Borið hefur á því að stjórnmálamenn missi allan mátt þegar kemur að efnislegri umræðu um fullveldið í framkvæmd og rjúfi jafnvel svardaga sinn.
Viðar Guðjohnsen skrifar í Mbl
Skattborgarar gengu til kosninga með blendnum tilfinningum þetta árið. Litlu var þeim lofað öðru en óumbeðinni sjálfskuldarábyrgð á annars ábyrgðarlausu fjáraustri stjórnmálamanna. Hvorki fréttamenn né frambjóðendur veittu því athygli að því sem einn fær án þess að vinna fyrir þarf einhver annar að vinna fyrir án þess að fá.
Þjóðin andar léttar
Við íhaldsmenn unnum ekki neina sérstaka sigra á kjördag. Þó má anda léttar því öfgaumrótið var á síðustu dögunum fyrir kosningar komið í örskotslengd frá allsherjarvaldinu. Ef það ætti að velja einn hugmyndafræðilegan sigurvegara í þessum kosningum þá væri það okkar ástkæra lýðveldisstjórnarskrá sem ávallt vakir og verndar. Þau öfl sem vildu henni illt skruppu saman og urðu undir. Aðförin að henni var brotin á bak aftur og vonandi er þeim hildarleik að fullu lokið. Píratar töpuðu fylgi. Það er fagnaðarefni. Sósíalistaflokkurinn með sína eymdarstefnu komst ekki inn á þing sem er annað fagnaðarefni. Jafnaðarmenn sitja að sama skapi eftir með sárt ennið og náðu ekki einu sinni tíund atkvæða. Þetta er ljósið í myrkrinu.
Málefnaþurrð og meðvirkni
Sú staðreynd að átta þingflokkar skipa komandi þing er alvarlegur áfellisdómur um forgangsröðun stjórnmálamanna og þeirra innihaldslausu slagorðastjórnmál sem færst hafa í aukana síðustu ár. Það skýrir að einhverju leyti niðurstöðuna að nánast ekkert er rætt um það sem máli skiptir; svo sem hvernig menn sjá fyrir sér Ísland og íslensku þjóðina eftir aldarfjórðung. Sumir stjórnmálamenn virðast ekkert gefa því gaum eða setja sig sérstaklega á móti því að þjóðinni sé skipt út, að undan henni sé selt sjálft landið og auðlindir þess eða að stefnan í mikilvægustu málaflokkunum sé ákveðin af erlendum þrýstihópum sem ekkert þekkja til íslenskra landshaga.
Í átt til nýrrar ánauðar
Framboð á jarðnæði er takmörkuð og viðkvæm auðlind. Bændaánauðin ætti að vera okkur Íslendingum víti til varnaðar í þeim málum. Breti nokkur kemst af og til í fréttirnar fyrir þær sakir að hann er stærsti landeigandi á Íslandi. Hefur hann nú, í það minnsta að eigin sögn, loksins látið staðar numið eftir að hafa keypt yfir hundrað þúsund hektara á Íslandi. Það jafngildir einum hundraðshluta af landinu öllu. Þetta gerði hann fyrir smámynt í öðrum vasa en eignir hans eru metnar á um fjögur þúsund milljarða. Þetta er nefnt til þess að fólk átti sig á hversu háar fjárhæðir eru í spilunum og hversu alvarleg staðan er orðin fyrir Íslendinga sem langar að eignast landspildu. Það er nefnilega verið að setja okkur Íslendinga í ósigrandi samkeppni við erlent auðvald um jarðeignir í okkar eigin landi. Það segir sig sjálft að okkar fámenna og saklausa þjóð verður alltaf undir í slíkri samkeppni.
Frjáls þjóð í frjálsu landi
Varðstaða um sjálfstæði ríkisins út á við telst frumhlutverk allra sem aðkomu hafa að ríkisvaldinu. Stjórnmálamenn vinna meðal annars drengskaparheit að stjórnarskránni þegar þeir setjast á þing. Það gera forseti, ráðherrar og aðrir embættismenn einnig. Á vefsíðu Stjórnarráðsins er þessari heitstrengingu lýst sem trúnaðar- og hollustuskyldu við þann grundvöll sem stjórnskipun ríkisins er reist á og felur í sér loforð um að virða hana á kjörtímanum. Þetta er með öðrum orðum loforð valdhafa til þjóðarinnar um að verja okkar allra dýrmætustu réttindi; meðal annars okkar stjórnskipulega frelsi sem Bjarna heitum Benediktssyni varð svo tíðrætt um og tók okkur Íslendinga svo langan tíma að endurheimta. Borið hefur á því að stjórnmálamenn missi allan mátt þegar kemur að efnislegri umræðu um fullveldið í framkvæmd og rjúfi jafnvel svardaga sinn. Icesave og orkupakkinn sýndu það máttleysi í verki.
Staða Sjálfstæðisflokksins
Sjálfstæðisflokkurinn fékk gula spjaldið í kosningunum. Staða hans er mikið áhyggjuefni og sérstaklega hér í borginni. Niðurstaðan í borginni var sú versta í sögu flokksins og fylgið hefur helmingast frá því sem áður taldist eðlilegt. Þetta er staðan og menn geta ekki horft fram hjá henni. Það er þó hægt að tala sig inn í hjörtu kjósenda að nýju og endurheimta fallið traust. Stórsigur breska Íhaldsflokksins í síðustu kosningum mætti nefna í þessu samhengi. Það var stærsti sigur flokksins síðan 1987. Sá sigur byggðist alfarið á hollustu forsætisráðherrans til bresku þjóðarinnar; þjóðlegri varðveislustefnu og viðspyrnu gegn ægivaldi möppudýranna í Brussel. Breska þjóðin vaknaði og hafnaði með afgerandi hætti frekara valdaframsali og þjóðlegu niðurbroti. Sá sigur sýnir það svart á hvítu að fallið fylgi er hægt að endurheimta. Það er eiginlega borðleggjandi að fulltrúar okkar sjálfstæðismanna þurfa að fara að hlusta á flokksmenn sína og koma með viðspyrnuáætlun um hvernig við sem þjóð getum eflt þau þjóðlegu grunngildi sem flokkurinn var stofnaður í kringum. Hugrekki skiptir hér höfuðmáli. Þar eru tækifærin ef menn vilja sigra að nýju. Hitt hefur verið reynt og það gengur ekki.
Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.