Áleitnar spurningar um orkupakka

Ólafur Ísleifsson skrifar í Mbl:

Fjórði orkupakkinn sem inniheldur endurskoðun á helstu þáttum í orkulöggjöf ESB var samþykktur af Evrópuþinginu og ráði Evrópusambandsins í lok maí 2019. Reglugerðir og tilskipanir fjórða orkupakkans voru birtar í Stjórnartíðindum ESB sumarið 2019. Pakkinn tók við af þriðja orkupakka ESB en er víðtækari og nær til ákvarðana um endurnýjanlega orku, orkunýtni og slíkra þátta. Reyndar sýnist feimnismál að tala um fjórða orkupakkann og er hann af hálfu stjórnvalda kallaður hreinorkupakkinn, kannski í fegrunarskyni. Þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi 2. september 2019. Hann var umdeildur og lagðist ekki vel í þjóðina. Framganga stjórnvalda á þeim tíma vekur spurningar um upplýsingar af þeirra hálfu til Alþingis um lagabreytingar innan ESB á sviði orkumála.

Greining sérfræðinga á þriðja orkupakkanum

Ítarleg lögfræðileg greining af hálfu lagasérfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar sem fylgdi þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar hafði vissa sérstöðu m.a. vegna samskipta þeirra og utanríkisráðuneytis meðan á samningu álitsins stóð. Þeir lýstu tveimur leiðum en lakari kosturinn að þeirra dómi var valinn af hálfu stjórnvalda. Megintillaga Friðriks Árna og Stefáns Más var að Ísland færi fram á undanþágu frá tveimur tilgreindum reglugerðum í orkupakkanum í heild, m.a. á þeirri forsendu að á Íslandi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa. Reglugerðirnar ættu því ekki við um aðstæður hér á landi. Hin tillagan var að setja lagalegan fyrirvara við samþykkt pakkans. Á fundi utanríkismálanefndar í ágúst 2019 sagði annar höfunda þetta næstbesta kostinn, sem skilja verður sem lakari kostinn af tveimur. Viðurkenndir lögfræðingar sögðu hinn lagalega fyrirvara haldlausan að þjóðarétti og aðeins til heimabrúks.

Áframhald af greininni

Vatn eða vindur?

Loftur skrifar:

Það blæs ekki byrlega fyrir flokksskútunni sem hvergi fer með himinskautum. Vegferð ríkisstjórnarinnar er að auki afar óljós enda hallærisstjórn með Maddömuna innanborðs og villuráfandi sósíalista í stafni. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.
(gæti verið tilvitnun í frétt á RÚV).

Vandamál flokksins kristallast ekki í formanninum einum heldur frekar í forystu hans, sem gefur grunngildum og stefnu flokksins langt nef og virðir ályktanir Landsfundar að vettugi.

Flokkurinn er orðinn að ólýðræðislegum, Evrópusinnuðum neó-sósíalískum krataflokki þar sem grasrótin er hundsuð, peningum skattborgara dælt í flokkinn og stefnan tekin á Brussel og þangað skal teygja orkupakkaorminn langa í nafni „loftslagsmála og orkuskipta“. Skítt með almúgann sem vel hefur efni á að borga ESB-verð fyrir raforkuna eins og ríku frændur okkar í Noregi. Við verðum jú að bjarga heiminum (og fjárfestum).   

Yrði nýr formaður, sem vill koma upp vindtúrbínuþyrpingum á hverjum hól skárri valkostur en sá sem vill virkja hverja smásprænu? Allt í nafni Hvítbókar, Grænbókar, samkeppnisreglna og orkupakka ESB?

Hvort er skárra vatn eða vindur?  

