Þessir fjármunir hefðu getað nýst vel til uppbyggingar og aðstoðar í Evrópu, en sömu peningunum verður aldrei eytt tvisvar.
Jón Magnússon skrifar í Mbl
Joe Biden klúðraði brottför úr Afganistan með ævintýralegum hætti og kom Bandaríkjunum í ógöngur og skildi svo eftir ógrynni nýlegra hergagna sem hvert Evrópuríki hefði mátt vera stolt af að ráða yfir.
Nú reynir ESB að klúðra líka, þótt það hafi verið víðs fjarri.
Ætla hefði mátt að vestræn ríki mundu bindast samtökum um að útiloka Afganistan frá samfélagi siðaðra þjóða meðan villimennska talibananna ræður þar ríkjum. Krafist þess, að lágmarksmannréttindi yrðu til staðar í landinu auk ýmiss annars annars yrði engin aðstoð í boði. En það er ekki gert.
Í gær ákvað Evrópusambandið að gefa talibanastjórninni 1000 milljónir evra eða 150 milljarða, sem heitir aðstoð. Skattgreiðendur í Evrópu hafa aldrei verið spurðir um þetta eða þeirra samþykkis leitað.
Þessir fjármunir hefðu getað nýst vel til uppbyggingar og aðstoðar í Evrópu, en sömu peningunum verður aldrei eytt tvisvar. Óneitanlega skýtur það skökku við, að valdstjórn Evrópusambandsins í Brussel skuli fyrst krefjast þess að lönd Evrópu taki við ómældum fjölda flóttamanna (um 90% þeirra eru ungir karlmenn) vegna ógnarstjórnarinnar í Afganistan og styrkja ógnarstjórnina síðan með gríðarlegum fjármunum.
Hvers eiga evrópskir skattgreiðendur eiginlega að gjalda.
Jón Magnússon er hæstaréttarlögmaður og fv. alþingismaður