Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

“Mjög langur vegur er frá því að allar ákvarðanir um mikilvæg mál innan ESB kalli á einróma samþykki. Það á til að mynda ekki við um sjávarútvegsmál.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Telja má nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem enn er krafizt einróma samþykkis ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku í ráðherraráði þess. Með hverjum nýjum sáttmála sambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabonsáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þannig heyrir krafan um einróma samþykki innan sambandsins í raun til undantekninga í dag. Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu 24. september þar sem ég benti einnig á þá staðreynd að íbúafjöldi ríkja Evrópusambandsins réði mestu um möguleika þeirra til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir væru teknar í ráðherraráðinu og þá einkum þeirra fámennustu. Stærstu ríkin væru hins vegar í algerri lykil- og yfirburðastöðu í þeim efnum vegna fjölmennis. Ég fór enn fremur ítarlega yfir fyrirkomulag Evrópusambandsins í þessum efnum en upplýsingar um það eru til dæmis ágætlega aðgengilegar á vefsíðum sambandsins. Hvet ég lesendur, sem það hafa ekki þegar gert og áhuga hafa, til þess að kynna sér þá samantekt mína.

Fyrri fullyrðing ekki endurtekin

Mér barst nokkru síðar svargrein sem raunar gerði lítið annað en að undirstrika það sem ég hafði bent á í grein minni. Þá einkum og sér í lagi þá staðreynd að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins í ráðherraráði þess eigi aðeins við um fáeina málaflokka. Þannig voru til að mynda einungis tekin dæmi um einróma samþykki tengd þeim fáu málaflokkum þar sem slíks er enn krafizt í ráðinu og síðan fullyrt á þeim grunni, líkt og í fyrri grein höfundar, að engin ákvörðun um mikilvæg mál væri tekin án samþykkis allra ríkja sambandsins.

Continue reading “Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?”

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Pólland kemur ESB í uppnám

Loftur skrifar

Það vekur athygli, eða ætti í það minnsta að vekja athygli, að þau atriði sem nú valda bæði lagalegri og pólitískri kreppu í Evrópu þ.e. kolvitlaus bólusetningaráætlun ESB svo og innrás ESB í fullveldi aðildarþjóðanna hafa hlotið sérstaka aðdáun íslenskra stórnvalda. Íslendinga ríkisstjórnin hlýtur að vera ein mest ESB-sinnaða ríkisstjórnin í Evrópu.

BREXIT

Bæði þýskir og pólskir dómstólar hafa nú úrskurðað að þarlend lög séu æðri lögum ESB. Þetta er auðvitað lagalega rangt því meginreglan er sú að þegar þú gengur í ESB fórnar þú fullveldi þíns lands og verður að hugsa og framkvæma í samræmi við álit Evrópudómstólsins.

Í ESB eru engar varanlegar undanþágur og því vekur furðu sá áhugi sem sumir hérlendir menn sýna inngöngu í það félag og um leið opinberar það fákunnáttu þeirra Íslendinga sem enn vilja fá að „kíkja í pakkann“ hjá ESB. Þeir hinir sömu hafa greinilega ekki lesið Lissabon-sáttmálann.

Þetta vissu Bretar. Til að ná aftur fullveldi sínu þurftu þeir yfirgefa ESB. Brexit var pólitískt og lýðræðislegt val bresku þjóðarinnar.

Því má ekki gleyma að ESB braut sín eigin lög með afar illa útfærðri bóluefnisáætlun sinni. Þessi hörmulega áætlun á sér þó furðumarga aðdáendur hér á landi m.a. í ráðuneyti heilbrigðismála en það kemur að sjálfu sér ekki á óvart.

Lesa meira