Sverð á sal Alþingis

Loftur skrifar:

Viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ritar ágæta grein um sjálfstæði Íslands í orkumálum í Mbl. þ. 29. október 2022. Þar segir hún m.a.: „Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið…“

„Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu.“

Svo mörg voru þau orð. Ráðherrann dregur einnig upp myndlíkingu þar sem sverð Damóklesar hangir yfir ESB m.a. vegna skorts á gasi frá Rússlandi. Svokölluð „gaslýsing“ (e.gaslighting) er reyndar algeng í viðtölum ráðherra við almúgann. Þeir svara stundum spurningum með lærðum frösum: „Þú verður að kynna þér málið!“ eða: „Þú hefur ekki lesið alla skýrsluna!“ o.s.frv. Spurning vaknar hvort ráðherrann hafi lesið alla söguna um hirðmanninn Damókles sem lofsöng hamingju Díonýsíosar konungs vegna auðs hans og valda. Konungur gerði hirðmanninn að eins konar umskiptingi þar sem þeir skiptu um hlutverk en á móti hengdi konungurinn sverð hans fyrir ofan hásætið og festi með einu hrosshári.

Slíkir umskiptingar eru algengir á Alþingi Íslendinga þar sem ráðamenn lofa og prísa EES-samninginn og sjálfstæði og fullveldi Íslands í skálaræðum á kvöldin en á daginn vinna þeir sleitulaust að því framselja yfirráðin yfir auðlindum landsins til ESB með grófri misnotkun á EES-samningnum og brjóta með því stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Mun ráðherrann t.d. samþykkja innleiðingu fjórða orkupakka ESB í íslensk lög eins og þann þriðja?

EES-samningurinn er orðinn að sverði Demóklesar sem nú hangir yfir ræðustóli Alþingis á þunnu hrosshári, líklega úr hálfdauðri blóðmeri.

Hvers vegna skiptir sjálfstæði máli fyrir ríki og þjóðir?

Kári skrifar:

Áfram Ísland!

– Fullveldi –

Sagan geymir mörg dæmi af átökum um landamæri, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hægt er að fjalla um þessi mál út frá heimspeki, félagsfræði eða lögfræði eða jafnvel blöndu af þessu þrennu [þverfagleg umfjöllun]. Við stjórnun ríkja virðist tvennt koma til álita: að stjórnun þeirra sé á innlendum forsendum, og þau undir innlendri stjórn, [i] eða að stjórnunin sé á erlendum forsendum og ríkin lúti erlendri stjórn. Þetta má þrengja niður í eina spurningu: hverjir ráða?

Þessi mál hafa bæði „macro-vídd“ [ríki meðal ríkja] og „micro-vídd“ [þegnar ríkja]. Þegar rætt er um sjálfstæði ríkja (macro) er átt við rétt þeirra gagnvart öðrum ríkjum [stöðu í „alþjóðasamfélagi“]. En viðfangsefnið hlýtur einnig að snúast um stöðu þegnanna innan hvers ríkis (micro). Flestir líta svo á að einstaklingar eigi að njóta sjálfstæðis og geta tekið ákvarðanir sem þá sjálfa varða miklu. Það má kalla „einstaklingsbundið fullveldi“.

Fólk getur t.a.m. stundum valið um „trúleysi“ eða að rækta ákveðna trú [trúfrelsi], að leggja deilumál sín fyrir dómstóla, hvar það vill búa [eða flytja til annars ríkis] o.s.frv. Með öðrum orðum, fólk hefur þá, að minnsta kosti að nafninu til, mannréttindi [margir njóta þó engra mannréttinda].

Eðlilegt þykir að fólk beiti þessum réttindum sjálft enda ganga þekktar kenningar [náttúruréttur] í heimspeki út frá því að fólk fæðist með ákveðin réttindi sem ekki verði af því tekin. Greinarhöfundur þekkir engin dæmi þess að fólk vilji framselja mannréttindi sín til annarra og fela þeim, fyrir sína hönd, að ákveða trúarafstöðu, búsetu eða hvað annað. Flestir vilja ráða sínum málum sjálfir. En þegar kemur að ríkjum og stjórnun þeirra er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þá vilja sumir afsala sér innlendu valdi og fela erlendum stjórnvöldum, t.d. innan Evrópusambandsins, að stjórna eigin málum. Í því felst vissulega ákveðin þversögn.

Fullveldi ríkja og einstaklinga tvinnast saman. Ákvarðanir sem t.a.m. eru teknar innan Evrópusambandsins hafa síðan víðtæk áhrif á borgara ríkjanna sem í hlut eiga og kunna jafnvel að ógna mannréttindum borgaranna. Þar má t.d. nefna takmarkanir á tjáningarfrelsi [ritskoðun] og hvernig sífellt er reynt að stimpla skoðanir þeirra sem ekki fylgja valdinu sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Raunverulega óreiðan er hins vegar af völdum fólksins sem þannig talar. Dæmi um það er að miklu leyti sjálfsköpuð orkukreppa í Evrópu. Þar er mikil óreiða, mynduð af „óreiðufólki“ innan Evrópusambandsins [sérstaklega í framkvæmdastjórninni]. Rökrétt framhald af tali „óreiðufólksins“ um „hatursorðræðu“ væri að stofna sérstakan dómstól um „réttar“ og „rangar“ skoðanir sem áður yrðu útfærðar í reglugerðum og tilskipunum. Slíkur dómstóll yrði banabiti lýðræðisins sem þó er orðið mjög laskað fyrir. Tjáningarfrelsi, án ritskoðunar, er meginforsenda lýðræðis.

Áframhald af greininni

AFSAL Á STJÓRNUN AUÐLINDA OG AUÐLINDUNUM SJÁLFUM – Orkupakkar ESB

Kári skrifar:

Nei við ACER!

Reglan um varanlegt fullveldi fólks og ríkja yfir náttúruauðlindum tók að festast í sessi, sem ný regla í alþjóðarétti, eftir lok seinni heimsstyrjaldar, eða eftir 1945.[i] Ályktanir og ákvarðanir eru formleg tjáning á skoðunum eða vilja innan stofnana Sameinuðu þjóðanna. Margs konar ályktanir um fjölbreytileg efni hafa verið samþykktar af helstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnunum þeirra frá stofnun árið 1945.[ii]

Almennt er litið svo á að ályktanir og samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt VII. kafla stofnsáttmála þeirra, séu bindandi í samræmi við 25. grein sáttmálans. En fræðimenn greinir á um lagalegt gildi annara ályktana og samþykkta.[iii] Þá er eftirfylgni [enforcement] oft háð sömu annmörkum og margt annað í alþjóðakerfinu.

Árið 1962 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun 1803,[iv] um fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum sínum. Í 1. gr. ályktunarinnar segir: „Rétti fólks og þjóða til varanlegs fullveldis yfir náttúruauðæfum sínum og auðlindum verður að beita í þágu innlendrar þróunar og velferðar almennings í hlutaðeigandi ríki.“[v]

Nú ber hins vegar svo við að íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir, ólmast við að koma íslensku fullveldi yfir auðlindum, og fullveldinu almennt, undir erlenda stjórn. Til þess hafa þeir m.a. keypt álit, frá misjafnlega vel jarðbundnu fólki, sem segir ekkert að óttast – að bæði sé hægt að gefa frá sér hlut en þó eiga hann áfram. Það má kalla lögfræðilega tvíhyggju. Mótsagnarlögmál rökfræðinnar gildir ekki hjá þeim álitsgjöfum sem þannig tala.

Fullveldisrétturinn

Sumir ráðherrar eru svo óforskammaðir að tala um það í eldhúsdagsumræðum að þjóðin hafi enn fulla stjórn á eigin auðlindum, enda þótt við blasi að sömu ráðherrar stóðu einmitt sjálfir að framsali stjórnunar þeirra úr landi með innleiðingu orkupakka þrjú. Slík er ósvífni og ófyrirleitni þessa fólks. Það lætur enn eins og ákvarðanir þess hafi engin áhrif, beitir sífelldum blekkingum og reynir að afvegaleiða kjósendur. Innleiðing orkupakka þrjú felur í sér afsal fullveldisréttar yfir íslenskum orkuauðlindum, einkum til ACER, orkustofnunar Evrópu, en þar liggur þó mun meira undir. Enn fyrirfinnst fólk sem annað hvort skilur ekki eða vill ekki skilja þetta. Það birtist svo í pontu Alþingis og talar þar eins og álfur út úr hól.

Áframhald af greininni

Höldum í heiðri fullveldi okkar í orkumálum Íslands. Hugsum sjálfstætt!

Elinóra Inga Sigurðardóttir:

Umsögn til Alþingis um 777. mál, þingsályktunartillaga, 149. löggjafarþings: Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (25. apríl 2019)

„Játast aldrei undan því sem vér vitum að er réttur í þessu landi og réttur þessa lands:
Það er sjálfstæði.“

Halldór Laxness, 1. desember 1955 (ref.1)

Ágæti alþingismaður
Í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins stendur Alþingi Íslendinga frammi fyrir þeirri erfiðu
ákvörðun hvort afsala skuli yfirráðum landsmanna yfir einni helstu auðlind landsins, orkuauðlindinni og þeirri afurð sem er henni nátengd, raforkunni til erlends ríkjasambands.

Elinóra Inga Sigurðardóttir

Í ljósi 100 ára afmæli fullveldis Íslands er þetta illskiljanlegur harmleikur. Hvað rekur ráðamenn þjóðarinnar til að fremja slíkt spellvirki? Ljóst er, að vissir stjórnmálaflokkar hafa lengi barist fyrir innlimum Íslands í Evrópusambandið (ESB), sem er ríkjasamband 28 aðildarlanda, sem telja yfir 300 milljón manna. Þingmenn þessara flokka hafa róið að því öllum árum að innlima Ísland í ESB með öllum þeim fórnum sem því myndi fylgja. Það er því skiljanlegt út frá þeirra sjónarhorni að þeim þyki sjálfsagt að taka þátt í þeim fórnardansi, sem afsalar okkur yfirráðum yfir orkuauðlindinni, sem og öðrum auðlindum svo sem fiskimiðunum. ESB er ekki alþjóðleg stofnun og hefur ekkert með alþjóðasamvinnu að gera, eins og stundum er haldið ranglega fram.

Hitt er hins vegar algjörlega óskiljanlegt, hvers vegna það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú hafa frumkvæðið að slíku framsali. Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skildi hafa að leiðarljósi. Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum. Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði:

Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.”

Áframhald af greininni

Alþingi Íslendinga átti ekki að samþykkja 3. orkupakka ESB!

„For years many people remained at home, unaffected, continuing to do what they had always done. Then … bombs and mines suddenly exploded everywhere, buildings collapsed, and the streets were full of rubble, soldiers, and refugees. Soon, no one was left who could pretend it wasn’t happening …“
Natalia Ginzburg í Family Lexicon

Arnar Þór Jónsson

Arnar Þór Jónsson lögmaður, f.v. héraðsdómari og núverandi 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins ritar á Facebook síðu sína þ. 11. september 2022:

,,Af hverju tala þau við mig eins og ég sé kjáni?” hugsaði ég sem barn þegar fullorðið fólk vék sér undan að svara viðkvæmum spurningum. Öllum er ljóst að við eyðum ekki vanda með því að eyða talinu. Nú er ég orðinn of fullorðinn til að láta tala við mig sem barn. Þetta rifjast upp þegar ég les ummæli sérfræðinga / embættismanna / stjórnmálamanna um orkumál og hugsanleg áhrif sæstrengs á raforkuverð á Íslandi. Börn geta skilið hvaða áhrif slík tenging mun hafa á raforkuverð innanlands. Öllum má sömuleiðis vera morgunljóst að ákvörðunarvald um slíkan streng hvílir ekki lengur aðeins í höndum Íslendinga. Enn vill fólk þó afneita því að þetta séu afleiðingar þess að Alþingi samþykkti innleiðingu þriðja orkupakka ESB árið 2019. Þverpólitísk samstaða skapaðist, utan Alþingis, um að forða Íslendingum frá því að festa sig að óþörfu í þessum orkupakkasnörum. Á það var ekki hlustað. Stórpólitískt mál um þjóðarhagsmuni var skrumskælt sem flokkspólitískt smámál. Þetta minnisblað svarar ekki öllum spurningum, en það er púsl í heildarmyndina sem margir vilja enn ekki sjá. Ég hef ekki birt þetta áður hér á FB, en því miður er full ástæða til að vekja athygli á innihaldi þess. Við getum ekki lokað augum og eyrum fyrir þeim vanda sem blasir nú við nágrannaþjóðum okkar. Varla viljum við fara sömu leið, eða hvað?

