Er lýðræðið dautt?

Arnar Þór Jónsson skrifar minningargrein í Mbl:

Til minningar um lýðræðið

“Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður.”

Arnar Þór Jónsson

Þótt ekkert fæðingarvottorð sé til er almennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borgríkinu Aþenu. Á æskuskeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírugir menn komu á einræði með múgæsingarstarfi, ógn og ofbeldi. Eftir það sat lýðræðið lengi í öskustó annars stjórnarfars. Minningin um sólbjarta daga málfrelsis og sjálfstæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafnvel þótt þessi minning hafi orðið óljós á myrkustu köflum þessara fyrstu alda var það þó kannski einmitt óljós endurómurinn sem hélt lífi í glóðunum þegar útlitið var sem dekkst. Þrátt fyrir vanþroska og mótlæti braust andi lýðræðisins stundum eftirminnilega í gegn. Til þeirrar sögu má nefna stofnun Alþingis árið 930, Magna Carta (1215) o.fl. Á þessum grunni holdgerðist lýðræðisandinn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þáttaskil. Lýðræðið fann rætur sínar og styrktist með hverri raun.

Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýrmæta þjálfun hvað varðar bæði úthald og styrk. Á þessum mótunarárum naut lýðræðið leiðsagnar úrvals kennara. Við leiðarlok ber að minnast sérstaklega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Ritgerð um ríkisvald, sem reyndist lýðræðinu traust handbók í átökum og eftirmálum bandaríska frelsisstríðsins (1765-1791) og frönsku byltingarinnar (1789).

Ekki verður skilið við þetta tímabil án þess að minnast á Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776), þar sem þrír grundvallarþræðir lýðræðisins, uppruni, markmið og tilgangur, eru glæsilega fléttaðir saman:

1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar.
2) Megintilgangur með öllu stjórnarfari er að verja þessi réttindi.
3) Ef ríkið reynir að synja mönnum um þennan rétt er fólki heimilt að gera uppreisn og koma á fót nýrri stjórn.

Saman mynda þessir þrír þræðir erfðamengi lýðræðisins, anda þess og sál, sem síðar má vonandi vekja til nýs lífs. Á blómaskeiði sínu átti lýðræðið glæstar stundir og fóstraði margt það besta sem mönnum hefur tekist að leiða fram, með því að virkja sköpunarkraft, samtakamátt o.fl. Stofnun íslenska lýðveldisins 1944 var mjög í þessum anda, hugdjörf ákvörðun fámennrar en stórhuga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægilega ginnkeypt fyrir hvers kyns skrumi. Í alþjóðlegu samhengi leiddu veikleikar lýðræðisins til þess að það féll ítrekað fyrir varasömum mönnum, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórnar, þar sem járnkrumla hertist um æðakerfi þjóðlífsins þar til ekkert varð eftir annað en stirðnuð skel og líflaus leikmynd þar sem andlausir leikarar þuldu upp sömu setningarnar í mismunandi útgáfum. Stjórnmálin urðu dauf og líflaus, ekkert kom lengur á óvart. Hver einasta lína var skrifuð af ósýnilegum baktjaldamönnum og óttinn knúði alla til að vanda framburð og látbragð í hvívetna, því sérhvert frávik frá textanum gat varðað atvinnumissi og brottrekstri af sviðinu. Í þessu umhverfi entust þeir lengst í stjórnmálum sem nutu sviðsljóssins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eigin brjósti, en sýndu hæfni í að endurtaka hugsanir annarra af einlægum sannfæringarkrafti.

Þegar þátttaka í stjórnmálum var ekki lengur þjónustuhlutverk, heldur starfsferill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurninga, voru reiðubúnir að kynda undir óvild manna í garð samborgara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýndist skorta undirgefni og hikuðu ekki við að framfylgja fyrirskipunum með valdbeitingu. Frammi fyrir þessu rann smám saman upp fyrir kjósendum að stjórnmálin höfðu umbreyst í leiklestur og stjórnmálamennirnir í brúður. Niðurlægingin var svo mikil og svikin svo sárgrætileg að enginn vildi viðurkenna að þetta væru dauðamörk. Enginn nema börn og stöku eldri borgarar höfðu einlægni til að spyrja:

„Til hvers að taka þátt í pólitík ef þú ætlar ekki að segja það sem þér sjálfum finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðisins mun ekkert breytast fyrr en menn rísa upp gegn ofríkisöflunum og hafna andleysinu í þeim tilgangi að verja líf sitt og frelsi til gagnrýninnar hugsunar, málfrelsi sitt og frelsi til athafna, samvinnu, uppbyggingar og friðar. Aðeins þannig getur lýðræðið vaknað til nýs lífs.

