að kosta til að ná fram slagorði borgarstjórans um þéttingu byggðar!

Continue reading “Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu”

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna