Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýjárskveðja frá FUS- Félagi sjálfstæðismanna um fulleldismál


Kæru vinir við óskum ykkur gleðilegs árs og þakka liðin.

Fáa hefði órað fyrir því í ársbyrjun 2021, að við mundum glíma við Covid-19 veiruna út árið með sama hætti og árið á undan. Á tímum samkomutakmarkana auk annarra sóttvarnarráðstafana er erfitt að halda úti eðlilegu félagsstarfi. Það hefur svo sannarlega bitnað á okkur í Fullveldisfélaginu. Fundi og ráðstefnur hafa verið undirbúin, en urðu að engu. Sú vinna er þó ekki unnin fyrir gíg hugmyndirnar og tillögurnar bíða þess eins að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Fullveldisfélagið hefur þó unnið ákveðna áfangasigra. Félagið hefur fengið fulla viðurkenningu innan raða Sjálfstæðisflokksins og fleiri og fleiri úr forustuliði flokksins koma fram og samsama sig með þeim sjónarmiðum og gildum, sem við höldum fram og berjumst fyrir. Án Fullveldisfélagsins er hætt við að stefna Sjálfstæðisflokksins hefði í nokkrum málum orðið önnur en raunin varð.

Margir hafa agnúast út í félag fullveldissinna og fundið því margvíslegt til foráttu. Í sjálfu sér er það eðlilegt. Við berjumst fyrir ákveðnum sjónarmiðum m.a. því grundvallarmarkmiði, að ætíð sé gætt að fullveldi þjóðarinnar í samskiptum við erlendar þjóðir og fjölþjóðasamtök.

Nú þegar veiran geisar sem aldrei fyrr í landinu kann ýmsum að finnast það bjartsýni, að telja, að fljótlega á nýja árinu megi búast við því, að við verðum komin úr heljartökum veirunnar og eðlilegt mannlíf og persónufrelsi ráði ríkjum á nýjan leik. En þannig verður það vonandi.

Við höfum þá mikið verk að vinna. Við verðum að gæta að því að ekki verði gefið eftir sérstaklega í sambandi við samstarf okkar innan EES, þar sem að Evrópusambandið seilist stöðugt til meiri áhrifa bæði í aðildarríkjum sínum, en einnig í EES ríkjunum. Íslenskir stjórnmálamenn og baráttufólk í pólitík eins og við verðum því að vera stöðugt á varðbergi og svo kann að vera, að bæði okkur og Norðmönnum henti betur önnur umgjörð utan um samstarf okkar við Evrópusambandið en EES samningurinn.

Við gerðumst aðilar að EES til að geta átt góð viðskipti við Evrópusambandsríkin og létt yrði af hömlum og ýmsum takmörkunum, sem hafa verið milli landanna. En við vorum ekki að gefa frá okkur lagasetningarvald eða rétt til að hafa aðrar skoðanir og sjónarmið en Evrópusambandið. Við verðum því að gæta okkar og gera kröfur til þess, að hvorki í EES samstarfinu né öðru ríkjasamstarfi verði íslensk þjóð og frelsi hennar öðrum þjóðum háð.

Ágætu félagar við óskum ykkur og fjölskyldum ykkar góðs og heillaríks komandi árs

Baráttukveðjur

Stjórn FSF – Fullveldisfélags Sjálfstæðismanna

Sjálfstæð fullvalda þjóð

Jón Magnússon skrifar í tilefni Fullveldisdagsins 1. desember 2021

Sjálfstæði og fullveldi Íslands og íslensku þjóðarinnar er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið og hefur aldrei verið það. Okkur sem erum fædd eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 17.júní 1944 hættir til að telja að stjórnskipuleg réttindi, fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar séu sjálfsagður hlutur. Því miður er ekki svo farið og smáþjóð verður stöðugt að vera á varðbergi til að verja réttindi sín menningu og eiginleika.

Jón Magnússon

Ísland naut skammvinns sjálfstæðis frá því að land byggðist þangað til höfðingjar landsins vegna eigin sundrungar og skammsýni neyddust til að játa Hákoni gamla Hákonarsyni Noregskonungi hollustu sína og ganga honum á hönd með samþykki hins svokallaða „Gamla sáttmála“ árið 1262.

Frá þeim tíma til 1.desember 1918 lutum við erlendu valdi. Fyrst valdi Noregskonunga og síðar Danakonunga eftir að Noregur tapaði sjálfstæði sínu og Danir tóku þar völdin. 

En sjálfstæðisviljinn var alltaf til staða með íslensku þjóðinni. Íslendingar litu jafnan á sig sem sérstaka þjóð með sína sérstöku menningu og tungumál. Áshildarmýrarsamþykktin 1496 er dæmi um það að bændur á Suðurlandi töldu að þeir ættu ákveðin réttindi, sem þeir gætu krafist af konungi að fá að njóta, sem sjálfstæðir menn. Sömu viðhorf var ekki að finna í Evrópu á þeim tíma og er Áshildarmýrarsamþykktin einstök og mjög merkileg í sögu og viðleitni þjóðarinnar til að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar birtist með ýmsum hætti í áranna rás. Íslendingar vildu ekki játast undir einveldi Danakonungs árið 1662 en gerðu það nauðugir.

