ESB – áróður á RÚV

Einu sinni enn

Staksteinar MBL 0104022
(ekki aprílgabb!)

Útvarp allra landsmanna?

Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í
Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.

Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“

Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.

Fréttablaðið er úti á gangi

Loftur skrifar

Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?

Raforkuverð í Evrópu

Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.

Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB

Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.

Áhrif sæstrengs

Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.


ref.
Sérfræðiskýrsla samtakanna Orkunnar okkar um orkupakka ESB

Orkulaus náttúruvernd

Jónas Elíasson skrifar (visir.is)

Varaaflsskortur

Jónas Elíasson prófessor

Nú er orkuskortur í landinu og verður viðvarandi næstu 4 – 5 árin að líkum lætur. Kerfið er eins og sjómenn kalla það „á tampi“, varla má bila vél án þess að skerða þurfi orkuafhendingu. Þetta kemur orkufyrirtækjunum ekkert illa. Þeim gefst tækifæri til að loka á þá sem eru á lægstu töxtunum og hækka þannig meðalverðið í sölunni. Þetta er þjóðhagslega óhagkvæmt og slæmt fyrir loftslagið, því jarðefnaeldsneyti kemur í stað hinnar hreinu íslensku orku. Nú þurfa loðnubræðslur að brenna 20.000 tonnum af olíu af því að þær fá ekki rafmagn.

Stjórnvöld hafa í gegn um tíðina þurft að beita töluverðum þrýstingi á orkufyrirtækin til að fá þau til að virkja, jafnvel ríkisfyrirtækið Landsvirkjun dregur lappirnar þegar kemur að því að byrja á næstu virkjun, tólf ár eru síðan byrjað var á síðustu virkjun hefur sá tími ekki orðið jafn langur áður. Einangrað orkukerfi eins og Ísland þarf varafl, en það er uppurið eftir þessi tólf ár. Þetta hefur ríkisstjórnin látið gott heita, nú er frekar treyst á ferðamenn en orkuiðnað til að halda uppi þjóðarbúskapnum, og ekki má gleyma því að gróði orkufyrirtækja er mestur meðan ekkert er byggt. Hinir síblönku félagar, ríkiskassinn og Reykjavíkurborg, hefur lapið upp arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sínum þó þá muni ekkert um þetta lítilræði, án tillits til þess að í orkuskorti tapar þjóðarbúið 10 – 20 földu því verðmæti sem orkan kostar.

Pólitísk uppgjöf fyrir þrýstihópum

Þetta ástand má kalla „de facto“ pólitíska uppgjöf fyrir samtökum í umhverfis og náttúruverndargeira sem búin eru að vera suðandi um skaðsemi allra framkvæmda sem skerða ósnerta náttúru, að þeirra eigin óskeikula mati. Þeir ímynda sér að náttúran eigi um aldur og ævi að vera eins og hún var daginn sem þeir fermdust. Gallinn er auðvitað sá að þeir fermdust ekki allir sama daginn og hvernig á náttúran þá að vera ?

Lestu meira

Mogginn kýlir formann xD kaldan í Orkupakkamálinu

Forysta xD nýkjörin

Úr leiðara MBL 20. febrúar 2022:

Orkukreppa Evrópu – Orkukreppa Evrópu setur orkupakka á rétt ljós

“Formaður Sjálfstæðisflokksins gladdi flest flokkssystkini sín stórlega þegar hann lýsti því yfir, úr ræðustól Alþingis, sem óskiljanlegu rugli, ætluðu menn sér að samþykkja orkupakkamálið.
Flokksmenn voru alls hugar fegnir, og uggðu því ekki að sér fyrir vikið, þegar ekkert reyndist að marka gleðiefnið.
Þetta er eitt af þeim stjórnmálalegu undrum sem ekki hafa verið útskýrð. En það er þó ekki brýnast heldur hitt að snúa af þessari ólánsbraut og lagfæra það sem skemmt var í fullkomnu heimildarleysi af óheilu undirmálsliði.”

Ekki er úr vegi að rifja upp ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 en landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af um tólfhundruð fulltrúum.

Í ályktun Atvinnuveganefndar segir orðrétt: “

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.

Áleitnar spurningar

Úr Staksteinum Mbl 13. nóvember 2021

Á fundi Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál sem haldinn var á dögunum ræddi Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og nú varaþingmaður, um stöðu laga Evrópusambandsins gagnvart íslenskum lögum. Hann benti á að ríkjasambandið ESB stefndi í átt að sambandsríki, en að Pólland og Þýskaland hefðu spyrnt við fótum gagnvart því að lög ESB gengju framar stjórnarskrám þessara ríkja.

Arnar Þór velti síðan upp þeirri spurningu hvort fullveldi Íslands hefði verið skert og sagði: „Þegar við horfum á það að stór hluti löggjafar sem fer í gegnum Alþingi Íslendinga er í rauninni saminn af fólki sem við kunnum engin deili á, sem enginn hefur kosið, við höfum engan aðgang að því að hlusta á umræður um þessi lagafrumvörp, ef það má kalla þetta það þegar það er í fæðingu, við höfum enga, eða að minnsta kosti afskaplega litla möguleika á að tempra það sem þarna er að gerast, hvernig má það þá vera að því sé haldið fram samhliða því að við höfum haldið fullveldi okkar? Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn séu hugsanlega beinlínis að setja fram blekkingar eða slá ryki í augu Íslendinga? Það væri býsna alvarlegt mál frammi fyrir svona mikilvægu atriði eins og innleiðingu erlends réttar og regluverks sem hugsanlega kann að skerða yfirráðarétt Íslendinga gagnvart náttúruauðlindum sínum, samanber umræðuna um þriðja orkupakkann.

Ég spyr: hafa sérfræðingar á þessu sviði verið fullkomlega heiðarlegir? Hafa stjórnmálamenn verið fullkomlega heiðarlegir? Og að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni í þessu samstarfi sem kennt er við EES?“

Hér er hægt að hlusta á erindi Arnars Þórs Jónssonar í heild

Áhrif 3. orkupakka ESB á fullveldi Íslands í raforkumálum

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur skrifar á blog.is:
(tilvitnun úr Staksteinum Mbl 5. nóvember 2021)

Orkuskortur teygir sig til Noregs

Bjarni Jónsson

„Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.

Lesa meira

Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

“Mjög langur vegur er frá því að allar ákvarðanir um mikilvæg mál innan ESB kalli á einróma samþykki. Það á til að mynda ekki við um sjávarútvegsmál.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Telja má nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem enn er krafizt einróma samþykkis ríkja Evrópusambandsins við ákvarðanatöku í ráðherraráði þess. Með hverjum nýjum sáttmála sambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabonsáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þannig heyrir krafan um einróma samþykki innan sambandsins í raun til undantekninga í dag. Ég vakti athygli á þessu í grein í Morgunblaðinu 24. september þar sem ég benti einnig á þá staðreynd að íbúafjöldi ríkja Evrópusambandsins réði mestu um möguleika þeirra til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir væru teknar í ráðherraráðinu og þá einkum þeirra fámennustu. Stærstu ríkin væru hins vegar í algerri lykil- og yfirburðastöðu í þeim efnum vegna fjölmennis. Ég fór enn fremur ítarlega yfir fyrirkomulag Evrópusambandsins í þessum efnum en upplýsingar um það eru til dæmis ágætlega aðgengilegar á vefsíðum sambandsins. Hvet ég lesendur, sem það hafa ekki þegar gert og áhuga hafa, til þess að kynna sér þá samantekt mína.

Fyrri fullyrðing ekki endurtekin

Mér barst nokkru síðar svargrein sem raunar gerði lítið annað en að undirstrika það sem ég hafði bent á í grein minni. Þá einkum og sér í lagi þá staðreynd að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins í ráðherraráði þess eigi aðeins við um fáeina málaflokka. Þannig voru til að mynda einungis tekin dæmi um einróma samþykki tengd þeim fáu málaflokkum þar sem slíks er enn krafizt í ráðinu og síðan fullyrt á þeim grunni, líkt og í fyrri grein höfundar, að engin ákvörðun um mikilvæg mál væri tekin án samþykkis allra ríkja sambandsins.

Continue reading “Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?”

Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

“Hversu fjölmenn einstök ríki Evrópusambandsins eru ræður mestu um möguleika þeirra á að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess.”

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar í Mbl

Hjörtur J. Guðmundsson

Fullyrt var í grein í Morgunblaðinu á dögunum eftir Ole Anton Bieltvedt að innan Evrópusambandsins gætu lítil ríki „stoppað framgang hvaða máls sem er. Til jafns við þau stóru, svo sem Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán. Afstaða þeirra fámennu vegur jafn þungt og afstaða þeirra fjölmennu.“ Þá var því haldið fram að „ekkert stærra mál, stefnumörkun eða samningur“ tæki gildi án einróma samþykkis. Hér er hins vegar ekki farið með rétt mál sem er ekki sízt áhugavert í ljósi þess að skrifin snerust einkum um það að saka aðra um rangfærslur. Fyrir það fyrsta er vert að hafa í huga að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi þess, heyrir nánast sögunni til. Þannig hefur þeim tilvikum, þar sem krafizt hefur verið einróma samþykkis í ráðherraráði sambandsins, fækkað með hverjum nýjum sáttmála þess. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var það afnumið í yfir fjörutíu málaflokkum. Fyrir vikið heyrir einróma samþykki í raun til undantekninga í dag og snýst um fáein málefni. Þar eru sjávarútvegsmál til dæmis ekki á meðal. Kallað hefur verið eftir því að tekin verði frekari skref í þá átt að fækka þeim fáu tilvikum þar sem enn er krafizt einróma samþykkis í ráðherraráði Evrópusambandsins. Meðal annars bæði af framkvæmdastjórn sambandsins og pólitískum forystumönnum í ríkjum þess. Fyrr á þessu ári kallaði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýzkalands, til að mynda eftir afnámi einróma samþykkis í utanríkismálum. Sagði hann nauðsynlegt að Evrópusambandið gæti tekið ákvarðanir í þeim efnum jafnvel þótt einhver ríki sambandsins væru þeim andvíg.

Lesa meira

Ályktun FSF vegna stjórnarmyndunarviðræðna

Frá Félagi Sjálfstæðismanna um Fullveldismál

Ný ríkisstjórn Íslands þarf að takast á við fjölþættan vanda ekki síst vegna þeirra víðtæku áhrifa og þess gríðarlega kostnaðar, sem Covid-19 faraldurinn hefur haft fyrir þjóðarbúið. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gæta þess í stjórnarmyndunarviðræðum og í starfi að hafa ætíð í heiðri ályktanir landsfunda Sjálfstæðisflokksins einkum hvað varðar frelsi einstaklingsins og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Í því sambandi er nauðsynlegt að taka EES samninginn til endurskoðunar á þessu kjörtímabili.

Til þess að Ísland verði raunverulegt land tækifæranna er grundvallaratriði, að borgararnir fái sem mest frelsi til arðsköpunar, skattar verði í lágmarki og auðlindir landsins verði nýttar til arðsköpunar í sátt við eðlileg verndarsjónarmið, þannig að ekki verði gengið á landsins gæði til tjóns fyrir komandi kynslóðir. 

Í stjórnarmyndunarviðræðum  nú er því nauðsynlegt að vikið verði af þeim vegi friðunar nánast allra staða sem bjóða upp á hefðbundna orkunýtingu og hefur leitt til þess að sumir landshlutar búa við ótryggt og óviðunandi ástand í orkumálum. 

Horfast verður í augu við það að aðgerðaráætlun ríkisins í loftslagsmálum stenst ekki og mun stofna til gagnslausra fjárfestinga, sem leggja óbærilegar byrðar á neytendur og atvinnulíf á komandi árum, þannig að ólíklegt er, að Ísland verði ”land tækifæranna” verði henni fylgt eftir. Ísland þarf að öðlast viðurkenningu á framlagi sínu til loftslagsmála, sem felst í málmbræðslu með hreinni orku. Eigi að kaupa losunarkvóta til áframhaldandi iðnaðar á þessu sviði eru orkulindir á Íslandi nánast verðlausar.

Taka verður skipulag heilbrigðismála til gagngerrar endurskoðunar og gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til að nýta þjónustu verktaka og annan einkarekstur til að gera gott kerfi fjölbreyttara, öruggara og betra fyrir þá sem þurfa á þjónustu þess að halda. Hefjast skal strax handa við að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Stórbæta þarf aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustunni. 

Nauðsynlegt er að við nýtum okkur sjávarútvegsauðlindina í meira mæli en gert hefur verið á undanförnum árum. Eftir rúmlega 40 ára ákveðnar friðunaraðgerðir sem hafa ekki skilað þeim árangri, sem til var ætlast er full ástæða til að skoða frekari markaðsvæðingu í sjávarútvegi,  rýmkun aflaheimilda sérstaklega á grunnslóð og aukinn sveigjanleika í úthlutun aflaheimilda.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að móta ákveðna stefnu í næstu ríkisstjórn um nauðsynlegar breytingar til að auðvelda ungu fólki að eignast eigin íbúð án þess að það þurfi að sæta félagslegu skömmtunar- og eða leigukerfi. Sú stefna Sjálfstæðisflokksins, sem var einn hornsteinn félagsmálastefnu flokksins um áratuga skeið, að auðvelda ungu fólki að verða eignafólk er mikilvæg og hana verður að endurvekja m.a. með því að frumkvæði og kraftur unga fólksins verði leystur úr læðingi og sé virkjaður með einstaklingsbundnum lóðaúthlutunum í stað þess að lóðaúthlutanir verði aðallega eða nánast eingöngu til stórra byggingaraðila.

Gæta verður þess, að innflutningur fólks verði ekki óhóflegur, til að komast hjá samfélagslegum óstöðugleika og þeirri hættu að þjóðfélagsgerð okkar raskist í grundvallaratriðum eins og raunin er í ýmsum nágrannalöndum okkar. Gera verður kröfu til þeirra, sem flytja búsetu sína til landsins, að þeir læri íslensku og fái fræðslu um sögu landsins og grundvallaratriði íslenskrar þjóðmenningar.

 Bregðast verður við óhóflegum áhuga erlendra auðmanna til að kaupa jarðnæði og auðlindir á Íslandi með því að skerpa á allri sýn, löggjöf og reglum, sem varða eignarhald á landi og auðlindum. Stjórnvöld þurfa að og að endurskoða lög um auðlindir í jörðu

Á sama tíma og gert verið átak til að tryggja ungu fólki farsæld og góða möguleika í lífinu þá verði brugðist við réttmætum og sanngjörnum kröfum eldri borgara til að  ná því grundvallarmarkmiði lýðræðisþjóðfélags, að sátt verði með kynslóðunum og velferð bæði æsku og elli tryggð með viðunandi hætti. Þá verði þess gætt, að framtak og vinnusemi fólks nýtist samfélaginu, en með því væri stigið skref til þess,  að Ísland verði land tækifæranna. 

Gera þarf stórátak í samgöngumálum, ekki síst á Stór-Reykjavíkursvæðinu og tryggja að íbúarnir hafi frjálst val um þá samgöngumáta sem hentar þeim best.

Tryggt verði að skipulagsákvarðanir og framkvæmdir einstakra sveitarfélaga tefji ekki samgöngur um þjóðvegakerfi landsins óhóflega með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur.

Nýsköpun, framsækni og dugnaður er forsenda velmegunar í samkeppnisþjóðfélagi eins og okkar og Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur íslenskra stjórnmála, sem ber skyldu til þess að einstaklingurinn fái jafnan að sýna það sem í honum býr og njóta eigin arðsköpunar.

Samþykkt á stjórnarfundi Félags sjálfstæðismenna um fullveldismál haldinn í Valhöll þ. 9. október 2021