Pólland sagt skrefi nær útgöngu úr ESB

RÓBERT JÓHANNSSONFréttastofa RÚV

Pólverjar virtust í gær taka stórt skref í áttina að því að segja sig úr Evrópusambandinu þegar stjórnlagadómstóll landsins úrskurðaði að nokkur lög ESB stangist á við pólsku stjórnarskrána. Í úrskurðinum segir að sumir sáttmálar ESB og dómar séu á skjön við æðstu lög Póllands. 

POLEXIT

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir Rene Repasi, prófessor í alþjóða- og Evrópulögum við Erasmus háskólann í Rotterdam, að þetta sé lagaleg bylting Pólverja. Þrátt fyrir að dómstóllinn sé umdeildur sé þetta stærsta skref sem nokkur ríkisdómstóll hefur tekið til að segja sig úr ESB. 

Lögmæti pólska stjórnlagadómstólsins er umdeilt eftir pólitísk afskipti við ráðningu dómara þangað. Stjórnarflokkur Laga og réttar, PiS, skipti um dómara í dómstólnum og réði þangað dómara hliðholla flokknum og stefnu hans. Stjórnvöld þvertaka þó fyrir það að hafa nokkur áhrif á úrskurði dómara. 

Eftir að Evrópusambandið gagnrýndi dómaraskiptin og sagði þau stangast á við reglur ESB taldi Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, nauðsynlegt að fá úr því skorið. Hann færði málið því til stjórnlagadómstólsins, og sagði máli sínu til stuðnings að yfirvöld ESB hafi engan rétt á því að skipta sér af dómskerfismálum aðildarríkja. Mannabreytingar í stjórnlagadómstólnum hafi verið nauðsynlegar til þess að losa Pólland við áhrif kommúnistatíðarinnar, að sögn Morawiecki.

Framkvæmdastjórn ESB var ekki par sátt við dóminn og lýsti verulegum áhyggjum sínum í gær. Framkvæmdastjórnin ítrekaði að lög ESB væru æðri lögum einstakra ríkja, þar á meðal ákvæðum stjórnarskráa þeirra. Þá bætti hún því við að úrskurðir Evrópudómstólsins væru bindandi gagnvart öllum aðildarríkjum, þar á meðal dómstólum þeirra. 

Stjórn Laga og réttar í Póllandi hefur ítrekað komist í kast við Framkvæmdastjórn ESB, þrátt fyrir mikinn stuðning almennings við aðild að sambandinu. Auk pólitískra breytinga á dómstólum hefur pólska stjórnin þrengt að fjölmiðlafrelsi í landinu og að réttindum hinsegin fólks.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *