Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

“Mjög langur vegur er frá því að allar ákvarðanir um mikilvæg mál innan ESB kalli á einróma samþykki. Það á til að mynda ekki við um sjávarútvegsmál.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Telja má nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem enn er krafizt einróma samþykkis ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku í ráðherraráði þess. Með hverjum nýjum sáttmála sambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabonsáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þannig heyrir krafan um einróma samþykki innan sambandsins í raun til undantekninga í dag. Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu 24. september þar sem ég benti einnig á þá staðreynd að íbúafjöldi ríkja Evrópusambandsins réði mestu um möguleika þeirra til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir væru teknar í ráðherraráðinu og þá einkum þeirra fámennustu. Stærstu ríkin væru hins vegar í algerri lykil- og yfirburðastöðu í þeim efnum vegna fjölmennis. Ég fór enn fremur ítarlega yfir fyrirkomulag Evrópusambandsins í þessum efnum en upplýsingar um það eru til dæmis ágætlega aðgengilegar á vefsíðum sambandsins. Hvet ég lesendur, sem það hafa ekki þegar gert og áhuga hafa, til þess að kynna sér þá samantekt mína.

Fyrri fullyrðing ekki endurtekin

Mér barst nokkru síðar svargrein sem raunar gerði lítið annað en að undirstrika það sem ég hafði bent á í grein minni. Þá einkum og sér í lagi þá staðreynd að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins í ráðherraráði þess eigi aðeins við um fáeina málaflokka. Þannig voru til að mynda einungis tekin dæmi um einróma samþykki tengd þeim fáu málaflokkum þar sem slíks er enn krafizt í ráðinu og síðan fullyrt á þeim grunni, líkt og í fyrri grein höfundar, að engin ákvörðun um mikilvæg mál væri tekin án samþykkis allra ríkja sambandsins.

Continue reading “Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?”

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Umrótinu hafnað

Borið hefur á því að stjórnmálamenn missi allan mátt þegar kemur að efnislegri umræðu um fullveldið í framkvæmd og rjúfi jafnvel svardaga sinn.

Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl

Viðar Guðjohnsen

Skattborgarar gengu til kosninga með blendnum tilfinningum þetta árið. Litlu var þeim lofað öðru en óumbeðinni sjálfskuldarábyrgð á annars ábyrgðarlausu fjáraustri stjórnmálamanna. Hvorki fréttamenn né frambjóðendur veittu því athygli að því sem einn fær án þess að vinna fyrir þarf einhver annar að vinna fyrir án þess að fá.

Þjóðin andar léttar

Við íhaldsmenn unnum ekki neina sérstaka sigra á kjördag. Þó má anda léttar því öfgaumrótið var á síðustu dögunum fyrir kosningar komið í örskotslengd frá allsherjarvaldinu. Ef það ætti að velja einn hugmyndafræðilegan sigurvegara í þessum kosningum þá væri það okkar ástkæra lýðveldisstjórnarskrá sem ávallt vakir og verndar. Þau öfl sem vildu henni illt skruppu saman og urðu undir. Aðförin að henni var brotin á bak aftur og vonandi er þeim hildarleik að fullu lokið. Píratar töpuðu fylgi. Það er fagnaðarefni. Sósíalistaflokkurinn með sína eymdarstefnu komst ekki inn á þing sem er annað fagnaðarefni. Jafnaðarmenn sitja að sama skapi eftir með sárt ennið og náðu ekki einu sinni tíund atkvæða. Þetta er ljósið í myrkrinu.

Continue reading “Umrótinu hafnað”

Hvað höfum við lært?

Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Í fyrri greinum um kórónuveiruna (C19) hef ég borið fram spurningar um þá vegferð sem yfirvöld hér á landi – og raunar víðar – hafa kosið að feta. Augljóslega er sérstök ástæða til að vara við því að valin sé leið sem til lengri tíma gæti reynst skaðlegri en veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjónarhorn leyfilegrar umræðu, kippt hefðbundnum stjórnmálum úr sambandi, fært völdin úr höndum þings og ríkisstjórnar til ólýðræðislega valinna sérfræðinga. Afleiðingin hefur verið sú að grafið hefur verið undan lýðræðinu, réttarríkinu og öryggisventlum stjórnskipunarinnar um valddreifingu. Of fáum mönnum hafa verið afhent óþægilega mikil völd. Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við fámennisstjórn eða sérfræðingastjórn, gengur gegn stjórnskipulegu markmiði lýðræðisríkja um temprun valds.

Þekktu óvininn

Með hliðsjón af opinberri tölfræði um hættueiginleika C19 má furðu sæta hversu lítil umræða hefur farið fram um inngrip sóttvarnalæknis í stjórn landsins. Þau inngrip hafa verið byggð á almennt orðuðum ákvæðum laga um sóttvarnir, án þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnilega gert nóg til að tempra nefnda valdbeitingu.

Lestu meira