Sjálfstæð fullvalda þjóð

Jón Magnússon skrifar í tilefni Fullveldisdagsins 1. desember 2021

Sjálfstæði og fullveldi Íslands og íslensku þjóðarinnar er ekki sjálfsagt eða sjálfgefið og hefur aldrei verið það. Okkur sem erum fædd eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 17.júní 1944 hættir til að telja að stjórnskipuleg réttindi, fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar séu sjálfsagður hlutur. Því miður er ekki svo farið og smáþjóð verður stöðugt að vera á varðbergi til að verja réttindi sín menningu og eiginleika.

Jón Magnússon

Ísland naut skammvinns sjálfstæðis frá því að land byggðist þangað til höfðingjar landsins vegna eigin sundrungar og skammsýni neyddust til að játa Hákoni gamla Hákonarsyni Noregskonungi hollustu sína og ganga honum á hönd með samþykki hins svokallaða „Gamla sáttmála“ árið 1262.

Frá þeim tíma til 1.desember 1918 lutum við erlendu valdi. Fyrst valdi Noregskonunga og síðar Danakonunga eftir að Noregur tapaði sjálfstæði sínu og Danir tóku þar völdin. 

En sjálfstæðisviljinn var alltaf til staða með íslensku þjóðinni. Íslendingar litu jafnan á sig sem sérstaka þjóð með sína sérstöku menningu og tungumál. Áshildarmýrarsamþykktin 1496 er dæmi um það að bændur á Suðurlandi töldu að þeir ættu ákveðin réttindi, sem þeir gætu krafist af konungi að fá að njóta, sem sjálfstæðir menn. Sömu viðhorf var ekki að finna í Evrópu á þeim tíma og er Áshildarmýrarsamþykktin einstök og mjög merkileg í sögu og viðleitni þjóðarinnar til að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sinn.

Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar birtist með ýmsum hætti í áranna rás. Íslendingar vildu ekki játast undir einveldi Danakonungs árið 1662 en gerðu það nauðugir.

Lesa meira

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild

Áhrif 3. orkupakka ESB á fullveldi Íslands í raforkumálum

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar á blog.is:
(tilvitnun úr Staksteinum Mbl 5. nóvember 2021)

Orkuskortur teygir sig til Noregs

Bjarni Jónsson

„Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.

Lesa meira

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Hvað höfum við lært?

Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Í fyrri greinum um kórónuveiruna (C19) hef ég borið fram spurningar um þá vegferð sem yfirvöld hér á landi – og raunar víðar – hafa kosið að feta. Augljóslega er sérstök ástæða til að vara við því að valin sé leið sem til lengri tíma gæti reynst skaðlegri en veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjónarhorn leyfilegrar umræðu, kippt hefðbundnum stjórnmálum úr sambandi, fært völdin úr höndum þings og ríkisstjórnar til ólýðræðislega valinna sérfræðinga. Afleiðingin hefur verið sú að grafið hefur verið undan lýðræðinu, réttarríkinu og öryggisventlum stjórnskipunarinnar um valddreifingu. Of fáum mönnum hafa verið afhent óþægilega mikil völd. Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við fámennisstjórn eða sérfræðingastjórn, gengur gegn stjórnskipulegu markmiði lýðræðisríkja um temprun valds.

Þekktu óvininn

Með hliðsjón af opinberri tölfræði um hættueiginleika C19 má furðu sæta hversu lítil umræða hefur farið fram um inngrip sóttvarnalæknis í stjórn landsins. Þau inngrip hafa verið byggð á almennt orðuðum ákvæðum laga um sóttvarnir, án þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnilega gert nóg til að tempra nefnda valdbeitingu.

Lestu meira

Um daginn og veginn

Davíð Gíslason læknir skrifar um heilbrigðiskerfið á dögum kommúnismans

Davíð Gíslason

Við lifum á undarlegum tímum. Kóvid hefur umturnað lífi margra okkar og þessi veiruskömm er óvinur þjóðarinnar nr. 1. Þegar ég var ungur læknanemi var sagt að inflúensan væri besti vinur gamla mannsins, því ef hún kæmi í heimsókn tækju allar áhyggjur skjótan enda nema áhyggjur ættingjanna sem þyrftu að sjá um útförina. Þetta viðhorf á nú líklega ekki marga talsmenn lengur. Sagt er að sá sem ekki óttast dauðann óttist ekkert, og það er kosturinn við að verða gamall að þá fækkar ástæðum óttans og margir nálgast þá aftur barndóminn og geta leyft sér að benda á nýju fötin keisarans.

Þökk sé kóvid hefur heilbrigðiskerfið verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Neyðaróp hafa heyrst frá Landspítalanum og sérstaklega frá bráðamóttökunni. Það er eins og eilíf vandamál Landspítalans séu náttúrulögmál, svona eins og aðdráttarsvið jarðar. Fyrir mörgum árum var einn af kennurum mínum spurður frétta af spítalanum. „Þar sést aldrei glaður maður,“ var svarið. Annar kollega taldi einsýnt að spítalinn hefði verið byggður á álagabletti. Þetta er auðvitað hótfyndni, en kannski með einhverju sannleikskorni.

En flest hefur sínar skýringar. Það líður engum vel í allt of þröngum fötum. Eftir að spítalarnir voru sameinaðir hefur rúmum fyrir bráðveika sjúklinga fækkað um nærri 40%, þjóðinni hefur fjölgað um þriðjung og hér iðar samfélagið af útlendingum. Því er spítalanum allt of þröngur stakkur skorinn, sem bitnar kannski harðast á bráðamóttökunni við að finna sjúklingunum pláss.

Það er kvartað yfir skorti á mannafla. Sérnámslæknar hafa ekki beinlínis verið hvattir til að koma heim eftir sérnám. Þeir hafa jafnvel átt í málaferlum við stjórnvöld til að fá að hefja hér störf þótt þörfin fyrir þá sé æpandi.

Lesa meira