Lesa meira

Á bak við grímu gervifrjálslyndis býr grimmdarstjórn

Eins og aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Leiðarval okkar mun
hafa mótandi áhrif á farsæld okkar til lengri tíma.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Kórónuveiran (C19) hefur leitt stjórnmálaumræðuna inn á óheillavænlega braut. Þeir sem eru hvað hræddastir við veiruna nota óttann til að réttlæta stóryrði og óþol í garð þeirra sem hafa aðrar skoðanir. Óyfirveguð og þröngsýn orðræða fælir almenning frá því að tjá sjálfstæða afstöðu. Í slíku umhverfi skapast forsendur fyrir ógnarstjórn. Veruleikinn er þá teiknaður upp sem svarthvítur og fólk dregið í dilka réttlátra og ranglátra, góðra og vondra, upplýstra og fáfróðra o.s.frv. Með þessu er vegið að ýmsu því sem telja má dýrmætast, s.s. gagnrýninni hugsun, frjálsri og lýðræðislegri umræðu og jafnræði allra manna fyrir lögunum. Ekki vil ég gera lítið úr því að menn séu kappsamir, en ákafinn má ekki umbreytast í óþol, einstrengingshátt, þröngsýni og hroka. Slíkt hugarfar gerir menn herskáa, fyllir þá vandlætingu og leiðir til ofstækis. Því miður hrannast óveðursskýin nú upp á vettvangi stjórnmála, lagasetningar og lagaframkvæmdar. Eins og hendi sé veifað eru vestræn lýðræðisríki að taka upp annars konar stjórnarfar, þar sem ókjörnum embættismönnum er falið það vald að skammta borgaralegt frelsi úr hnefa að fyrirmynd harðstjórnarríkja. Þetta er réttlætt með því að frelsinu beri að fórna í skiptum fyrir heilsu og öryggi. Frammi fyrir því ómælda efnahagslega, heilsufarslega, sálræna, pólitíska, lýðræðislega og lagalega tjóni sem þetta stjórnarfar hefur þegar valdið (og mun fyrirsjáanlega halda áfram að valda) virðist stöðugt skýrara að við erum á rangri braut, sem brýnt er að snúið verði af hið fyrsta, áður en öllu verður stefnt í voða.

Skrefið frá stjórnlyndri „framfarastefnu“ til ofríkis er stutt

Sú mynd sem hér er að birtast sýnir breikkandi gjá milli þeirra sem aðhyllast frelsi, sjálfsákvörðunarrétt og lýðræði annars vegar og hins vegar þeirra sem kjósa vald, hlýðni og stjórnlyndi.

Lesa meira

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild

Áhrif 3. orkupakka ESB á fullveldi Íslands í raforkumálum

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar á blog.is:
(tilvitnun úr Staksteinum Mbl 5. nóvember 2021)

Orkuskortur teygir sig til Noregs

Bjarni Jónsson

„Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.

Lesa meira

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Umrótinu hafnað

Borið hefur á því að stjórnmálamenn missi allan mátt þegar kemur að efnislegri umræðu um fullveldið í framkvæmd og rjúfi jafnvel svardaga sinn.

Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl

Viðar Guðjohnsen

Skattborgarar gengu til kosninga með blendnum tilfinningum þetta árið. Litlu var þeim lofað öðru en óumbeðinni sjálfskuldarábyrgð á annars ábyrgðarlausu fjáraustri stjórnmálamanna. Hvorki fréttamenn né frambjóðendur veittu því athygli að því sem einn fær án þess að vinna fyrir þarf einhver annar að vinna fyrir án þess að fá.

Þjóðin andar léttar

Við íhaldsmenn unnum ekki neina sérstaka sigra á kjördag. Þó má anda léttar því öfgaumrótið var á síðustu dögunum fyrir kosningar komið í örskotslengd frá allsherjarvaldinu. Ef það ætti að velja einn hugmyndafræðilegan sigurvegara í þessum kosningum þá væri það okkar ástkæra lýðveldisstjórnarskrá sem ávallt vakir og verndar. Þau öfl sem vildu henni illt skruppu saman og urðu undir. Aðförin að henni var brotin á bak aftur og vonandi er þeim hildarleik að fullu lokið. Píratar töpuðu fylgi. Það er fagnaðarefni. Sósíalistaflokkurinn með sína eymdarstefnu komst ekki inn á þing sem er annað fagnaðarefni. Jafnaðarmenn sitja að sama skapi eftir með sárt ennið og náðu ekki einu sinni tíund atkvæða. Þetta er ljósið í myrkrinu.

Continue reading “Umrótinu hafnað”

Ályktun FSF vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Frá Félagi Sjálfstæðismanna um Fullveldismál

Ný ríkisstjórn Íslands þarf að takast á við fjölþættan vanda ekki síst vegna þeirra víðtæku áhrifa og þess gríðarlega kostnaðar, sem Covid-19 faraldurinn hefur haft fyrir þjóðarbúið. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gæta þess í stjórnarmyndunarviðræðum og í starfi að hafa ætíð í heiðri ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins einkum hvað varðar frelsi einstaklingsins og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka EES samninginn til endurskoðunar á þessu kjörtímabili.

