Júlíus Valsson:
Sjálfstæðisflokknum hefur verið rænt og þingmönnum flokksins er haldið í gíslingu!
Horfði í gær á þátt í sænska sjónvarpinu um hann Jóhann Gustafson frá Smálöndum í Suður Svíþjóð. Duglegur ungur drengur sem fór á mótorhjóli um Afríku ásamt vinum sínum. Í Malí datt þeim í huga að skoða borgina Timbuktu, aðallega til að merkja við hana á ferðakortinu. Þar var honum og félögum hans rænt af al-Qaeda skæruliðum og haldið í gíslingu í rúm fimm ár (þ.e. í rúmt eitt kjörtímabil). Til þess að friðmælast við ræningjana þá tók hann múslimatrú og þá voru honum skyndilega allir vegir færir. Í stað þessa að kúldrast einn í búri í brennheitri Sahara eyðimörkinni á daginn og henni ískaldri á kvöldin drakk hann nú te með mannræningjunum, fékk sama mat og þeir, spjallaði kumpánlega við þá við varðeldinn og gat hreyft sig um að vild. Sem múslimi átti hann það ekki á hættu að vera tekinn af lífi. Honum þótti orðið vænt um ræningjana. Johann þakkar sínum sæla fyrir að hafa lesið um sænska bankaræningjann Jan-Erik Olsson sem „fann upp“ Stokkhólmsheilkennið árið 1973. Allir gíslar hans elskuðu og dáðu „Janne Olson“.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru nú í sömu aðstæðum Johann hinn sænski í eyðimörkinni og gíslarnir í sænska bankanum við Norrmalmstorg. Þeim hefur verið rænt. Til þess að fá að drekka te með forystunni, spjalla óheft um menn og málefni og eiga það ekki á hættu að vera útskúfaðir þurfa þeir að samþykkja allar tilskipanir ESB, sama hvaða nafni þær nefnast, jafnvel þær sem stangast á við stjórnarskrána, og alla almenna skynsemi. Þeir fá jafnvel að skrifa greinar í Moggann um stefnu Sjálfstæðisflokksins og halda flokkráðsfundi svo lengi sem þeir minnast ekki einu orði á að þeim hafi verið rænt, hvað þá að ræða um 3. orkupakkann og alls ekki má nefna Bókun 35.