Með þessari færslu sinni birtir hann í fyrsta sinn eftirfarandi minnisblað sitt vegna fundar í utanríkismálanefnd Alþingis hinn 16. ágúst 2019 um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES- samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál:

Minnisblað þetta er ritað eftir móttöku fundarboðs utanríkismálanefndar 14. ágúst 2019, þar sem undirritaður er boðaður á fund nefndarinnar 16. ágúst 2019. Í fundarboðinu kemur fram að á fundinum verði til umfjöllunar „tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn), 777. mál.

Um leið og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða við þingmenn um hinn svonefnda þriðja orkupakka ESB (O3) skal tekið fram að ég rita þessar línur að eigin frumkvæði, án utanaðkomandi þrýstings eða fyrirmæla og án þess að hafa þegið nokkra greiðslu fyrir þessi skrif né heldur fyrir framlag mitt til almennrar umræðu um málefnið sem hér um ræðir.

Áframhald af greininni

Orkupakkar og orkustefna

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is) skrifar pistil á Mbl.is:

Vatnsaflstöð við Búrfell

Um alla vestur Evrópu kvíðir fólk vetrinum í kjölfar hitasumars. Við blasir að orkukostnaður hefur farið upp úr öllu valdi síðan stríðið í Úkraínu hófst og Vestur-Evrópa var gripin í bólinu með orkustefnu sína. Allt á þetta samhljóm í umræðunni um þriðja orkupakkann sem varð fyrirferðamikil hér á tímabili. Samhæfðir markaðir með orku hefðu átt að henta Vestur-Evrópu en gera það ekki í þessu ástandi, orkuverð fer upp úr öllu valdi, almenningur þjáist og Íslendingar geta þakkað fyrir að vera ekki hluti af þessum markaði. En er rekinn áróður í nafni EES samningsins um að gera Íslendinga hluta af þessu fyrirkomulagi með lagningu sæstrengs. Eitt af helstu markmiðum orkustefnu ESB er að koma á tengingum á milli orkusvæða (landa).

Í Evrópu eru nú sagðar hryllingssögur af orkuverðshækkunum og í Bretlandi eru komnir af stað undirskriftalistar þar sem fólk hótar að hætta að greiða orkureikninga og krefja stjórnvöld um aðgerðir. Íslendingar með tengsl út í Evrópu segja af þessu sögur í spjalli sín í milli. „Ég heyri frá vinafólki sonar míns að hitakostnaður fyrir frekar litla íbúð í London hafi meir en fjórfaldast á góðu ári (úr 60 pundum í 260 á mánuði),“ sagði einn netverjinn í vikunni. Sighvatur Bjarnason, sem rekur fyrirtæki í Lettlandi, sagði að rafmagnskostnaður í hans fyrirtæki þar í landi hefði í heild verið 252,6% hærri en á síðasta ári. „Í dag þurfum við að hættra framleiðslu kl 17:00 vegna þess að frá kl 18 til 19 fer kostnaðurinn í 4 EUR á KW.“ Hann lýkur orðum sínum með eftirfarandi ályktun: „Það er skynsamlegra fyrir Ísland að ganga úr EES en að missa yfirráðin yfir orkuauðlindunum. Þetta er það sem koma skal og mun eingöngu versna.“

Orkuverið í Svartsengi

Orkufrek starfsemi í samdrætti

Víða í Evrópu er verið að draga saman raforkufreka framleiðslu og í sumum tilvikum hefur iðnaðarframleiðsla stöðvast eða reynt að bregðast við á annan hátt. Orkufrek framleiðsla er keyrð á næturnar þegar orka er að jafnaði ódýrari en það hefur mikil óþægindi í för með sér fyrir starfsfólk og launakostnaður eykst á móti. Engin vill þurfa að búa við það til framtíðar og augljóslega hefur ástandið áhrif á landsframleiðslu viðkomandi landa.

Stjórnvöld hafa víða þurft að bregðast harkalega við og norska Stórþingið var kallað inn úr sumarleyfi vegna hins skelfilega ástands í raforkumálunum sem þar hefur ríkt. Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (Agency for the Cooperation of Energy Regulators, skammstafað ACER) hefur núna yfirstjórn yfir allri raforkunni þar í kjölfar þess að Norðmenn hafa tengt sig innri markaði, meðal annars í gegnum sæstrengi, og það er lítið sem norsk stjórnvöld hafa að segja um það fyrirkomulag. Uppistöðulónin eru við það að tæmast og vegna hins himinháa verðlags á raforkunni þarf að niðurgreiða hana hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjunum. Um leið eru Svíar eru að kikna undir háu raforkuverði í Suður-Svíþjóð sem er tengt raforkukerfi ESB.

