Rykið dustað af ESB-draumnum

Hvort flokkar og frambjóðendur sem eru fastir í viðjum vantrúar á flest það sem íslenskt er muni heilla kjósendur í komandi kosningum kemur í ljós.

Óli Björn Kárason

Það er alltaf gott þegar stjórnmálaflokkar hafa skýra stefnu, ekki síst í aðdraganda kosninga. Með því verða kostirnir sem kjósendur standa frammi fyrir skýrari. Það er ekki endilega verra að draga gömul baráttumál út úr skápnum, dusta af þeim rykið og pakka þeim inn að nýju. Slíkt sýnir kannski ekki mikla hugmyndaauðgi en ákveðna íhaldssemi og þráa. Á sama tíma og Samfylkingin virðist hafa gefist upp á sínu helsta baráttumáli – aðild Íslands að Evrópusambandinu – hefur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eftir nokkurt hlé, í lúðra Brussel-valdsins. Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktun þar sem ríkisstjórninni er falið „að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu“. Ekki er hægt að skilja greinargerð þingsályktunartillögunnar á annan hátt en að kórónuveirufaraldurinn hafi kveikt aftur vonir í ESBhjörtum Viðreisnar. Fullyrt er að afleiðingar faraldursins hafi „gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum“ og þess vegna þurfi Ísland „að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt“.

 

Aukin alþjóðleg samvinna sé óhjákvæmileg og lokaskrefið „til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni“. Vantrú á íslenskt samfélag Rökstuðningur fyrir aðild að Evrópusambandinu hefur því lítið breyst frá árinu 2009 þegar samþykkt var að sækja um aðild og meirihluti þingsins kom í veg fyrir að þjóðin hefði nokkuð um aðildarviðræðurnar að segja. Í aðdraganda kosninga máluðu talsmenn aðildar svartnættið upp á vegg; höfðu enga trú á því að Íslendingar hefðu burði til að vinna sig út úr efnahagslegum þrengingum í kjölfar falls bankanna. Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrsti formaður Viðreisnar, dró upp dökka mynd af framtíð lands og þjóðar utan Evrópusambandsins. Í grein í Morgunblaðinu 16. apríl 2009 – níu dögum fyrir alþingiskosningar – svaraði Benedikt eigin spurningu um hvað gerðist ef þjóðin sækti ekki um aðild að Evrópusambandinu, með skýrum hætti:

„1. Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi
2. Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi
3. Fáir vilja lána Íslendingum peninga
4. Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum
5. Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi
6. Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár
7. Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti.“

Það var á grunni vantrúar á íslenskt samfélag sem Viðreisn var stofnuð. Lausnin á flestum vandamálum væri aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Með því yrði komið í veg fyrir nýtt „hrun“ efnahagslífsins um leið og „skuldir óreiðumanna“ (Icesave) yrðu gerðar upp með ábyrgð íslenskra skattgreiðenda. Mantran rifjuð upp Nokkrum árum síðar settist Benedikt ásamt samherjum sínum í Viðreisn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð. Sú ríkisstjórn var skammlíf (kannski sem betur fer) en í stjórnarsáttmála var tekið fram að stjórnin myndi „byggja samstarf við Evrópusambandið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið“ og að fylgjast þyrfti vel með „þróun Evrópusambandsins á næstu árum og gæta í hvívetna hagsmuna Íslands í samræmi við aðstæður hverju sinni“. Allar götur síðan hefur Viðreisn ekki sinnt þessu helsta stefnumáli sínu – grunninum undir stofnun flokksins – sérlega vel. En af og til vakna forystumenn flokksins upp í ræðu og riti, svona rétt til að minna sjálfa sig og áhangendur á að þrátt fyrir allt sé evran töfralausnin og Evrópusambandið draumurinn.
Á sama tíma og Viðreisn heldur sig við möntruna (þegar þingmenn muna eftir þulunni) um að íslenska krónan sé ónýt hefur traust í garð Seðlabanka Íslands stóraukist eða tvöfaldast á tveimur árum. Samkvæmt mælingum Gallup hefur traust til bankans aukist úr 31% árið 2019 í 62%. Árið 2011 báru aðeins 20% landsmanna traust til Seðlabankans. „Seðlabankinn er útgefandi og varðmaður íslensku krónunnar,“ skrifaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fésbókarvegg sinn í tilefni af niðurstöðum Gallup og bætti við: „Þessi mæling er því vitnisburður um nýtt traust á gjaldmiðlinum okkar – okkar allra landsmanna.“ Mat seðlabankastjóra er rökrétt. Aukið traust til Seðlabankans sýnir aukna tiltrú á krónuna. Að þessu leyti er Viðreisn ekki í takt við þróunina hér innanlands.

En þingsályktunartillaga Viðreisnar er hins vegar fagnaðarefni þar sem hún ætti að gera línurnar örlítið skýrari í aðdraganda kosninga. Og sjálfsagt neyðist Samfylkingin til að grafa ESB-stefnuna upp úr rykföllnum skúffum, þótt það kunni að vera erfitt fyrir einhverja frambjóðendur flokksins sem í fyrra pólitíska lífi börðust gegn aðild að Evrópusambandinu. Hvort flokkar og frambjóðendur sem eru fastir í viðjum vantrúar á flest það sem íslenskt er muni heilla kjósendur í komandi kosningum á eftir að koma í ljós. Í utanríkisviðskiptum er stefna Sjálfstæðisflokksins að fjölga kostunum í samskiptum við aðrar þjóðir en ekki fækka þeim líkt og hinir vantrúuðu telja rétt að gera. Frjálst, opið og þróttmikið samfélag verður hins vegar ekki tryggt í gegnum Brussel.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins..