Ímyndarvandi Sjálfstæðisflokks

Styrmir Gunnarsson skrifar í Mbl:

Í kosningunum í haust þarf að kveða niður boðskap ESB-sinna sem vilja í raun gera Ísland að litlum áhrifalausum hreppi í Evrópu.

This image has an empty alt attribute; its file name is Styrmir.jpg

Í þá góðu gömlu daga töldum við Heimdellingar okkur vita að leiðtogi okkar, Bjarni heitinn Benediktsson, teldi að þýðing Morgunblaðsins fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri aðallega sú að blaðið hefði svo mikil áhrif á andrúmsloftið í samfélaginu. Jafnframt töldum við okkur vita hver mælistika hans væri á það andrúmsloft – þ.e. hve margir tækju ofan fyrir honum þegar hann gengi úr stjórnarráðshúsinu yfir í Alþingi. Þótt margt hafi breytzt og lítið sé um hatta, sem teknir eru ofan fyrir ráðamönnum á förnum vegi, er það þó góð aðferð að hlusta eftir því hvernig fólk talar til að átta sig á hvernig landið liggur í pólitíkinni og taka mark á því. Og sé það gert á Sjálfstæðisflokkurinn við ímyndarvanda að stríða.

Það er mjög útbreidd skoðun að fiskveiðikvótinn hafi leitt til stórvaxandi ójöfnuðar og Sjálfstæðisflokknum kennt um. Hann er talinn helzta vígi margvíslegra sérhagsmuna. Það er alrangt en því er aldrei mótmælt af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Veruleikinn er sá, að framsal kvótans var gefið frjálst af vinstristjórn Framsóknar, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags án þess að taka upp auðlindagjald um leið. Þetta var sennilega mesti tilflutningur eigna á Íslandi frá siðaskiptum. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki séð ástæðu til að leiðrétta þennan misskilning. Fleiri vísbendingar eru um erfiða stöðu Sjálfstæðisflokks í aðdraganda kosninga.

Fyrr á þessu ári voru birtar tvær fréttir sem valda áhyggjum. Önnur var sú, að ef kosið yrði til borgarstjórnar nú mundi flokkurinn tapa einum fulltrúa í borgarstjórn. Hin var könnun á vinsældum ráðherra, sem benti til þess að ráðherrar flokksins ættu undir högg að sækja. Það er tilhneiging til þess í Valhöll og víðar að yppta öxlum yfir slíkum fréttum en það er misskilin afstaða. Þær segja sína sögu. Þegar saman fara vísbendingar af þessu tagi og hins vegar heimildir um, að Framsóknarflokkurinn sé að taka eina af sögulegum beygjum til vinstri, er nokkuð ljóst að það stefnir í vinstristjórn að loknum kosningum í haust. Ein af ástæðunum fyrir því að það veldur áhyggjum er sú að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skildi illa við aðildarumsóknina að ESB. Hún var ekki dregin formlega til baka heldur skilin eftir í skúffu sem veldur því að það er auðveldara að endurvekja hana. Þótt Framsóknarflokki Sigurðar Inga sé treystandi í þeim málum er aldrei að vita hvað gerist þegar annar stjórnarflokkur, Samfylkingin, leggur ofuráherzlu á slíkt mál.

Verkefni Sjálfstæðisflokksins næstu mánuði eru því mörg. Í fyrsta lagi þarf flokkurinn að koma því ræki lega til skila hvaða flokkar það voru sem afhentu útgerðinni gífurlega fjármuni með framsali kvótans. Í öðru lagi þarf það að koma skýrt fram, að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði forystu um að gera tillögur auðlindanefndar að sínum. Þetta eru grundvallaratriði þótt þau þýði ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hreint borð þegar kemur að sameign þjóðarinnar. Það er auðvitað löngu kominn tími til að stjórnmálaöflin standi við það í raun, sem fært hefur verið í lög, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Það gerðist að vísu ekki fyrr en þingmaður hafði hringt í LÍÚ og spurt hvort það væri í lagi að setja slík ákvæði í lög. Sá þingmaður var ekki úr Sjálfstæðisflokknum. Loks er ljóst að Evrópumálin verða lykilatriði í kosningunum. Þar verður stefna Sjálfstæðisflokksins að vera skýr og ekkert miðjumoð af því tagi sem flokkurinn leyfði sér að hafa uppi í umræðum um orkupakka 3. Í EES-samningunum eru skýr ákvæði sem heimila aðildarríkjunum að segja hingað og ekki lengra. Frambjóðendur þurfa að tala skýrt í kosningabaráttunni um það hvort þeir eru tilbúnir til að standa á þeim samningsbundna rétti. Það er ljóst að Evrópusinnar eru að sækja í sig veðrið. Þeir boða enn aðild að ESB. Í mörg undanfarin ár hefur verið alveg skýrt hvað ESB er. Það er aðferð til þess að losna við lýðræðið og tryggja völd umboðslausra og andlitslausra embættismanna.

Milovan Djilas skrifaði fræga bók um Hina nýju stétt, þar sem hann lýsti því hvað gerðist í ríki Títós þegar embættismenn og starfsmenn Kommúnistaflokksins tóku völdin. Slíkt stjórnarfar er að ryðja sér til rúms í Evrópu. Og það er kannski ekki mikill munur á þeim stjórnarháttum og voru í þriðja ríkinu. Í kosningunum í haust þarf að kveða niður boðskap ESB-sinna sem vilja í raun gera Ísland að litlum áhrifalausum hreppi í Evrópu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurheimta sinn fyrri styrk til þess að geta stöðvað þetta lið sem sér enga ástæðu til að þessi litla þjóð ráði sér sjálf. Um síðustu tilraun til þess má lesa í miklu ritverki Guðjóns Friðrikssonar um Alþýðuflokkinn í 100 ár. Það er nánast ótrúlegt að það skuli þurfa að heyja þessa baráttu aftur og aftur. En þeir sem kunna að efast um það ættu að kynna sér ótrúlegan málflutning talsmanna Viðreisnar að undanförnu. Fyrr á árum skipti máli að útiloka vinstristjórnir vegna varnarmála. Nú skiptir það máli vegna sjálfstæðis Íslands.

Höfundur er f.v. ritstjóri