Kaldur vetur eða breytt stefna

Já, það er eðlilegt að það sé þungt yfir mönnum í þessu ástandi. Við Íslendingar eru orkuframleiðendur og fáum nú hærra orkuverð út úr samningum sem tengdir eru heimsmarkaðsverði á meðan almennir neytendur verða ekki varir við miklar breytingar.

Allt þetta kallar á viðbrögð þó ólíklegt sé að unnt verði að bjarga vetrinum. Þjóðverjar viðurkenna núna að hafa gert afdrifarík mistök í stefnumótun sinni í orkumálum undir stjórn Angelu Merkel eins og kemur fram í Morgunblaðinu í vikunni. Evrópusambandið hefur breytt skilgreiningum á kjarnorku og jarðgasi, með þegjandi samþykki umhverfisverndarsinna, til að auðvelda notkun þessara orkugjafa eins og bent hefur verið á hér. Þjóðverjar reyna að finna leiðir til að halda kjarnorkuverum sínum opnum eða opna þau á ný. Það er tímafrekt að snúa við stefnunni.

Finnar hafa ákveðið að reisa nýtt 1600 MW kjarnorkuver, Olkiluoto 3. Finnskir fjölmiðlar segja að líkindi til þess að fjárfestingin verði öll endurgreidd á innan við áratug, miðað við orkuverð núna, það sýnir arðsemi fjárfestingarinnar. Það þarf ekki að taka fram að þetta er mjög jákvætt fyrir koltvísýringsbúskap Finna.

Arðsömustu fjárfestingar Íslendinga

Rætt er um að kjarnorkuver eins og Olkiluoto 3 geti framleitt rafmagn í 60 ár. Afskriftartími vatnsorkuvera eins og við eigum er í raun endalaus, mest af mannvirkjum, svo sem stöðvarhús, skurðir og stíflur geta enst marga mannsaldra og haldið áfram að skila hreinni og ódýrri orku. Þetta er staðreynd sem Landvernd er eð reyna að snúa út úr. Við Íslendingar höfum enn tækifæri til að styrkja orkubúskap okkar og reka hann svo að hann styðji við atvinnulíf, íþyngi ekki heimilum landsins og færi ríkissjóði mikilvægar tekjur. Það er öfundsverð staða.

https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/2281705/

ESB – áróður á RÚV

Einu sinni enn

Staksteinar MBL 0104022
(ekki aprílgabb!)

Útvarp allra landsmanna?

Örn Arnarson ritaði meðal annars um umræðuþætti Ríkisútvarpsins í fjölmiðlarýni sinni í
Viðskiptablaðinu í gær. Þar nefndi hann tvö dæmi frá liðinni helgi þar sem málefni voru til umræðu en einungis fulltrúar annarrar hliðarinnar á staðnum.

Á Rás 1 var í Vikulokunum rætt um aðild Íslands að Evrópusambandinu „en nánast allur þátturinn snerist um af hverju þau mál öll sömul væru ekki nú þegar til lykta leidd. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þáttastjórnandi og formaður Blaðamannafélagsins, fékk til sín þrjá yfirlýsta stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar til að ræða málið í þættinum. Þetta voru þau Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar og stjórnarformaður í samtökunum Já Ísland sem hafa barist fyrir aðild að ESB, og svo Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar.“

Örn rakti umræðurnar stuttlega og með ólíkindum er að lesa lýsingar hans á einhliða og undarlegum umræðum í þættinum. Óhætt er að mæla með að lesendur kynni sér þau skrif í Viðskiptablaðinu.

Ríkisútvarpið er rekið fyrir skattfé, auk auglýsinga, og skattinn greiða bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar að ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta hlutleysis í umfjöllun. Því miður eru þrátt fyrir það fjölmörg dæmi til um einhliða áróður RÚV, Útvarpi allra landsmanna eins og glöggt kom fram verðandi 3. orkupakka ESB og enginn vilji virðist vera innan stofnunarinnar til að laga það. Nema síður sé.