Til þess að Ísland verði raunverulegt land tækifæranna er grundvallaratriði, að borgararnir fái sem mest frelsi til arðsköpunar, skattar verði í lágmarki og auðlindir landsins verði nýttar til arðsköpunar í sátt við eðlileg verndarsjónarmið, þannig að ekki verði gengið á landsins gæði til tjóns fyrir komandi kynslóðir. 

Í stjórnarmyndunarviðræðum  nú er því nauðsynlegt að vikið verði af þeim vegi friðunar nánast allra staða sem bjóða upp á hefðbundna orkunýtingu og hefur leitt til þess að sumir landshlutar búa við ótryggt og óviðunandi ástand í orkumálum. 

Horfast verður í augu við það að aðgerðaráætlun ríkisins í loftslagsmálum stenst ekki og mun stofna til gagnslausra fjárfestinga, sem leggja óbærilegar byrðar á neytendur og atvinnulíf á komandi árum, þannig að ólíklegt er, að Ísland verði ”land tækifæranna” verði henni fylgt eftir. Ísland þarf að öðlast viðurkenningu á framlagi sínu til loftslagsmála, sem felst í málmbræðslu með hreinni orku. Eigi að kaupa losunarkvóta til áframhaldandi iðnaðar á þessu sviði eru orkulindir á Íslandi nánast verðlausar.

Taka verður skipulag heilbrigðismála til gagngerrar endurskoðunar og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að nýta þjónustu verktaka og annan einkarekstur til að gera gott kerfi fjölbreyttara, öruggara og betra fyrir þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Hefjast skal strax handa við að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stórbæta þarf aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustunni. 

Nauðsynlegt er að við nýtum okkur sjávarútvegsauðlindina í meira mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Eftir rúmlega 40 ára ákveðnar friðunaraðgerðir sem hafa ekki skilað þeim árangri, sem til var ætlast er full ástæða til að skoða frekari markaðsvæðingu í sjávarútvegi,  rýmkun aflaheimilda sérstaklega á grunnslóð og aukinn sveigjanleika í úthlutun aflaheimilda.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að móta ákveðna stefnu í næstu ríkisstjórn um nauðsynlegar breytingar til að auðvelda ungu fólki að eignast eigin íbúð án þess að það þurfi að sæta félagslegu skömmtunar- og eða leigukerfi. Sú stefna Sjálfstæðisflokksins, sem var einn hornsteinn félagsmálastefnu flokksins um áratuga skeið, að auðvelda ungu fólki að verða eignafólk er mikilvæg og hana verður að endurvekja m.a. með því að frumkvæði og kraftur unga fólksins verði leystur úr læðingi og sé virkjaður með einstaklingsbundnum lóðaúthlutunum í stað þess að lóðaúthlutanir verði aðallega eða nánast eingöngu til stórra byggingaraðila.

Gæta verður þess, að innflutningur fólks verði ekki óhóflegur, til að komast hjá samfélagslegum óstöðugleika og þeirri hættu að þjóðfélagsgerð okkar raskist í grundvallaratriðum eins og raunin er í ýmsum nágrannalöndum okkar. Gera verður kröfu til þeirra, sem flytja búsetu sína til landsins, að þeir læri íslensku og fái fræðslu um sögu landsins og grundvallaratriði íslenskrar þjóðmenningar.

 Bregðast verður við óhóflegum áhuga erlendra auðmanna til að kaupa jarðnæði og auðlindir á Íslandi með því að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum, sem varða eignarhald á landi og auðlindum. Stjórnvöld þurfa að og að endurskoða lög um auðlindir í jörðu

Á sama tíma og gert verið átak til að tryggja ungu fólki farsæld og góða möguleika í lífinu þá verði brugðist við réttmætum og sanngjörnum kröfum eldri borgara til að  ná því grundvallarmarkmiði lýðræðisþjóðfélags, að sátt verði með kynslóðunum og velferð bæði æsku og elli tryggð með viðunandi hætti. Þá verði þess gætt, að framtak og vinnusemi fólks nýtist samfélaginu, en með því væri stigið skref til þess,  að Ísland verði land tækifæranna. 

Gera þarf stórátak í samgöngumálum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og tryggja að íbúarnir hafi frjálst val um þá samgöngumáta sem hentar þeim best.

Tryggt verði að skipulagsákvarðanir og framkvæmdir einstakra sveitarfélaga tefji ekki samgöngur um þjóðvegakerfi landsins óhóflega með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur.

Nýsköpun, framsækni og dugnaður er forsenda velmegunar í samkeppnisþjóðfélagi eins og okkar og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur íslenskra stjórnmála, sem ber skyldu til þess að einstaklingurinn fái jafnan að sýna það sem í honum býr og njóta eigin arðsköpunar.

Samþykkt á stjórnarfundi Félags sjálfstæðismenna um fullveldismál haldinn í Valhöll þ. 9. október 2021