Allt stendur og fellur með því að okkur takist sem samfélagi, foreldrum og vinum, að vinna að réttu og heilnæmu marki.
Arnar Þór Jónsson skrifar í Mbl:
Í dag lýkur prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Kjósendum gefst tækifæri til að nýta lýðræðislegan rétt sinn og velja fólk til að skipa sigurstranglegan framboðslista í alþingiskosningunum nk. haust. Með framboði mínu vil ég vekja athygli á nauðsyn þess að Íslendingar virki það lýðræðislega afl sem í þeim býr og gerist virkari þátttakendur í lýðræðislegri umræðu. Með því móti styrkist hin nauðsynlega gagnvirkni lýðræðis og löggjafar. Ein helsta áskorun Alþingis og íslenskra stjórnmála nú er að snúa af braut valdaframsals, þannig að íslenskir kjósendur og kjörnir fulltrúar þeirra á Alþingi ráði þeim lögum sem hér gilda. Doði og andvaraleysi má ekki verða til þess að staða Íslands veikist í bráð og lengd. Láti menn sig dreyma um einhvers konar sjálfvirkt stjórnarfar, þar sem lög og réttur verða til sjálfkrafa og umræðulaust, jafnvel með póstsendingum að utan, verða menn að gera sér grein fyrir því gjaldi sem slíkt þátttöku- og gagnrýnisleysi hefur í för með sér. Hér stöndum við frammi fyrir alvarlegum álitaefnum: Hvernig fer fyrir þjóð sem fær litlu eða engu ráðið um hvernig málum hennar er stjórnað? Hvers vegna ætti slík þjóð að sýna stjórnmálum og lýðræði nokkurn áhuga? Hvernig getur þjóð, sem ekki stjórnar eigin málum, tryggt það að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart henni? Og hvernig getur þjóð í þeirri stöðu tryggt að lögin taki jafnt til allra og að menn séu ekki sviptir mannréttindum ef þau réttindi eru talin ógna hagsmunum ráðandi afla? Hvernig getur valdalaus þjóð varið hagsmuni sína, tilveru og réttindi?
Eins og málum er nú komið er raunveruleg hætta á að Íslendingar sogist inn í vítahring, þar sem inntakslaus ásýndarstjórnmál drepa niður áhuga fólks á lýðræðinu og stjórnmálunum. Ég býð mig fram til að vinna gegn slíkri öfugþróun, þ.m.t. að andæfa því að vald íslenskra kjósenda sé í síauknum mæli framselt úr landi til erlendra embættismanna sem svara ekki til ábyrgðar gagnvart Íslendingum og hafa enga hollustuskyldu gagnvart okkur sem hér búum né nóga þekkingu á okkar högum. Hér þarf að leiða vitundarvakningu um þessi mál. Það verður ekki gert nema með umbótum í menntamálum, þ.m.t. með því að styrkja grundvallarfærni, s.s. lestur, skrif og reikning, auk þess að hvetja fólk til gagnrýninnar hugsunar. Gæfa Íslands, nú sem fyrr, býr í dugmiklu, vinnusömu og þrautgóðu fólki. Með samtakamætti getum við sett okkur raunhæf markmið í mennta-, heilbrigðis- og atvinnumálum. Allt stendur og fellur með því að okkur takist sem samfélagi, foreldrum og vinum, að vinna að réttu og heilnæmu marki. Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og grunnstoð í lífi sérhvers manns. Hlutverk fjölskyldunnar er að móta, vernda og uppfræða. Fjölskyldan grundvallast á gagnkvæmri skuldbindingu. Þar lærum við að þekkja þá ábyrgð sem fylgir því að vera frjáls manneskja. Sem mæður og feður, ömmur og afar, dætur og synir lifum við í tengslum við annað fólk. Þessi tengsl leggja á herðar okkar alls kyns skyldur og skuldbindingar, sem þó eru einnig uppspretta okkar dýrmætustu gleðistunda. Í þessu felst að við lifum þannig að við leitumst við að blómstra og hjálpa öðrum til að blómstra. Innihaldsríkt líf í þessum skilningi snýst um þjónustu og verðug markmið. Ég býð mig fram til þjónustu til að vinna að slíkum – lýðræðislega ákvörðuðum – markmiðum.
Höfundur sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SVkjördæmi 10.-12. júní nk