Fréttablaðið er úti á gangi

Loftur skrifar

Það er ekki bæði sleppt og haldið“ tönglast ESB-sinnar gjarnan á í umræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB). Draumur ESB-sinna er að ganga að fullu inn í regluverk ESB með öllu sem því fylgir. „Það er betra að sitja við borðið en úti á gangi“ er viðkvæðið. „Borðið“ er hins vegar svo stórt og á því liggja svo mörg flókin skjöl á útlensku að ESB-sinnarnir virðast hvorki hafa tíma né kunnáttu til að kynna sér efni skjalabunkanna til hlítar. Það vekur því litla furðu þegar fulltrúar ESB-flokkanna á Íslandi (sbr. leiðara Fréttablaðsins 19. mars 2022) sem hafa verrið óþreytandi við að hvetja til inngöngu í ESB í öðru orðinu skuli með hinu hvetja til niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda. Hmmm…?. Eru þeir ekki í raunveruleikatengslum?

Raforkuverð í Evrópu

Verð á raforku í ESB, sérstaklega vistvænni raforku, er í dag umtalsvert hærra en á Íslandi og mun hækka enn meira á komandi árum. Orkupakkar ESB gera ráð fyrir tengingu raforkukerfa á milli landa. Því má vera ljóst að þegar raforkukerfi Íslands verður tengt við raforkukerfi ESB muni raforka frá Íslandi flæða til Evrópu þar til skilaverð til framleiðenda á raforku til innanlandsnota er orðið því sem næst jafnt því sem þeir fá fyrir sölu raforku til Evrópu. Þetta mun hafa geigvænlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland þar sem raforkuverð á Íslandi mun þá hækka bæði til fyrirtækja og heimila.

Niðurgreiðslur á raforku óheimilar í ESB

Framleiðendur raforku myndu ekki vilja ótilneyddir selja raforku á lægra verði til sumra notenda en annarra. Þar að auki myndi slíkt flokkast undir markaðsbrenglandi niðurgreiðslur og/eða verðmismunun sem er óheimil samkvæmt EES-ESB reglum. Innlendir raforkunotendur myndu stórtapa á samtengingunni við orkumarkað ESB. Búast má við að raforkunotkun á Íslandi myndi minnka vegna hækkandi orkuverð þar sem lágt orkuverð er forsenda ýmiss konar starfsemi. Ætla má að það sé einkum í tiltölulega orkufrekum iðnaði miðað við framleiðsluverðmæti eins og t.d. í ylrækt, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjum, rekstri gagnavera og svo auðvitað í svokallaðri stóriðju. Atvinnutækifærum sem byggjast á raforku mun þá fækka að sama skapi.

Áhrif sæstrengs

Samtenging íslensks raforkumarkaðs við evrópskan mun leiða til aukinnar raforkuframleiðslu á Íslandi þar sem raforkuframleiðendur geta þá selt mun meira magn en áður og á mun hærra verði. Þetta mun skapa þrýsting á að virkjað verði meira (vatnsföll, jarðhita og vindorka) til að mæta eftirspurninni í Evrópu. Samkvæmt bæði grunnreglum og sértækum reglum ESB skulu markaðsöflin ráða. Því er að öðru jöfnu óheimilt að hindra virkjanir og banna lagningu sæstrengja ef einkaaðilar vilja leggja í slíkar framkvæmdir. Slíkt myndi að öðru jöfnu flokkast undir skaðlegar markaðshindranir. Á þessu munu orkuframleiðendur hagnast því eftir samtenginguna geta þeir selt meira orkumagn á hærra verði. Hins vegar munu notendur raforku innanlands tapa verulega vegna hærra orkuverðs og hefur samtengingin (sæstrengur) því í för með sér breytta tekjudreifingu milli framleiðenda og notenda raforku. Ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir hefur greinilega ekki kynnt sér alla skýrsluna. Íslenskir ólígarkar og rafgreifar bíða nú hins vegar spenntir eftir 4. orkupakka ESB.


ref.
Sérfræðiskýrsla samtakanna Orkunnar okkar um orkupakka ESB