Hafa Íslendingar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sofandi á draumþingum og hlusta hálfsofandi á léleg handrit leiklesin á öllum sviðum einkalífs og þjóðlífs?

Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og formaður Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál.
arnarthor@griffon.is

Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu

Marta Guðjónsdóttir skrifar í Mbl

„Borgaryfirvöld vita að þau eru víða að framkvæma þéttingaráform sem borgarbúar myndu hafna“

Marta Guðjónsdóttir

Á miðvikudaginn var ákváðu borgaryfirvöld að falla frá þeim skipulagsáformum í Bústaða- og Fossvogshverfi að láta reisa þar sautján, nýjar íbúðablokkir meðfram sunnanverðum Bústaðaveginum. Þetta undanhald borgaryfirvalda kom eins og sólskinsblettur í heiði og því full ástæða til að óska íbúum til hamingju með þennan varnarsigur. Þess má geta að margir þessara íbúa eru orðnir langþreyttir á því að börn þeirra þurfi að sækja grunnskóla og leikskóla í önnur hverfi vegna langvarandi vanrækslu á viðhaldi Fossvogsskóla og leikskólans Kvistaborgar. Þessir íbúar áttu því ekki von á að borgaryfirvöld bættu gráu ofan á svart með því að kynna þeim fyrirhugaða innrás þéttingaröfga í hverfi þeirra með fyrrnefndum skipulagsáformum.

Mótmæli íbúanna

Þéttingaráformin vöktu hörð viðbrögð og mikil mótmæli, sem m.a. komu fram á fjölmennum íbúafundi í Réttarholtsskóla hinn 8. desember sl. Þar bentu íbúarnir borgarstjóra góðfúslega á að þessar öfgar myndu þrengja mjög að byggðinni sem fyrir er, stuðla að óheyrilegu umferðar og umhverfisraski á framkvæmdatímanum, byrgja fyrir útsýni, lengja skugga og fækka sólarstundum, útrýma gróðri og grænum svæðum meðfram Bústaðavegi, fækka bílastæðum nýrra og eldri íbúa, auka slysahættu við Bústaðaveg, fjölga íbúum án þess að bæta þjónustustig íbúanna, draga úr verðgildi eldri fasteigna og verða auk þess í ósamræmi við yfirbragð og sérkenni hinnar eldri byggðar. Öllu átti til að kosta til að ná fram slagorði borgarstjórans um þéttingu byggðar!

Continue reading “Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu”

Hvað höfum við lært?

Ekki má þrengja svo að þjóðfélaginu í baráttu við eina hættu að við búum til sjálfstæða ógn úr annarri átt. Hér þarf að finna jafnvægispunkt.

Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl

Arnar Þór Jónsson

Í fyrri greinum um kórónuveiruna (C19) hef ég borið fram spurningar um þá vegferð sem yfirvöld hér á landi – og raunar víðar – hafa kosið að feta. Augljóslega er sérstök ástæða til að vara við því að valin sé leið sem til lengri tíma gæti reynst skaðlegri en veiran sjálf. Kófið hefur þrengt sjónarhorn leyfilegrar umræðu, kippt hefðbundnum stjórnmálum úr sambandi, fært völdin úr höndum þings og ríkisstjórnar til ólýðræðislega valinna sérfræðinga. Afleiðingin hefur verið sú að grafið hefur verið undan lýðræðinu, réttarríkinu og öryggisventlum stjórnskipunarinnar um valddreifingu. Of fáum mönnum hafa verið afhent óþægilega mikil völd. Slíkt stjórnarfar, sem kenna má við fámennisstjórn eða sérfræðingastjórn, gengur gegn stjórnskipulegu markmiði lýðræðisríkja um temprun valds.

Þekktu óvininn

Með hliðsjón af opinberri tölfræði um hættueiginleika C19 má furðu sæta hversu lítil umræða hefur farið fram um inngrip sóttvarnalæknis í stjórn landsins. Þau inngrip hafa verið byggð á almennt orðuðum ákvæðum laga um sóttvarnir, án þess að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnilega gert nóg til að tempra nefnda valdbeitingu.

Lestu meira